mánudagur, 29. maí 2017

Gult og annað merkilegt stöff

Magga systir mín er alla jafna í svörtum fötum. Hún litar hárið á sér svart og er með svört gleraugu. Hvort sálin er jafn svört er ekki gott að segja en það mætti halda því fram að svart sé hennar uppáhaldslitur. Þó setur hún mjólk í kaffið og á það til að klæðast bláum gallabuxum. Mér krossbrá þegar hún mætti hingað í vinnuna til mín í heiðgulri regnkápu. Já, ég veit sagði hún, það var bara ekki til svört regnkápa svo ég keypti mér bara gula. Uppreisnarseggur sem hún systir mín er, sjálf var ég í rauðri regnkápu og skyldi engan undra.

Örkuðum af stað systurnar áleiðis í bæinn. Settumst inn á Apótekið og fengum okkur drykk. Áfengi með sítrónusafa og safa úr gulri papriku var samsetning sem ég gat ekki staðist, sumt verður kona einfaldlega að prófa. Fínasti drykkur og alveg í stíl við stílbrot sumra
Þessu næst lá leið okkar systra á Tapas barinn. Þar sem Margrét hafði aldrei svo mikið sem dýft tungu í Sangríu kom ekki annað til en að panta slíkan drykk. Íhuguðum alvarlega að skella okkur bara á könnu en afréðum þó að vera penar og fá okkur einungis sitt hvort glasið og bragða þá bæði hefðbundna Sangríu og hvítvíns
Pöntuðum okkar forréttaplatta fyrir tvo að deila og miðað við stærðina á Sangríu glösunum pöntuðum við bara tvo tapasrétti á mann þrátt fyrir að þjónustustúlkan indæla hefði mælt með fleirri réttum, sem betur fer, plattinn stóð enda á milli okkar systra á borðinu, í orðsins fyllstu, hlaðinn góðgæti. Þrátt fyrir að standa á blístri fengum við okkur af tapasréttunum en enduðum kvöldið á að biðja um hundapoka (hvað er annars gott orð yfir doggie bag á íslensku?).*

Af karlinum er það annars að frétta að í morgun keyrði ég hann í vinnuna. Já, ég sumsé keyrði hann út Samtúnið, bút af Nóatúni út í Borgartún, alla leið að Höfðatorgshorninu. Karlgarmurinn er að jafna sig eftir hnéaðgerð og gengur það býsn vel held ég. Liggjum núna bæði afvelta á sófanum, hann að jafna sig eftir fyrsta vinnudaginn eftir hnéaðgerð, ég að jafna mig eftir ofát. Legg ekki meira á ykkur hróin mín.    

*Vert er að taka fram að hundapoka var ekki þörf fyrir Sangríurnar en þær kláruðum við systur.

Engin ummæli: