þriðjudagur, 23. maí 2017

Kammerför

Bróðir minn kom svo tímanlega að sækja mig á föstudagskvöldið síðasta að ég var rétt nýbyrjuð að úða í mig kvöldmatnum. Dreif mig að sjálfsögðu af stað* og var heldur undrandi á því hversu fá stæði voru laus í bílakjallara Hörpu. Fengum þó stæði og þar sem við vorum svona líka tímanleg örkuðum við beint á barinn. Þar sem við stóðum og kjöftuðum yfir hvítvínsglasi hafði ég á orði hvað það væri lítið af fólki mætt þarna í Hörpu. Fimm í tónleika höskuðum við okkur í átt að dyrunum, dyrum sem reyndust læstar. Komumst að raun um að tónleikahald hefði hafist hálftíma fyrr, hálftímanum sem við eyddum pollróleg yfir vínglasi og kjaftagangi. Alúðleg starfsstúlka hleypti okkur inn í salinn. Vorum rétt sest niður þegar komið var að hléi. Fékk mér annað glas af hvítvíni. Kammersveit Vínar og Berlínar sviku ekki þótt miðarnir okkar væru með kolrangri tímasetningu.

Bróðir minn kom svo aftur á laugardeginum og sótti mig. Brunuðum í blíðviðrinu til Borgarness. Sátum öxl við öxl á kirkjubekk ásamt okkar nánustu fjölskyldu. Fylgdum sómamanninum honum Jóni Sigurvini til grafar. Jóni hennar Imbu frænku. Drukkum kaffi og úðuðum í okkur brauðtertum og rjómatertum á eftir, göntuðumst, spjölluðum og hlógum með skyldfólkinu. Held hann Jósafat hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi. Skrifaði Jósefína Baker í gestabókina. Jón kallaði mig sjaldan neinu öðru nafni.

Langar aftur í blíðviðri helgarinnar. Lífið er svo fallegt í sólskini, svo gaman að vera til í blíðu.

*Hef alltaf látið allt eftir honum**
**Nema reyndar eitt***
***Segi ykkur kannski frá því síðar

Engin ummæli: