Haldið þið ekki að hinn Péturinn í lífi mínu hafi skensað mig seint í gærkvöld á hinum alþjóðlega vettvangi fésbókarinnar fyrir slælega kunnáttu í frönsku, apaði eftir setninguna sem ég lét frá mér, gerði sig breiðan með því að skrifa 42 í tölu-orðum (sem ég gerði ekki) og spurði svo hvort þetta væri rétt. Að sjálfsögðu var þetta ekki alveg allt rétt og í millitíðinni meðan ég svaf á mínu græna eyra skarst hin eina sanna Parísardama í leikinn (enda með 2 tíma forskot) og leiðrétti mig. Allt pent og blessað með það. Mætti samt til vinnu í morgun og bauð Bonjour með nokkrum þjósti en hafði ekki tíma til að staldra við þann þjóst, þvílíkan tíma sem það tekur núorðið að keyra þennan spotta á Sæbrautinni við Hörpu, nánast hljóp við fót niður í búð með skiptimyntina í kassana rétt fyrir opnun, herregúd!
Jæja, ég var svo sem ekkert mikið að velta mér upp úr þessu enda hinn Péturinn í lífi mínu hinn vænsti piltur og við búin að fá okkur kaffisopa saman og hrökkkex með osti og svona. Nema eitthvað barst þetta í tal okkar í millum síðdegis og þar sem ég stend fyrir aftan Pésa og horfi á fésbókina hans yfir öxlina á honum verður mér að orði: af hverju er statusinn minn á ensku?
P: Nú, þú skrifaðir hann á ensku
K: Nei, ég gerði það ekki neitt, þú ert bara búinn að þýða hann
P: Nei, ég gerði það ekki neitt og skil heldur ekkert af hverju þú varst að skrifa þetta á ensku fyrst þú ert að læra frönsku
K: Ég skrifaði þetta á frönsku!
P: Nei, þú sérð að þetta er á ensku!
K: Hvaða rugl er það eiginlega?!
Já krakkar mínir, hlutirnir eru aldrei bara svartir eða hvítir. Svona er einfalt að misskilja hlutina, lesa sitt lítið af sínu úr hverju, túlka hluti á mismunandi hátt og í rauninni alveg fáránlega sáraeinfalt að hrapa að ályktunum, síns eigin að sjálfsögðu.
Við myndarlegi vorum annars að koma af Kex, snæddum prýðis máltíð og dilluðum okkur við dunandi jass. Sigurður Flosason þandi saxafóninn af sinni einstöku prýði svo unun var af að hlýða. Ekkert minna en dásamlegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli