sunnudagur, 17. september 2017

Í morgunmat var þetta helst

Var rétt byrjuð að hugsa um að fara að tygja mig fram úr í morgun þegar mamma og pabbi birtust galvösk með bakarísbakkelsi. Morgunverður frúarinnar samanstóð því af vænni sneið af vínarbrauði, dálaglegum kökubita og gómsætri Berlínarbollu sem var sérstaklega keypt fyrir mig. Sá myndarlegi varð að fá sér einhvað hollt áður en hann dembdi sér í sætindin, veit ekki hvort þetta er líkamlegt ástand en það er honum klárlega ofviða andlega að fá sér bara einhvað sætt strax um leið og mann langar í það, eins og t.d. kökusneið í morgunmat. Samviskan segir honum að hann verði fyrst að fá sér einhvað almennilegt og síðan megi hann leyfa sér annað. Slík samviska angrar mig ekki hið minnsta enda stúlkan orðin stór og getur etið það sem henni sýnist. Það verður hver að fá að vera eins og hann er gjörður.

Vorum að koma úr bíó, sáum Undir Trénu. Ágætis ræma svo sem en djöfull sem mér leiðist annars að fara í bíó, af 2 klukkustundum sóuðum við 45 mínútum í hangsi yfir auglýsingum og hléi, FJÖRUTÍUOGFIMMMÍNÚTUM! Í gærkvöld sat ég í Laugardalshöllinni þar sem sjóið hófst á hárréttum tíma og endaði á áætluðum tíma. Ólíkt bíóferð kvöldsins þá sveif ég út úr Höllinni með hjartað fullt af gleði og óhaminni hamingju. Það er bara einn Páll Óskar og sem betur fer er hann okkar, hvílíkur sjó-maður, maður minn! Að kona tali ekki um óbilandi jákvæðnina og gleðina sem streymir frá þessari heilsteyptu, yndislegu mannveru. Ekki skemmir svo fyrir að strákurinn kann vel að syngja. Halleljúa, *the queen has spoken.

*vitna hér lóðbeint í dívuna sjálfa

Engin ummæli: