fimmtudagur, 6. desember 2018

Fésbókin er eins og gömul frænka

Fésbókin vildi óð og uppvæg benda mér á það um daginn að 11 ár væru liðin síðan ég gekk til liðs við hana. Henni þykir víst svo vænt um mig að hún var búin að búa til handa mér myndband sem hún var æst í að ég myndi deila með öllum heiminum en mér datt ekki í hug að láta það eftir henni. Í myndbandinu var vissulega fyrsta prófílmyndin af mér og einhver haugur af myndum af mér og Pétri (skyldi líklega engan undra) en ég var samt soldið sár að sjá ekki fyrstu myndina af okkur Pétri þarna á þessu fésvídjói. 

Af hverju? gæti einhver spurt. Jú, málið er nefninlega það að mánuði eftir að ég hóf samlífið með fésbókinni leyfði ég bestu vinkonu minni að teyma mig á bar þar sem ég hitt þann myndarlega í fyrsta sinn. Það sem eftir lifði af því kvöldi mændi ég á þann myndarlega, talaði frá mér allt vit og ákvað síðan að stinga hann af.

Af hverju? gætuð þið aftur spurt. Jú, stundin sú var hreint út sagt bara svo frábær að ég vildi eiga hana ósnerta í minningunni. Hvað ég meina með því á ég kannski eftir að segja ykkur síðar frá nema að degi eftir að ég stakk þann myndarlega af á ónefndri ölstofu hér í bæ fékk ég skilaboð á fésbókinni frá rauðhærðum manni með rammskakka fremri tönn sem þótti víst afar leitt að hafa misst af mér kvöldinu áður og vildi endilega fá að hitta mig aftur og ég sat við tölvuna mína í ponku skonsunni minni í Skaftahlíð og hugsaði WHAT?! Hringdi í snarhasti í vinkonu mína og spurði hana hvort maðurinn sem ég hefði hitt kvöldinu áður væri ekki örugglega dökkhærður með þráðbeinar tennur? Besta vinkona mín svaraði með "Katla mín, þetta var G.Pétur Matthíasson, fréttamaður " og ég svaraði; nei, hann vinnur hjá Vegagerðinni þessi sem ég hitti í gær!

Síðan eru liðin einhver ár en við Pétur getum víst ekki neitað fésbókinni um að hafa spilað stórt hlutverk í lífi okkar og því vel við hæfi að birta hér fyrstu myndina af okkur á fésinu 
Sigurbjörg og Guðmundur

fimmtudagur, 22. nóvember 2018

Wake me up

before you go-go ómaði í bílnum í gærmorgunn, ef morgunn skyldi kalla. Lagið vel við hæfi, karlinn var að go-go alla leið til Stokkhólms. Í vinnuferð. Nei, ég nennti ekki að keyra hann alla leið til Keflavíkur, BSÍ varð að duga.

"Nú er að finna uppskriftir" sendi sá myndarlegi mér í sms-i í dag. Þið munið kannski einhver eftir þessari bloggfærslu? Ekki bara er eiginmaðurinn búinn að kaupa sama magn af kantarellum, hann hefur einnig fest kaup á tylft af öðrum sveppum sem jú, ég verð að viðurkenna að líta mjög vel út, en ég hef ekki hugmynd um hvaða tegund af sveppum þetta eru.

Sá myndarlegi kemur heim á morgunn. Þá verð ég farin til Lundúnar. 

föstudagur, 16. nóvember 2018

Silkislök á degi íslenskrar tungu

Þar sem ég kom akandi upp Ægisgötu, reiðubúin að beygja til hægri, sá ég bíl koma upp Túngötuna og steig því á bremsuna sem reyndist svo óþarfi þar sem Túngötubifreiðin beygði án þess að detta í hug að setja á stefnuljós því til kynna. Ökumaðurinn fyrir aftan mig var ekki jafn fljótur að stíga á bremsuna og ég. Út úr bílnum snaraðist skeggjaður ungmaður með afsökunarorð á vörum, reiðubúinn að játa á sig aftanákeyrslusök. 

Sjálf var ég sultuslök, fljótandi af yfirvegun eftir klukkustundaflot í Hydra Float kvöldinu áður. Reyndi að sannfæra ungmanninn um að fall væri fararheill og helgin framundan hlyti að verða okkur báðum góð. Meint aftanákeyrsla reyndist meira núningur og ekki neitt að sjá á bifreiðinni. 

Hlusta núna á ömmudjass og snarkið í kjúklingabringunum á pönnunni. Var búin að lofa þeim myndarlega spakkettíi í kvöld en skipti svo um skoðun í búðinni. Svei mér þá ef ég flýt ekki enn af vellíðan og ró.

Er á því að afslöppun sé vanmetin í nútíma samfélagi. Stefnuljós því miður líka.

föstudagur, 9. nóvember 2018

Annar í Örkinni hans Nóa


Að seinna sinni tók ég enga sjénsa og fylgdi uppskriftinni útí ystu æsar, snéri meira að segja skálinni á hvolf til að vera nú alveg viss um að hafa Mögguþeyting á sykurblönduðum eggjahvítunum. Viti menn, gumsið stóð stíft svo ég var fljót að skófla því í tvö form og henda inní ofn. 

Dró út skúffur og skellti allskyns slikkeríi frá Nóa og Síríus á borðið, að undanskildum kókosbollunum. Sótti jarðarber í ísskápinn. Þeytti rjóma. Fullt af rjóma. 

Morguninn eftir vaknaði ég snemma. Bræddi Nóa rjómakúlur og rjóma í potti. Stakk mér í sturtu meðan bræðingurinn kólnaði.

Eftir sturtu dundaði ég mér við að láta kúlusósuna leka yfir marengsturninn. Dreif mig svo í vinnuna með bombuna í farþegasætinu frammí. Getið sveiað ykkur uppá að vinnufélögunum leiddist ekki vitundar ögn að neyðast til að gúffa þessari dásemd í sig með morgunkaffinu

Fyrir áhugasama get ég staðfest að umrædd marengsterta (í síðustu 2 færslum frúarinnar) er að finna í nýjasta kökubæklingi Nóa-Síríus 

Príma bomba.

sunnudagur, 4. nóvember 2018

Örkin hans Nóa

OK, ég það til að vera óþolinmóð (næstum aldrei samt), þess vegna hugsaði ég nei, Magga systir myndi segja mér að hræra lengur þegar ég var eiginlega viss um að eggjahvítusykurhræringur Kitchen Aid-vélarinnar væri nægur. Svo ég lét þá rauðu snúa áfram þar til mér var allri lokið og ákvað að nóg væri nóg. Uppskriftin segir að hangi stöffið fast í skálinni, sé henni snúið á hvolf, þá séu eggjahvíturnar klárar. Nema ég var ekkert að ómaka mig við slíka smámuni en þar sem ég dreifði þessu í formunum tveimur hugsaði ég andskotakornið, Magga systir hefði nú hrært þetta lengur.

Nú verður ekki aftur snúið, ofninn var orðinn heitur og ég flýtti mér að skella formunum inn. Lyktin sem fyllir húsið er verulega góð en botnarnir sem myndast við að myndast þarna inni líta bara alls ekki neitt út eins og marengsbotnar!

Þessari færslu fylgja því engar myndir heldur þetta lauflétta, hressa lag sem ég mæli með að hlustað sé á til enda



fimmtudagur, 25. október 2018

Af lopahúfu og lúðu

Það sem ég var fegin að hafa gripið lopahúfuna, sem mamma prjónaði handa mér, er ég þaut til vinnu í morgun. Vindurinn sem lamdi kinnarnar kaldar, er ég arkaði heim úr vinnu,  sannfærði mig um að veturinn er í nánd. Ef þið eruð hugsanlega að velta því fyrir ykkur hvort þetta er hann E.T. sem trónir þarna á hausnum á mér þá get ég sagt ykkur að svo er ekki. Mamma mín prjónaði þessa lopahúfu handa kattastelpunni sinni. Þetta eru sumsé kettir. Þegar móðir mín kær færði mér húfuna hugsaði ég jæja mamma, nú hefuru alveg farið með það, þessa húfu nota ég aldrei! 

Eins og svo sem áður hafði ég kolrangt fyrir mér en móðir mín rétt fyrir sér, hef hundraðogþúsund sinnum notað þessa lopahúfu.

Þegar sá myndarlegi kemur heim ætla ég að steikja lúðu. Steikt lúða er uppáhalds maturinn minn og pabba míns. Þar hafið þið það.

föstudagur, 19. október 2018

Einu sinni var

Labbaði Laugaveginn heim eftir vinnu í gær. Þrátt fyrir rigningarrok var bærinn smekkfullur af erlendum ferðamönnum, sem er svo sem engin nýlunda. Nema í gær var stemmingin öðruvísi, fyrir utan flesta veitingastaði stóðu enskumælandi ungmenni, meirihlutinn reykjandi, þó nokkrir með glas í hönd, fyrir-partý-fílingur í haustloftinu.  Svo mikill reyndar að ég fór að hugsa um sjálfa mig fyrir örfáum þónokkrum árum síðan, djammfiðringinn sem hófst á fimmtudögum, djammfiðringinn sem var settur í gang á föstudögum, djammfiðringurinn sem náði hámarki á laugardögum. Hvað með sunnudaga spyrjið þið? Það man ég ekki lengur.

Í gær sumsé arkaði ungfrúin beinustu leiðina heim og tók til við eldamennsku. Steikti kjúklingabringur, sauð pasta í potti (en ekki hvað?) og bætti niðurskornu spergilkáli út í pottinn þann fjórum mínútum áður en suðu lauk. Skornum kjúklingabringum ásamt pasta og spergilkáli blandað saman við grænt pestó og sólþurrkaða tómata. Við myndarlegi rifum parmesan yfir og nutum vel.
Príma réttur.                         
Nýeldaður í gær, príma góður kaldur pastaréttur í kvöld. Fölbleik, bleik og fjólublá kerti loga eins og hér sést
Veit ekki með ykkur en á föstudags-haust-kveldi finnst mér þetta kósí enda var ég að gúffa í mig afgöngum gærkvöldsins. Sá myndarlegi var að skríða inn úr dyrunum, örþreyttur eftir að hafa skemmt háskólanemum í lyfjafræði og tónlistarnemum í Listháskóla Íslands.

Á morgun förum við í afmæli hjá barnabarninu.

Mér er þó ekki alls varnað (annað en hægt er að segja um karlinn), annað kvöld ætla ég að hitta vinkonur mínar og drekka með þeim rauðvín. Helljá!

sunnudagur, 14. október 2018

Sól og svört ský

Sól glampar á Meðalfellsvatn, ferskur vindur ýfir lauflausar trjágreinar og mild rigning stígur laufléttan dans í takt. Sinfónía trjávinds og vatnsgutls endurkastast í sólskininu. 

Í gær eldaði ég ferskt rauðkál í fyrsta skipti á minni tæplega miðaldra ævi. Ykkur finnst það kannski ekkert merkilegt en mér fannst það skemmtilegt. Heiti potturinn á veröndinni virkar ekki og því hafa pottferðir ekki verið neinar þessa helgina, það finnst mér ekki skemmtilegt, ekki síst með tilliti til þess að haustveðrið hefur leikið við okkur.

Við sem förum aldrei í Eyjakrók án þess að það sé veður. C'est la vie.

fimmtudagur, 11. október 2018

Dembdi mér í uppáhalds ræktina beint eftir vinnu.

Sá myndarlegi var búinn að hafa á orði að það væri skítaveður en sú var aldeilis ekki raunin. Vissulega blés hann hraustlega við hornið á Hörpu og ég neita því ekki að það var dulítil skemmtun fólgin í því að sjá eymingjans túrhestana berjast við rokið við Sæbrautina á leið minni heim. Sjálf hallaði ég mér hæfilega fram á við til að taka á móti rokinu í fangið, gaf ekkert eftir af gönguhraða nema þá helst í þau skipti sem ég snarstansaði til að mynda ský eða dást að birtunni sem braust á móti grámanum 
                   












Vindur og logn, birta og dimma, grámi og sterkir litir, blástur og stilla, friðsæld og fegurð 
Meira undrið þetta haust.

mánudagur, 8. október 2018

Pulsa eða pylsa?

Renndum í bæinn rétt undir kvöldmat í gærkvöld. Eiginmaðurinn þráði að komast undir sturtuna og í náttföt svo ég fór í búð. Eljan til að elda var ekki mikil svo pylsuréttur Hallveigar systur varð fyrir kvöldmatarvalinu. Allir og amma hans voru að versla en ég hélt þreyttum fókus á innihaldi pylsuréttar Hallveigar systur. Mundi líka eftir því að kaupa mjólk og brauð.

Karlinn var svo ansi frískur eftir sturtuna að hann bauðst til að elda. Skar niður beikon og lauk og hvítlauk (sem er reyndar ekki í hefðbundnum pylsurétti Hallveigar systur) og sveppi. Stakk mjólkinni inní ísskáp, setti brauðið í skúffuna og opnaði dós af bökuðum baunum. Í miðri steikingu snýr hann sér að eiginkonunni, sem var rétt að komast í náttfötin, og spyr hvar eru pylsurnar?

Rauk í larfa og brunaði aftur í búðina. Það eru jú víst pylsur í pylsurétti Hallveigar systur, ekki hægt að neita því.

sunnudagur, 23. september 2018

Næstum því

Daney, systurdóttir mín, var að kveðja. Sunna systir hennar kom að sækja hana. Við myndarlegi gengum aðeins frá og núna er hann farinn í rúmið. Ég sit og klára dreggjar kvöldsins. 

Meðan sá myndarlegi fór og setti upp innréttingu og vask fyrir dóttur sína og fór í Húsasmiðjuna með sætasta afabarnið og gaf henni pylsu labbaði ég í búðir í blíðunni; mjólkurbúðina, blómabúðina og matvörubúðina. Kláraði bók eftir Gorkí og byrjaði á bók eftir Oksanen.

Skar niður sætar kartöflur, sem litu út eins og skúlptúrar, og steikti í ólafíuolíu. Dembi Mangókarríkryddi yfir og bætti svo um betur með hvítlauk, engifer og rauðlauk. Reytti blómkálshöfuð ofan í matvinnsluvél og sperrti maskínuna þar til kálið leit út eins og grjón. Smellti vænni gúmmu af rauðu karrípeisti útí pottinn þar sem allt snarkaði og mallaði og bætti um betur með dós af kjúklingabaunum (ásamt safa) og eitthvað af soðnu vatni.

Meðan allt af ofantöldu (eða allavega eitthvað af ofantöldu) mallaði í potti lagði ég á borð, henti afskornum blómkálsstilkum útí bubblandi pottinn, skar niður lime, hentist upp í svefnherbergi og skipti um bol, þaut niður tröppurnar og inní betri stofuna þar sem ég sótti flösku af ljósu rommi, hljóp aftur upp stigann, bætti á svitalyktareyðinn og leit í spegil, ákvað að setja á mig maskara þrátt fyrir að kvöldið ætti að vera "afslappað".

Bað eiginmanninn, sem sat í betri stofunni og þóttist lesa blað, að deila í kokteil sem átti að vera fyrir 12 í drykk fyrir þrjá! Sá myndarlegi greiddi snöfurmannlega úr því og þar sem ég stóð og íhugaði fjandakornið ekkert hringdi dyrabjallan!

Daney var mætt og dregin inn. Skar 2 lime í báta, sótti 12 myntulauf útí pott á veröndinni, mældi 3 matskeiðar af sykurlausn úr ískápnum útí og viti menn, dyrabjallan hringdi aftur!

Arna, besta vinkona mín í öllum geiminum, var mætt og dregin inn og skálað var og etið og drukkið og hlustað á tónlist og allt það nema hvað, Arna reykir Cigill (mín tegund) og þar sem hún er rétt nýhorfin út á verönd opnar hún verandarhurðina og kallar; norðurljós, komið þið og sjáið norðurljósin! Nema við sem sátum inni nenntum ekki alveg á lappir og Arna öskraði; Hvað er að ykkur?! Svo ég stökk á fætur og litadýrðin sem mætti mér, sindrandi græn-gul og fjólublá og ég öskraði á þann myndarlega og Daney að koma út því þessi dýrð væri einstök!!

Og Daney stóð fyrir aftan mig og sá myndarlegi mundaði myndavélina uppí loftið og svo aftur uppí loftið og hvað eina sem honum datt í hug! Nema, svo hættu bara norðurljósin, og við Daney settumst við borðið, og brostum til hvor annarar.

þriðjudagur, 7. ágúst 2018

Já vindur, blástu bara!

Létum loksins verða af því að ganga Glymhring. Við tvö og allir hinir túrhestarnir. Vorum heppin að fá stæði á bílaplaninu. Stóðum í röð til að komast að trjádrumbnum. Sættum lagi að taka myndir, túrhestalausar myndir þ.e.a.s. Gleyptum í okkur náttúrudýrðina og veðrið. Maður minn, hvílíkt veður! Á heimleiðinni leyfðum við okkur að hlakka til að setjast útá verönd og halda áfram að njóta blíðunnar en nei, ó nei, vindurinn tók hvínandi á móti okkur, gnauðaði í okkur hálfgerðan vetrarhroll og blés okkur í svefn um kvöldið.

Á mánudags þriðjudegi get ég alveg sagt ykkur að löng helgin var alveg svakalega fín. Fór út að borða með vinkonu minni. Fór líka með henni á svaðalegt djamm. Svakalegt stuð. Þar til ég vaknaði daginn eftir. Timburmenn á fimmtugsaldri eru hreint ekkert spennandi, segi ykkur það satt. Fór líka í feikn góðan bíltúr með ektamanninum, las tvær bækur, fór aftur út að borða, mændi á Netflix, hámaði í mig hnetur frá Grikklandi, gaf heilsurækt og heimilisstörfum langt nef, drakk kaffi í rúminu.

Labbaði heim eftir vinnu með vindinn í fanginu. Ætla enn og aftur út að borða í kvöld.

þriðjudagur, 31. júlí 2018

Papa don't preach!

Oftar en ekki nota ég meiri hvítlauk en tiltekinn er þegar ég elda eftir uppskrift. Eiginmaðurinn setur alltaf meira krydd. Hinsvegar kreistum við iðulega minna af sítrónusafa þrátt fyrir að nýkreistur sítrónusafi á fingrum sé himneskur ilmur. 


Í kvöld skar ég sítrónu á stærð við appelsínu í tvennt og kreisti annann helminginn yfir rauðlauk, kjúklingabaunir, hvítlauk, edamamebaunir, cumin og papriku frá Marokkó, Ketjap Manis, Tabaskó og ólafíuolíu. Úr varð hið prýðilegasta salat. Baunasalat. 

Meðan eiginmaðurinn grillaði eggaldin og Halloumi ost dýfðum við Unnsa ofnbökuðu pítubrauði í himneskann hummus þess myndarlega og teyguðum bjór.

Töluðum um ketti og Hamingjuhöll og bækur og ketti og skáldskap og Hamingjuhöll og drauga og félagsheimili og fjallasýn og sirkus og Grund og æsku og Hamingjuhöll.

Hinn helminginn af sítrónunni kreisti ég útí ólafíuolíu, Tabaskósósu, salt og smátt skorinn hvítlauk. Prýðis dressíng sem við ýrðum yfir grillað eggaldinið og Hallúmíostinn. Drukkum rauðvín með stjörnum á miðanum.

Karlinn fleygði sér á sófann og við vinkonurnar opnuðum aðra flösku, skiptum út stjörnum fyrir engil. Héldum áfram að skála fyrir Hamingjuhöll og skáldskap og köttum og óráðinni framtíð og hvorug okkur leiddi hugann að því að við gætum endað á Grund.





Rétt í þessu var vinkona mín að stinga sér út í rigninguna. Eftir þrjá daga ætlum við að fara saman út að borða. Hverjum er ekki líka sama, eftir þriggja áratuga vináttu, hvort við endum í Hamingjuhöll eða á Grund?



þriðjudagur, 24. júlí 2018

Vil frekar rósir en byssur

Vaknaði spræk í gærmorgunn og mætti aftur til vinnu eftir frí (ef frí skyldi kalla). Ég hlakkaði til að fara í jógatíma eftir daginn, ætlaði svoleiðis að fetta úr mér 7 daga erfiða gönguferð, teygja úr mér 8 km fjörugönguna sem ætlaði mig lifandi að drepa, leyfa túrhestastöðunum að flæða úr vitund minni og hylla gestrisni mína. Djúp öndun og slökun og nei, aldeilis ekki, níræðir foreldrar eiginmannsin lentu í pati með sjónvarpið og von á syninum í fréttum svo að sjálfsögðu rauk hann af stað. Lái honum hver sem vill. 

Sjálf rauk ég af stað í göngu, gekk hratt, sveiflaði höndum og andaði hraustlega inn um nefið. Gekk ranghala Laugardalsins og rakst á treilerinn þeirra þarna í Byssum og Rósum. Kom mér á óvart hvað glugginn þeirra er hlýlegur, áreiðanlega heilbrigðir og bjartsýnir þessir amerísku piltar. 

Var töluvert minna spræk í morgunn. Nennti ekki í göngutúr eftir vinnu. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og lét orð þess myndarlega um að nota nú gírana sem vind um eyru þjóta er ég þeysti út heimreiðina. Steig pedalana af meiri krafti en vinnuelja dagsins gaf í skyn að ég byggi yfir. Rann framhjá lengju af liði í röð, sveigði framhjá fjölda af fógangandi fólki með bjór í hönd, miðaldra kellur á hælum með rauða tóbaksklúta bundna um höfuð, ekki minna miðaldra karlar með ístrur í Byssum og Rósum bolum. Jú, get ekki neitað því að ákveðin lög eins Paradísarborg, Nóvember rigning, Ó mitt blíða barn og Þolinmæði fá mig stundum til að hækka í útvarpinu, sér í lagi í bílnum. Er samt ekkert sérstaklega þessi þungarokkstýpa, meira svona Eydísarpoppdíva, þið vitið. Já, auðvitað var ég með reiðhjólahjálminn á mér

þriðjudagur, 26. júní 2018

Má hálfleikur ekki heita hlé?

Enginn á ferli á göngustígnum meðfram sjónum við Sæbraut nema ég og rokið. Fannst ég sjá álengdar tvær manneskjur við Sólfarið og gekk að því sem vísu að þar myndu erlendir ferðamenn vera á ferð. Við Sólfarið rakst ég samt bara á einn hettumáf svo líklega var þetta huldufólk sem ég sá. Huldufólk sem hefur drifið sig heim að horfa á þennan fótboltaleik sem er víst í sjónvarpinu. 

Á kaffi Haítí hitti ég Eldu vinkonu mína sem malaði stórann poka af dökkum baunum fyrir mig í 2 litla poka og gaf mér því næst fantagóðan og sterkan kapútsjínó. Elda hefur álíka áhuga á fótbolta og ég svo við áttum gott spjall ásamt því að reyna á frönskukunnáttu mína (og veitti ekki af).

Var að bíta í sítrónumakkarónu á Apótekinu. Er þessi leikur annars ekkert að verða búinn?

mánudagur, 18. júní 2018

Áratugur flýgur hjá

Ég kynntist þeim myndarlega fyrsta laugardag janúarmánaðar 2008. Rúmum mánuði síðar stóð hann frammi fyrir því að kaupa afmælisgjöf fyrir þessa nýtilkomnu hjásvæfu sína. Verkið leysti hann snöfurmannlega af hendi eins og hans er von og vísa og kannski segi ég ykkur betur frá því síðar. 

Fjórum mánuðum síðar var komið að mér. Ég gaf þeim myndarlega matreiðslubók sem var í miklu uppáhaldi hjá mér og ber það skemmtilega heiti Cooking with booze ásamt hressu korti af áttræðri kellu í spíkat (kommon, ég var nú bara 32 ára meðan hann skreið óðfluga á fimmtugsaldur!). Að auki gerði ég dauðaleit að Líbönsku rauðvíni til að skenkja með Líbanska réttinum sem ég eldaði fyrir hann afmælisdaginn þann.

Til að gera langa sögu stutta þá eru tíu ár liðin síðan þá. Í kvöld dembdi ég jarðarberjum og hindberjum í skál og skenkti þeim myndarlega kampavín í tilefni dagsins. Klippti og garnhreinsaði humar. Bræddi saman smjör, hvítlauk og steinselju í potti. Makaði yfir galopinn humarinn og stakk honum því næst undir grillið í 5 mínútur. 

Sá myndarlegi skríður óðfluga yfir á sex-tugsaldurinn. Hann hefur aldrei eldað eina einustu uppskrift uppúr Cooking with booze.

föstudagur, 1. júní 2018

Jú, það er smá gjóla á veröndinni

en sólin skín og fuglarnir syngja og ljúfur jassinn streymir út um verandarhurðina og nágranninn er að mála kofann í næsta garði rauðan svo ég læt mig hafa það.

Í morgun lét ég mig hafa það að rífa mig á lappir í næturmorgunsárið til að keyra þann myndarlega og eldri son hans á Keflavíkurflugvöll. Síðan þá eru þeir feðgar búnir að sitja í vél Icelandair á Schippol í 40 mínútur og þegar þeir loksins komust inn á flugvöllinn sjálfann komust þeir að því að tengifluginu þeirra til Grikklands var frestað um 50 mínútur. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þeir hafi náð því flugi og muni eiga frábæra ferð í vændum, fall er jú faraheill.

Sjálf íhugaði ég að fara bara í ræktina fyrst ég var komin á lappir svona snemma en keyrði svo bara heim og fór beint uppí rúm aftur. Hringaði mig niður í mitt rúmið en í staðin fyrir að sofna fór hugurinn á flug. Fyrsta sem ég hugsaði var; hvar ætli Dagur sé? En í staðinn fyrir að brölta aftur fram úr, til að sækja köttinn, til að hringa okkur saman niður í mitt rúmið, áttaði ég mig á því að ég væri alveg ein. Galein. Bylti mér í rúminu og snúsaði klukkuna þegar hún fór að glymja. Snúsaði þar til ég neyddist til að fara framúr.

Núna sumsé sit ég úti á verönd og sötra kampavín. Mitt uppáhalds kampavín. Karlinn var ekki búinn að fara í tengiflugið þegar búið var að spyrða mig saman við annann mann, nefninlega nafna hans í Melabúðinni, "þið hjónin" var sagt við okkur og við Pési hlógum bara. Hvað annað áttum við svo sem að gera? Við Pési eigum það þó sameiginlegt að elska ekki bara kampavín heldur er Gula Ekkjan í okkar uppáhaldi, okkur þykir vænna um dýr en menn og eigum ekki börn. Þess utan sitjum við jú saman alla virka daga en andskotinn hafi það, er hjónasvipur með okkur?

mánudagur, 28. maí 2018

Mmmmmmmmaaaaangó Tttttttttttttjötney

Munið þið eftir því þegar þriðja hver uppskrift, ef ekki önnur hver, var með mango chutney? Þriðjungur allra kjúklingauppskrifta, helmingur allra fiskuppskrifta, hver ein og einasta laxuppskrift. Finnst eins og þetta hafi verið í fyrradag en þegar ég íhuga það betur finnst mér líka að ég hafi einmitt búið ein (með Degi) í Skaftahlíð þegar mangó tjötney var uppá sitt besta og fyrst ég er komin þangað þá gæti verið að sirka tugur sé síðan þó það hljómi vissulega jafn fáránlega og að ég hafi rétt í þessu litið út um gluggann og séð bleikan einhyrning fljúga í gegnum skýin með Whitney Houston á bakinu.

Nema ég fann krukku af mangó chutney inní skáp um daginn. Keypti fisk í vinnunni minnug allra þessara fiskuppskrifta á chutney-tímabilinu. Var ekki með neina sérstaka uppskrift í huga, steikti bara það grænmeti sem ég gat dregið fram úr ísskápnum og smellti í ofnast mót ásamt þorskinum. Átti jarðarberjajógúrt á síðasta snúning og ákvað að demba chötneyinu útí hana ásamt karrídufti og shriracha-sósu. Dembdi þessu á fiskinn og grænmetið og sáldraði rifnum osti yfir. Sauð hrísgrjón meðan þetta mallaði í ofninum. Príma máltíð skal ég segja ykkur.

Nema krukkan af mango chutneyinu var svona löng og mjó og ég náði ekki að klára hana svo hún endasendist inní ísskáp. Í kvöld var ég ekki heldur með neina uppskrift og nennti ekki heldur að kaupa neitt í matinn. Meðan sá myndarlegi púlaði í ræktinni rýndi ég í ísskápinn. Skar niður og steikti kartöflur, rauða papriku og skinku, dembdi afgangi af soðnum hrísgrjónum yfir ásamt karrímangókryddi og JÁ, þið giskuðuð á það! Mango chutney!! Dró krukkuna fram og skellti vænum matskeiðum útá pönnuna. Þegar sá myndarlegi kom heim braut ég 4 egg út á herlegheitin og hrærði vel saman.

Úr varð hinn prýðilegasti réttur nema ég er ekki enn búin að klára mangó tjötneyið! Já, þessi krukka ER löng og mjó og mín spurning er; hvað á ég eiginlega að gera við restina? Svör óskast.

miðvikudagur, 16. maí 2018

Kvílíkur kjarkur

Mánudagurinn kom í hendingskasti og áður en ég vissi af var kominn þriðjudagur. 

Í dag er miðvikudagur og sá myndarlegi bauð mér út að borða í hádeginu. Reyndum að rifja upp hvenær við hefðum síðast farið út að borða í hádeginu á virkum degi. Eina sem við munum eftir er þegar sá myndarlegi bauð mér í hádegisverð á afmælinu mínu á veitingastað í Bankastræti sem er ekki lengur til og Ari frændi bankaði á rúðuna meðan við vorum að borða. Þá vorum við Pétur búin að þekkjast í heilan mánuð og höfum síðan siglt bæði saltan og lygnan sjó og afrekað að fara aftur út að borða í hádeginu á virkum degi.

Sunnudaginn sem leið vorum við húðlöt að vanda en ákváðum engu að síður að skilja sólina eftir á veröndinni og drífa okkur á Helgafellið (einmitt, fellið ekki fjallið). Var fljót að stinga uppá að snúa bara aftur heim á veröndina er rokið lamdi á okkur á bílaplaninu en sá myndarlegi rak mig áfram með sinni samviskuhendi. Fórum allt aðra leið en við erum vön, leið sem svei mér þá gerði fellið að meira fjalli og var fjandi skemmtileg bara. 

Rákumst af og til á erlenda konu sem bauðst til að taka mynd af okkur og við svo af henni á toppnum, smá spjall hér, smá spjall þar. Enduðum á því að keyra konuna heim og komumst að því að hún er svo ástfangin af Íslandi að hún ákvað að flytja hingað. Eiginmaðurinn, sem hún kynntist þegar hún var 18 ára, var skilinn eftir heima og foreldrum hennar finnst hún vera klikkuð að gera þetta en hún tók skrefið og hefur síðan þá fengið vinnu sem hún hefur gaman af, fundið sér íbúð miðsvæðis þar sem hún elskar að vera, farið í göngur við öll tækifæri, hitt skemmtilegt fólk en fyrst og síðast kynnst sjálfri sér og fundið hamingju í því að vera hún.

Hvílíkt hugrekki hugsaði ég sem sjálf afrekaði það helst að hunskast út fyrir hússins dyr þann daginn.

miðvikudagur, 2. maí 2018

Maríneraðar símafréttir Sigurbjargar

Lambakjötið trufflumaríneraða var í bitum og þrætt uppá grillspjót. Eiginmaðurinn var búinn að gíra sig upp í grillgírinn og sólin skein er hann fíraði upp í garminum. Rétt í þann mund er hann ætlaði að skella kjötinu á grillið kláraðist gasið. Fyrsta "grill" sumarsins átti sér því stað innandyra á vel notaðri grillpönnu heimilisins. 

Jeff hjá Símanum er ekki búinn að senda mér póst. Kannski að hann hafi náð á þessa Sigurbjörgu eftir allt saman.

þriðjudagur, 1. maí 2018

Á enn eftir að hengja úr vél

Ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að rjúka á fætur á frídegi, hella uppá kaffi fyrir eiginmanninn og rjúka því næst í ræktina hefði ég svarað viðkomandi fyrr dansa ég húlla í helvíti! Á frídegi verkalýðsins rauk ég á fætur, hellti uppá kaffi fyrir eiginmanninn og rauk því næst í ræktina.

Af öðrum háu ljósum frídagsins ber þar hæst að

  • Eftir ræktarpúlið drifum við myndarlegi okkur í allsherjarþrif hér á heimilinu enda töluvert löngu tímabært, búið að standa fyrir þrifum ansi lengi. 
  • Gúffaði í mig vöfflur með rjóma og jarðarberjum og ís og sultutaui sem Ásta og Tóta voru ansi duglegar að greina en sannast sagna hef ég ekki hugmynd hvaðan sultutauið kemur eða hvurslags tau er um að ræða. Kannast einhver við að hafa gefið okkur sultu í krukku utanaf tómatpúrru?
  • Litaði og spjallaði og skoðaði ljósmyndir með sætasta afabarninu.
  • Tókst að losa mig við kippu af hálfs lítra Epla Kristal.
  • Setti í þvottavél.
  • Fékk þá flugu í höfuðið að sumarið væri alveg að koma þrátt fyrir haglélin inn á milli sólríkjunnar.
  • Borðaði lambakjöt í trufflumaríneringu í kvöldmat.
Drakk rauðvínsglas með matnum. Er ekki búin að hengja upp úr vélinni. Ætla að fá mér annað rauðvínsglas og horfa á fyrsta þáttinn af the Crown. Er ekki heldur búin að dansa húlla í helvíti.

mánudagur, 30. apríl 2018

Sibba og Gummi

Farsíminn hringir. Þekki ekki númerið svo ég svara;

K: Katla.
J: Já, góðan daginn, Jeff heiti ég og hringi frá Símanum.
K: Sæll.
J: Sæl, ég var að vonast til að ná á Sigurbjörgu.
K: Þú ert að tala við hana.
J: Ha?
K: Ég heiti Sigurbjörg Katla.
J: Já, akkúrat, afsakaðu.
K: *þögn*
J: Já, ég var sumsé að skoða áskriftina ykkar Guðmundar og sé að þið eru með blablabla, bliblibli og mig langar til að bjóða ykkur Guðmundi blobloblo, blehblehbleh
K: Fyrirgefðu en væri ekki ráð að þú sendir mér tölvupóst varðandi þetta svo við Gummi getum skoðað þetta saman.
J: Jú, að sjálfsögðu, ég fæ þá kannski að hringja svo í þig aftur eftir nokkra daga?
K: Slærðu ekki bara á þráðinn til Gumma?

Nú mun ég bíða spennt eftir að heyra hvort Jeff eigi eftir að hringja í Guðmund Pétur, eiginmann minn eða hvort hann muni hringja í Guðmund Helga, fyrrverandi sambýlismann minn. Væri gaman ef hann hringdi í þann síðarnefnda, sér í lagi ef núverandi sambýliskona þáverandi myndi svara í símann, hún heitir nefnilega líka Sigurbjörg.

sunnudagur, 29. apríl 2018

Af sérkennilegri birtu í Kjós eða þannig

Það var eiginlega skrýtið að taka beygjuna inn afleggjarann að Meðalfellsvatni í birtu og blíðu á föstudagskveldi. Engu að síður var það næstum því eins og að koma heim þegar við bárum dótið inn í Krókinn, Eyjakrókinn okkar sem við myndarlegi heimsækjum helst tvisvar á ári. 

Hér við vatnið höfum við ófáa máltíðina mallað og ýmislegt brallað saman tvö. Hér höfum við hámað í okkur bækur, lært undir próf, drukkið áfengi af ýmsum toga og iðulega hlaupið nakin í pottinn (nei, það hefur ekkert með áfengið að gera). 

Af hverju hlaupum við svo í pottinn, gætuð þið spurt? Jú, vegna þess að það er nær undantekningarlaust alltaf veður þegar við myndarlegi erum hér. Hingað höfum við ekið í rigningu, slyddu, snjó og hríð. Ávalt í myrkri. Höfum aldrei farið útá vatnið í bát en nokkrum sinnum gengið það á ís.

Hingað komum við ávalt hlaðin bókum og mat og drykk með náttföt og hlýja sokka. Einu sinni séð stjörnufylltan himinn í heita pottinum. Það var dýrtíð. Aldrei að vita nema við náum því aftur einhverju sinni. Hingað til höfum við þó alltaf náð öllum prófum sem við höfum lært undir hér, meira að segja stærðfræðiprófinu sem ég tók hér um árið. Þá er nú mikið sagt.

Það er líka eitthvað svo gott við að kúldrast hér í veðri, kúpla sig út frá restinni af tilverunni, sökkva sér í bækur, skrifa bréf til fjarlægra landa, sitja í heita pottinum með kalt nef og jafnvel hvin í eyrum, kósa sig undir teppi með myndarlegum manni, kannski kalt á tánum já en hlýtt í hjartanu.

Get ekkert útskýrt þetta neitt betur eða  meira.

föstudagur, 27. apríl 2018

Í rigningunni í Reykjavík í gær

sveif hugur frúarinnar til vorsins í París
Harrí á himnum hvað vorið í París er dásamlegt! Að vísu var hitabylgja síðustu helgi sem gerði það að verkum að vorið varð að hásumri og ég brann á fyrsta degi. Fékk eldrauðan kraga um hálsinn en kvartaði ekki, drakk bara kampavín í lítravís, spókaði mig um á götum Parísar í kjól, kyssti karlinn, góndi á turninn að degi, miðdegi, síðdegi og kvöldi, fékk mér tiramisú og sítrónusorbet, fór í uppáhalds búðina mína, mændi á Monet og fékk mér meira kampavín.

Meira dúndrið þetta Leggja-app. Fórum í Hörpu í gærkvöld og í staðinn fyrir að hanga í röð við maskínuna í bílakjallaranum stimplaði ég bílinn í stæði meðan sá myndarlegi lagði. Fórum á Amadeus, bíótónleika. Sinfónían spilaði undir og Mótettukórinn söng. Harrí á himnum hvað þetta var flott að kona tali nú ekki um myndina sjálfa! Ríflega 3 áratugum síðar er myndin enn skemmtilegri en þegar ég sá hana síðast. Viðurkenni fúslega að ég saknaði bróður míns en við sáum myndina saman þarna fyrir þessum örfáu árum. Sá myndarlegi kom þó svo sem ekki að sök, frekar en fyrri daginn, og ég mundi eftir því að afleggja tíkinni á appinu þegar við fórum.

Í dag skein svo sólin og lét eins og sumarið væri ekki bara komið á dagatalinu. Harrí á himnum hvað það var yndislegt, næstum eins og París, munaði bara um 20 stigum.

miðvikudagur, 25. apríl 2018

Kirk og allir hinir gríslingarnir

Mudd heyrðist öskrað úr stofunni þegar ég kom heim. Greinileg átök í gangi með svaðalegum svoossh-hljóðum. Captain kallar einhver meðan ég fer úr skónum. Dramatísk tónlist læðist í hlustirnar. Commander, this is my ship svarar hugsanlega kafteinninn meðan ég legg pokann með þorskhnakkanum á eldhúsborðið. Dramatísk tónlistin magnast. This is gonna hurt segir einhver (kannski þessi Mödd) er ég fikra mig í áttina að stofunni. Dramatíska tónlistin stigmagnast enn og sá myndarlegi lítur ekki af sjónvarpinu er ég stíg inn í stofuna. 

*Kabúmm* (sprenging sumsé) og ég rétt næ að smella kossi á karlinn áður en þanin strengjatónlist fyllir neðri hæð hússins. Sé sæng mína útbreidda og læðist á tánum út úr stofunni. 

Það hefur heldur ekkert uppá sig að reyna að ná jarðsambandi við miðaldra karlmann sem er djúpt sokkinn í Star-Trek á nýtilkomnu Netflixi heimilisins. 

Einu sinni Trekkari, ávalt Trekkari. Eða svo er mér sagt.

þriðjudagur, 24. apríl 2018

Katla keppnis

Ef einhver hefði sagt við mig áður en ég byrjaði á þessu leikfiminámskeiði að ég væri með keppnisskap hefði ég hlegið uppí opið geðið á þeirri manneskju. Í fyrsta sinn á ævinni finn ég svoleiðis skap blossa upp í mér og taka yfir alla skynsemi hvort sem ég er að hjóla, lyfta lóðum eða hnébeygjast. Keyri sjálfa mig áfram titrandi á fótunum í enn eina lyftuna, læt þjálfarann síhvetjandi hvetja mig í gegnum einn sprettinn enn. Satt að segja kemur þetta mér í opna skjöldu og ég er ekki alveg búin að átta mig á því hvernig ég eigi að taka þessum nýfundnu keppnisskapbrestum.

Hafið þið heyrt um mæsón? Nei, ekki ég heldur en ég lét mig samt hafa það að kaupa svoleiðis græju í gær. Þetta apparat á víst að mæla púls og allslags púl og má nota hvenær sem er og hvar sem er, jafnvel í sundi hvað þá annað. Nema mér gekk eitthvað brösulega að koma þessu í gang hjá mér fyrir tímann í gær, kom bara óþekkt númer í staðinn fyrir nafnið mitt á skjáinn en þjálfarinn fullvissaði mig um að það væri allt í góðu, tækið væri í gangi og við myndum svo bara græja rest eftir tímann. Svo ég stökk bara uppá hjólið (eða svona næstum því) og byrjaði að hjóla upp ímyndaðar brekkur, þyngja og létta, taka spretti og allt heila klabbið. 

Nema hvað keppnisskapið snarversnaði með tilkomu græjunnar. Ég hlýddi skipunum þjálfarans um að hjóla (sitjandi) og skokka (hjóla standandi) og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn. 

Síðustu sprettloturnar fimm þegar þjálfarinn sagði okkur að keyra þetta áfram og klára okkur, ekki spara okkur, sneri ég pedulunum eins og ég væri andsetin og hjólaði mig sótrauða í framan. 

Eftir tímann var ég nokkuð roggin með mig þrátt fyrir að hafa víst óvart stimplað inn eina vitlausa tölu í græjuna sem útskýrði víst af hverju nafnið mitt kom aldrei upp. Þjálfarinn síhvetjandi gíraði mig líka upp með því að hrósa mér fyrir að taka svona vel á því og hvað ég hefði verið með flottan púls og ég veit ekki hvað og hvað nema æfingin skilaði sér ekkert í símann minn.

Síðan í gær er ég búin að rífresha appið á c.a. kortersfresti en það er með snúð og lætur eins og engin æfing hafi átt sér stað. Konu getur nú sárnað, skal ég segja ykkur.

Ætla samt að mæta með græjuna í hnébeygjurnar á eftir. Helvítis keppnisskapið gefur ekkert eftir með það.

miðvikudagur, 11. apríl 2018

Á þeim joggingbuxunum

Ég er byrjuð í ræktinni. Var komin með samviskusting af hreyfingarleysi og keypti mig inná eitthvert námskeið sem á að vera sjúklega fjölbreytt og svo stútfullt af hreysti að ég má eiga von á því að geisla af orku vel fram á haustið, ef ekki lengur. Mætti galvösk í fyrsta tímann í fyrradag, reyndist vera svona hjólatími. Kannski kallast þetta spinning en ég er þó ekki viss, hef aldrei farið í spinning. Hjóluðum ýmist sitjandi eða standandi, vorum sífellt að þyngja hjólið nema þegar við tókum "pásur" en þá léttum við hjólið í kannski svona mínútu, tókum víst spretti og einhverjar mismunandi æfingasessjónir en fyrir mitt leyti vorum við bara stanslaust að hjóla, allan tímann, líka í svokölluðum "pásum. Er það spinning? Allavega, eftir ca. korter var mér orðið illt í rassgatinu af hnakknum, samt fannst mér betra að hjóla sitjandi en standandi. Þegar tíminn var hálfnaður var ég farin að óttast um að ég myndi hrynja í gólfið þegar tíminn væri búinn. Þegar ca. 10 mínútur voru eftir var ég búin að ákveða að halda mér fast í hjólið þegar ég færi af því, bara svona til öryggis ef ég stæði ekki í lappirnar. Áhyggjurnar reyndust þó ástæðulausar, gat alveg teygt eftir tímann og labbað hjálparlaust niður í búningsklefa. Var ekki einu sinni með harðsperrur daginn eftir.

Í gær var ég svo aftur mætt, enn galvösk. Engin hjól í það skiptið, bara tvö sett af misþungum lóðum, lyftingastöng, pallur og dýna. Upphófust síðan hnébeygjurnar, framstigið, afturstigið, hnébeygjur, kviðæfingar, upplyftingar, hnébeygjur, grindarbotnsæfingar og ég veit ekki hvað og hvað nema konan fyrir framan mig var í einhverjum svona þröngum æfingabuxum og í hvert sinn sem hún beygði sig (og þær voru sko ekkert ófáar hnébeygjurnar) þá teygðust buxurnar svoleiðis yfir rassinn að það var hreinlega eins og hún væri bara ekkert í buxum. Sjálf er ég náttúrulega annálaður lopasokkur og þekki ekkert inná þessa líkamsræktartízku nema um miðbik tímans var ég farin að hugsa heldur hlýlega til hjólatímans kvöldinu á undan. Þjálfarinn hélt áfram að kyrja eitthvað um að gera bara svona æfingu eða hinseginn eitthvað ef við værum orðnar þreyttar í handleggjunum en það var bara ekkert að angra mig neitt, það voru hnébeygjurnar endalausu sem ætluðu með mig lifandi að fara. Þegar ca. 10 mínútur voru eftir að þessum tíma voru lappirnar á mér farnar að titra og ég þakkaði mínum sæla fyrir að vera bara í þægilega víðum joggingbuxum þar sem bífurnar á mér fengu að skjálfa óáreittar. Komst alveg hjálparlaust niður í búningsklefann og í sturtuna sko en var samt farin að sjá það fyrir mér að ég yrði að hringja í bræðurna morguninn eftir og segja þeim að ég kæmist bara ekki til vinnu þar sem ég ætti ekki eftir að standa í lappirnar.

En, ég lét mig hafa það að mæta í morgun. Harðsperrur dagsins voru ekki nærri því eins svínslegar og ég átti von á. Fann satt að segja ekkert fyrir þeim þar sem ég sat á mínum skrifstofustól.

fimmtudagur, 5. apríl 2018

Af sól og sólargeislum

Gekk fram á sólarþyrsta Íslendinga á heimlabbi mínu úr vinnu. Dágóður hópur samankominn við Austurvöll, konur og karlar sem ýmist teyguðu bjór eða dreyptu á hvítvínsglasi, svolgruðu í sig sólarylinn kappklædd í kuldanum. Sjálf var ég með sólgleraugu á nefinu og tvívafinn þykkan trefil um hálsinn. 

Sötraði bjór meðan kartöflur, laukur og paprika lúrðu á pönnu. Sá myndarlegi, sem var í ræktinni, sendi mér sms þegar hann var á leið í pottinn. Gekk út á verönd og hugsaði með mér að það væri vel hægt að sitja úti, í yfirhöfn að sjálfsögðu, en gaf það uppá bátinn þegar ég tók eftir litlu snjóhrúgunum sem lifa góðu lífi þar enn. Bætti dagsgömlum hrísgrjónum við pönnusamsætið. Setti Ninu Simone á fóninn. 

Þegar sá myndarlegi gekk inn um Samtúnsdyrnar braut ég egg á pönnuna og hrærði öllu gumsinu vel saman. Fann afgang af rifnum osti í ísskápnum sem ég dreifði yfir rétt áður en ég jós þessum "uppúrmér" rétti yfir á hvíta skállengju sem að vinkonur mínar færðu mér að gjöf í einhverju allt öðru lífi. 

Man að í því lífi bjó ég í ókláruðu einbýlishúsi og ég bauð þessum vinkonuhópi í mat (allar nema ein eru enn vinkonur mínar í dag (held samt að það hafi ekkert með matinn að gera (sko))). Man líka að ég var nýbúin að láta lita á mér hárið (hef einungis tvisvar gert slíkt á ævinni) í einhverjum karamellubrúnum lit og láta klippa á mig stuttann topp. Minnist þess líka að við vinkonurnar hafi drukkið vel af rauðvíni, talað mikið og hlegið enn meira. Man að þegar þáverandi sambýlismaður minn kom heim fengum við hann til að keyra okkur niður í bæ. Fórum á bar (sem er ekki til í dag) og drukkum skot og töluðum um menn sem eru ekki einu sinni partur af lífi okkar í dag, gáfum bút af okkur sjálfum, hlógum, vorum fullar, drukkum meira af skotum, dönsuðum, hlógum meira.

Mamma og pabbi gáfu okkur Pétri páskaegg þessa páskana, málshátturinn er svo hljóðandi: ekki vantar vini, meðan vel gengur. Kannski er það þannig. Sjálf hef ég aldrei átt marga vini en ég á vini sem hafa haldið þeirri áráttu til streitu að vera vinir mínir þrátt fyrir alla þá misbresti sem eina konu getur prýtt. Fyrir það er ég óhemju þakklát.

mánudagur, 26. mars 2018

Af veðursnarki

Í Berlín var slíkur skítakuldi að okkur var farið að hlakka til að komast heim í góða veðrið. Sú glænýja tilhlökkun var fremur skrýtin tilfinning og ég veit að ég þarf ekkert að útskýra það neitt nánar fyrir ykkur. 

Þrátt fyrir blíðviðri helgarinnar hélt ég mig að mestu heima fyrir. Hugsaði vissulega um það að kona ætti nú að drífa sig út og teyga að sér ferska loftið í góðum göngutúr. Lét mér líka detta til hugar að draga hjólgarminn út úr skúrnum þegar sólin skein hvað mest. Það var bara ekkert einfalt að koma sér úr náttkjólnum og enn flóknara verk að slíta sig frá lestrinum. Lét mig þó hafa það að fara á milli húsa til að færa afabarninu kisukoll sem ég keypti handa henni á útimarkaði í Berlín. Litlar mannverur eins og hún eru líka álíka fallegar og sólin.

Arkaði heim úr vinnu í beljandi rigningu og roki. Er að sjóða fisk handa kettinum. Búin að rífa mig úr blautum gallabuxunum. Stend við eldhúsborðið í nærbuxum og peysu, með rauð læri af kulda og ískaldar tær í inniskóm af eiginmanninum. Þegar hann kemur heim steiki ég fiskinn. 

Þar til ætla ég að leyfa Ninu að óma um eldhúsið ásamt snarkinu af kartöflunum á pönnunni.

sunnudagur, 25. mars 2018

Ich bin ein Berliner

Í póstkorti frá Berlín hefði ég getað skrifað 

  1. Rambaði á rétta lest og var komin á hótelið uppúr hádegi. Fékk ekki að tjékka mig inn og varð að greiða 2 evrur fyrir að fá að geyma töskuna mína í sneisafullri töskugeymslunni. Varð líka að gramsa eftir sundbolnum og svitalyktareyðinum í flýti því ég var búin að bóka mig í dekur á allt öðru hóteli. Fann ekki hárburstann og hugsaði með mér að nú væri lukkan fokin út í Berlínskan vind. 
  2. Manstu eftir því þegar Michael Jackson sveiflaði krakkanum sínum yfir svalahandriði á hóteli í Berlín? Þangað arkaði ég eftir að hafa losað mig við töskuna á hótelinu sem ég gisti á (nei, ég gisti ekki í sömu svítu og Mikjáll). Fékk gluggaborð svo gott sem við hliðina á Brandenburgarhliðinu, át ljúfengan lax, svaðalegann Svartaskógareftirrétt og skálaði við hliðið í brakandi fersku hvítvíni. Sveif því næst á hótel spaið. Klemens skrúbbaði mig hátt og lágt með krítar- og kaffiskrúbbi (sem var soldið eins og sandur, fyrir utan kaffilyktina) og pakkaði mér svo inní plast. Eftir að hafa skolað af mér í sturtunni (ég sjálf sko, ekki Klemens) var ég klár í 90 mín. nudd. Það var Klemmi líka, komin vel inn í nuddið lækkaði hann röddina og spurði with great respect, would you like a more intimate massage? 
  3. Í miðju 9o mín. nuddi á ríkramannahóteli hálf hvíslaði nuddarinn því að mér hvort ég vildi meira intimate nudd. Mitt fyrsta viðbragð var NO! Gekk erfiðlega að slaka á það sem eftir lifði nuddsins. Fór líka að velta því fyrir mér hvað þetta intimate þýddi en kunni ekki við að spyrja, ég meina, hvað vildi hann nudda meira? Var ég bara að misskilja þetta, vildi hann kannski bara fá að kitla mig undir iljunum? Ég var allavega dauðfegin þegar hann vísaði mér inní prívat spasvítuna þar sem mín beið þvílíkur munaður, herregúd! Hægindastólar, legubekkir, nuddbaðkar, kampavín, ávextir, súkkulaði, sána, sódavatn, slakandi tónlist, allt hannað fyrir tvo en ég var bara ein og fannst vissara að læsa hurðinni. Naut þess í botn að loka mig af í 2,5 tíma í þessari þvílíkri hvílíkri spasælu, aaahhh!
  4. Ætlaði að eiga 2 daga með þeim myndarlega í Berlín áður en restin af Vegagerðarliðinu mætti í plássið en í ljós kom að Pétur átti að vera á fundi í Kaupmannahöfn þessa daga. 20 ár síðan ég hef verið ein erlendis svo ég ákvað að drífa mig bara, tími til kominn. Hef notið þess að rölta ein um götur Berlínar, stefnulaust á stundum. Kann best við mig í Prenzlauer Berg, hverfinu sem við bjuggum í sumar 2016 þegar við skiptum um íbúð. Notalegt að rölta um götur sem ég þekki. Búin að fara í klippingu á stofunni sem ég fór á þetta sumar 2016. Búið að loka skranbúðinni rétt hjá Mauer park. Rambaði inn á kaffihús þar sem ég fékk besta kanilsnúð sem ég hef bitið í og besta cappuccino (með 2-földu kaffiskoti (og bara kaffiskoti)) sem ég hef dreypt á. Líka gaman að rölta götur sem ég þekki ekki neitt, leyfi mér "að villast", örugg með Google map í símanum. Sest inná stað þegar ég vil, labba af stað þegar ég vil, borða þegar ég vil, beygi til hægri þegar ég vil og til vinstri ef ég vil. Nýt þess að vera hér með sjálfri mér en hlakka líka til að fá þann myndarlega til mín. 
  5. Eins og ég er búin að njóta þess að vera ein á ferð hér í Berlín þá var samt skelfilega gott að fá kallinn til mín. Erum búin að éta steik á frönskum veitingastað, pasta á ítölskum. Leiðast hönd i vettlingahönd í skítakulda, arka götur, setjast á kaffihús, hlægja að 5-aura bröndurum hvors annars, kyssast í hverri lestarferð, smakka romm frá El Salvador í matvöruverslun og velja nærbuxur á hvort annað, annað væri það! 
  6. Árshátíð starfsmannafélags Vegagerðarinnar hér í Berlín er yfirstaðin, mikið fjör, mikið gaman. Eftir fordrykk, 3 rétta góða máltíð, risastór glös af bjór, glensi og gaman var strikið tekið yfir Alexander platz á karíókibar, að okkur var sagt. Sem betur fer ekkert karókí heldur góður plötusnúður og kokteilar, dönsuðum á dúandi dansgólfi og skemmtum okkur fram eftir nóttu. Fyrr í ferðinni lágum við myndarlegi í rúminu á hótelinu okkar og veltum því fyrir okkur hvaða hlutverki svona stór bygging hefði haft í Austur-Þýskalandi á árum áður, ætli þetta hafi verið hótel sagði hann. Alveg örugglega hið alræmda Stasihótel fyrir erlenda gesti sagði ég hlægjandi. Daginn eftir, í góðum göngutúr með góðum leiðsögumanni, fengum við staðfest að hótelið var einmitt HÓTELIÐ. Stóra spurningin er bara hvort allur hlerunarbúnaðurinn (náði því ekki alveg hversu margir tugþúsundir af metrum af snúrum var dreginn úr veggjunum eftir hrun Stasis) hafi verði fjarlægður...
  7. Komum Intervac-vinum okkar aldeilis á óvart með því að birtast á tröppunum hjá þeim og vorum drifin út í hádegisverð. Hittum þau svo aftur yfir hádegisverði og fórum á Banksy sýningu sem var vægast sagt gjöðveik! Vinir okkar létu ekki þar við sitja, buðu okkur í partý á laugardagskvöldinu. Þegar við sögðum þeim að við værum að fara í kvöldverð og á tónleika í Charlottenburg svöruðu þau: Super! Þið komið þá bara eftir tónleikana og þar með var það afgreitt. Árstíðirnar hans Vivaldis voru afbragð í annars skítköldum kastalanum og partýið í fyrrum austur-Berlín var sprúðlandi af fjöri og áhugaverðu fólki. Gátum þó ekki gleymt okkur í djammi, komið að heimför morguninn eftir.
  
Nema, ég skrifaði engin póstkort, aldrei þessu vant. Þess vegna megið þið bara velja ykkur texta, alveg sjálf, að eigin vild. Gjörið svo vel smáfuglar fagrir, hreiðrið þið bara um ykkur í póstkortahorni frúarinnar.            

þriðjudagur, 13. mars 2018

Sjáumst í Berlín

sagði ég við þann myndarlega er ég kvaddi hann á BSÍ í argabýti gærdagsins. Lá svo í rúminu með sofandi köttinn hjúfraðann upp við mig og reyndi að festa svefn sem kom í mýflugumynd rétt áður en vekjaraklukkan skipaði mér aftur á lappir.

Í nótt keyrðu mamma og pabbi mig svo á flugvöllinn. Sit núna í flugvél á leið til Berlínar. Hef aldrei áður pikkað á tölvu í flugvél, er vön að lesa í bók. Er líka vön því að sitja ýmist í glugga- eða miðjusæti en núna sit ég við gangveginn, sætið sem eiginmaðurinn með sína löngu skanka er vanur að verma. Ekki slæmt get ég segja ykkur. Það skemmir heldur ekki fyrir að ég er eina manneskjan í sætaröðinni minni en það hefur aldrei hent mig áður.

Lögðum upp frá Íslandi í myrkri en sólin er farin að brjótast fram úr skýjunum, búin að bergja á rauðgulum litbrigðum við dökkbláan himinn og var að klára sítrónuteið.  Ein á ferð og enn sem komið er virðist lukkan með mér í för; rólegt að gera í KEF og rann í gegnum innritun og öryggistjékk, kampavínið rann sömuleiðis ljúflega niður meðan ég beið eftir boarding sem einnig rann áfram eins og vel smurt ganghjól.

Hvað við tekur í Berlín er ómögulegt að segja, kannski villist ég á lestarstöðinni og ramba inn í vitlausa lest eða fæ herfilegt herbergi á hótelinu með klóak lykt á baðherberginu. Eitt er víst, ævintýrið er rétt að hefjast og þessi pistill kemst ekki í loftið þó að ég sé í loftinu.

þriðjudagur, 6. mars 2018

Faraldur-Haraldur

Þú ert með eitthvað í munnvikinu, sagði ein indælis sölukona (og vinkona) við mig í vinnunni í gær. Þetta er frunsa sagði ég. Nei, svaraði hún, er þetta ekki súkkulaði? Nei, því miður, svaraði ég, þetta er frunsa.

Ég var 27 ára þegar ég fékk frunsu í fyrsta skipti. Ég bjó ein á þessum tíma, eða nei, reyndar ekki, ég leigði íbúð í Fellunum og bjó með honum Degi, eina kettinum sem ég hef átt og á enn. Ég bjó sumsé ein ásamt ketti í íbúð sem var að öllu leyti eins og íbúðin sem ég bjó í fyrstu ár lífs míns, tæplega 80 fermetra blokkaríbúð í Fellunum á 4. (efstu) hæð nema ég var ein (fyrir utan köttinn). Fyrstu 6 ár ævi minnar vorum við 7 í alveg eins íbúð (bara annað heimilisfang). Það hefur reyndar ekkert með frunsu að gera. 

Nema, þegar ég fékk frunsu í fyrsta sinn þá bjó ég næstum ein í íbúð sem var alveg eins og íbúðin sem ég bjó í til 6 ára aldurs og átti kærasta sem sem bjó í næsta hverfi við mig. Hann var að byggja sér hús í enn meira úthverfi en efra Breiðholt er/var/er og eitt kvöldið er hann kom til mín, í leiguíbúðina í Fellunum, var hann með frunsu. Þáverandi kærastinn (nei, ekki sá sem lánaði mér bílinn) varaði mig við því að kyssa sig, frunsur væru smitandi fyrirbæri. 27 ára gamalli fannst mér ég nógu sjóuð til að blása á slíkar bábiljur og neitaði að hlusta á þáverandi kærastann enda langaði mig mikið til að kyssa hann. Þá. 

Næsta dag var ég komin með frunsu á neðri vörina og satt að segja vakti hún áhuga minn. Þrátt fyrir aðvaranir þáverandi kærastans þá kroppaði ég í hana og kroppaði svo meira og kroppaði örlítið enn meira eða alveg þar til ég fann heldur mikið til og fann vökva koma úr þessari fyrstu frunsu minni. Þegar þetta gerðist var komið kvöld og ég var lögst í rúmið heima hjá mér í leiguíbúðinni þarna í Fellunum. 

Daginn eftir þegar ég vaknaði var efri vörin á mér föst við frunsuna á neðri vörinni og nei, ég er ekki að skálda. Efri og neðri vör voru límdar saman í frunsukossi. Fyrsta sem ég gerði var að rjúka fram á bað til að sjá þetta í spegli. Það var ekki sársaukalaust að leysa upp kossinn og ég hét á heilaga Maríu og afa hennar að ég myndi aldrei aftur kroppa frunsu! Nema, það dugði ekki til, frunsurnar héldu áfram að koma. Þegar hæst stóð var ég með 11 frunsur! Já, segi og skrifa, ellefu stórar, djúsí, gular frunsur (ég á mynd því til sönnunar en þið fáið aldrei að sjá hana)! Eftir örfáa daga var mér orðið rosalega illt í kringum hálsinn og var líka óvanalega slöpp, skreið uppí rúm beint eftir vinnu og svaf fram á morgun. Endaði á að fara á læknavaktina þar sem ég hitti lækni sem fékk hláturskast þegar hún tók á móti mér. Milli þess sem hún baðst afsökunar á hlátrinum þreifaði hún á hálsinum á mér, sagðist bara aldrei hafa séð annað eins frunsukeis og mig og bældi niður flissið, hristist í öxlunum af niðurbældum hlátri meðan hún rak pappatunguspaðanum í opið frunsuginið á mér.

Niðurstaðan var sú að þegar lítil börn fá frunsu þá fá þau víst oft líka eitlabólgu með og ég var víst eins og litlu börnin nema ég var jú orðin 27 ára  og var ekki með frunsu heldur frunsur en jú, með afar auma eitla og afskaplega þreytt. Þessu kom sumsé doktorinn frá sér milli frussandi hlátursins sem frissaði milli tannanna á henni meðan axlirnar hristust og andlitið herpist í (stundum) niðurbældum hlátri.

Nema hvað, síðan þá hef ég stundum ekki þurft annað en að fara í fýlu til að fá frunsu. Um leið og kerfið (ég, hugurinn, líkaminn) fer í kerfi þá kemur frunsa. Ekkert tilkomumál svo sem, held ég hafi í mesta lagi fengið 2-3 frunsur í einu síðan þarna um árið. Nema, frunsan í munnvikinu á mér, sem nú er svo gott sem farin, var ansi andstyggileg. Í hvert skipti sem ég gapti til að gleypa í mig mat (þið sem þekkið mig vitið að ég veit fátt betra) þá minnti hún rækilega á sig. Hún rifnaði upp og lak blóði (já, ég veit, þetta blogg er bannað innan 12 ára) sem harðnaði og rifnaði svo aftur upp og harðnaði aftur og fékk sölufólk til að trúa því að kona væri svo mikill matargrís að hún væri með súkkulaði í munnvikunum. Ég veit, það er ekkert einfalt að vera ég!

Nema hvað, í kvöld er frunsan nánast horfin, rétt svona roði, eins og ég hafi klínt smá varalit niður fyrir varirnar.       

þriðjudagur, 27. febrúar 2018

Af hverju hún en ekki ég?

Keyrði Sæbrautina lengri leið en vanalega eftir vinnu. Lagði bílnum á planinu við World Class og labbaði heim. Sá myndarlegi var fundum vafinn allan daginn svo lítill tími gafst til bílaskipta. Ég ætla rétt að vona að hann komi á bílnum heim í staðinn fyrir að labba aftur til baka. Sjálf fékk ég einu sinni lánaðan bíl hjá þáverandi kærasta til að fara í vinnuna. Eftir vinnu tók ég svo strætó heim, löngu búin að gleyma því að ég var á bíl. 

Síðan eru liðin mörg ár eins og segir í laginu en þar sem ég kem gangandi Samtúnið tek ég eftir einhverju sem líkist blöndu af barnakerru og ruslatunnu á hjólum, þið vitið, svona eins og götusóparar eru með, bara minna. Sem ég er að hugsa þetta sé ég mann í appelsínugulum kraftgalla koma gangandi á móti mér og hugsa fjandakornið, eru þeir nú farnir að sópa göturnar í grennd við Borgartúnið? Nema hvað, maðurinn í appelsínugula gallanum fer inn í eitt húsið og pokakerran heldur áfram að standa við innkeyrsluna að okkar húsi. Ég staldra við hana í 15 sekúndur, sný mér til að labba inn innkeyrsluna og heyri glamur í flöskum. Sé konu bogra yfir öskutunnurnar hjá nágrönnunum. Er ég nálgast húsið skellir hún lokinu á tunnunni aftur, horfist í augu við mig og tekur strikið út heimkeyrsluna. Ég staldra við og hugsa með mér að ef konan, sem var vel dúðuð í úlpu, regnbuxum, með húfu og trefil fyrir neðri part andlits, ætlaði sér að fara að róta í mínum tunnum þá ætlaði ég að eiga við hana vel valin orð. Konan, sem var austurlensk til augnanna (augun það eina sem ekki var dúðað), dembdi hinsvegar hvíta plastpokanum sem hún var með í höndunum á pokakerrunna og arkaði burt.

Inn komin og farin úr rauðu úlpunni átta ég mig á því að konan hlýtur að hafa verið búin að fara í gegnum tunnurnar okkar. Þar sem við erum dugleg að flokka (sér í lagi betri helmingurinn) er ólíklegt að hún hafi haft mikið uppúr því. Ætli það hafi samt verið eitthvað sem nýtanlegt var? Af hverju ætli nágrannakona mín, sem er á mínum aldri og hefur búið í Danmörku til fjölda ára, hendi flöskum? Flokkar hún í alvöru ekki ruslið sitt? Hvað hefði ég sagt við asísku konuna ef hún hefði verið að róta í mínum tunnum þegar mig bar að? Hefði ég sagt eitthvað ef á hefði reynt? Af hverju er hún að róta í hemilistunnum? Er gróðravon í rusli Íslendinga eða á fólk virkilega svona bágt hér? Er ónotatilfinningin sem í mér situr sprottin af því að hugsanlega hafi einhver farið í gegnum ruslið mitt eða af því að einhver sé á þeim stað í lífi sínu staddur að hafa farið í gegnum ruslið mitt? 

Forréttindi eru það vissulega að einhver annar en ég róti í því sem ég kalla rusl en já, hvenær varð ég sú forréttindapía? Af hverju ég en ekki hún? Hafið þið spáð í því?

sunnudagur, 11. febrúar 2018

Bókabuska

Sit við borðstofuborðið. Var að taka eyrnalokkana úr mér. Þeir liggja núna við hliðina á hringnum sem ég var með áður en ég reif hann af mér. Eiginmaðurinn liggur á sófanum langt sokkinn í nýjasta Eddumálið hennar Jónínu. Hann gaf sér þó tíma blessaður til að flysja og skera kartöflur sem nú lúra í ofninum. Eldamennskan er á hans höndum í kvöld. Milli þess sem hann liggur á sófanum.

Sjálf er ég með nefið ofan í tveimur bókum, var að fá lánaðar 3 bækur og get ekki beðið eftir að komast í nýjasta Eddumálið hennar Jónínu. Sit sem fyrr segir við borðstofuborðið. Hlusta á allskonar góða músík eins og t.d. þessa (þið verðið að smella á þessa ef þið viljið fá hlustunardæmi). Ætti að vera að gera heimadæmin fyrir frönsku annað kvöld en, æ, ég nenni því ekki. Sötra þess í stað hvítvín úr vel kældri flösku sem lúrir í snjóbing á veröndinni. Rembist við að blogga eins og síðasti Móhíkaninn og nei, með því er ég ekki að segja að síðasti Móhíkaninn hafi bloggað heldur er ég að segja að mér líður eins og... æ, gleymið því, það les hvort eð er enginn blogg lengur. Að minnsta kosti ekki svona sjálfhverfublogg. Einu sinni voru þau stunduð af kappi en í dag er það sjálftakan sem tekið hefur yfir, eða selfies þið vitið. Sjálf hef ég aldrei komist almennilega uppá lagið með þessa sjálftöku, er miklu betri í að blogga, eða hvað veit ég, aldrei hefur neinn sagt mér að ég sé betri í að blogga heldur en að taka sjálfu. Sannast sagna hefur ekki nokkur sála sagt að ég sé góð að blogga, nema kannski eiginmaðurinn, en fjandakornið, af hverju ætti ég að hlusta á hann, ekki eins og hann sé óhlutdrægur.

Jæja, annars gleymdi karlinn sér alveg yfir Eddu (allt Jónínu að kenna) og kartöflurnar hálfbrunnu yfir en hér er annað tóndæmi í boði frúarinnar (jájá, þið verðið bara að þrýsta á hér til að fá næsta hlustunardæmi, mæli samt alveg með því það er svo ljúft)

Á meðan drjúgur meirihluti fésbúkara er að reyna að sjá sig sjálft í öðru kyni þá vildi ég vita hvaða Disney persóna ég væri. Kemur kannski á óvart, og kannski ekki, þá var ég dæmd Öskubuska. Í gær fór ég í góðan göngutúr í kuldanum og labbaði fram á þennan skó
ekki veit ég með prinsinn hennar þessarar Öskubusku en ef þið rekist á hana eruð þið þá til í að segja henni að hann er ekki að leita að henni og að hælaskórinn hennar er á Kirkjuteigi?