sveif hugur frúarinnar til vorsins í París
Harrí á himnum hvað vorið í París er dásamlegt! Að vísu var hitabylgja síðustu helgi sem gerði það að verkum að vorið varð að hásumri og ég brann á fyrsta degi. Fékk eldrauðan kraga um hálsinn en kvartaði ekki, drakk bara kampavín í lítravís, spókaði mig um á götum Parísar í kjól, kyssti karlinn, góndi á turninn að degi, miðdegi, síðdegi og kvöldi, fékk mér tiramisú og sítrónusorbet, fór í uppáhalds búðina mína, mændi á Monet og fékk mér meira kampavín.
Meira dúndrið þetta Leggja-app. Fórum í Hörpu í gærkvöld og í staðinn fyrir að hanga í röð við maskínuna í bílakjallaranum stimplaði ég bílinn í stæði meðan sá myndarlegi lagði. Fórum á Amadeus, bíótónleika. Sinfónían spilaði undir og Mótettukórinn söng. Harrí á himnum hvað þetta var flott að kona tali nú ekki um myndina sjálfa! Ríflega 3 áratugum síðar er myndin enn skemmtilegri en þegar ég sá hana síðast. Viðurkenni fúslega að ég saknaði bróður míns en við sáum myndina saman þarna fyrir þessum örfáu árum. Sá myndarlegi kom þó svo sem ekki að sök, frekar en fyrri daginn, og ég mundi eftir því að afleggja tíkinni á appinu þegar við fórum.
Í dag skein svo sólin og lét eins og sumarið væri ekki bara komið á dagatalinu. Harrí á himnum hvað það var yndislegt, næstum eins og París, munaði bara um 20 stigum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli