miðvikudagur, 25. apríl 2018

Kirk og allir hinir gríslingarnir

Mudd heyrðist öskrað úr stofunni þegar ég kom heim. Greinileg átök í gangi með svaðalegum svoossh-hljóðum. Captain kallar einhver meðan ég fer úr skónum. Dramatísk tónlist læðist í hlustirnar. Commander, this is my ship svarar hugsanlega kafteinninn meðan ég legg pokann með þorskhnakkanum á eldhúsborðið. Dramatísk tónlistin magnast. This is gonna hurt segir einhver (kannski þessi Mödd) er ég fikra mig í áttina að stofunni. Dramatíska tónlistin stigmagnast enn og sá myndarlegi lítur ekki af sjónvarpinu er ég stíg inn í stofuna. 

*Kabúmm* (sprenging sumsé) og ég rétt næ að smella kossi á karlinn áður en þanin strengjatónlist fyllir neðri hæð hússins. Sé sæng mína útbreidda og læðist á tánum út úr stofunni. 

Það hefur heldur ekkert uppá sig að reyna að ná jarðsambandi við miðaldra karlmann sem er djúpt sokkinn í Star-Trek á nýtilkomnu Netflixi heimilisins. 

Einu sinni Trekkari, ávalt Trekkari. Eða svo er mér sagt.

Engin ummæli: