Það var eiginlega skrýtið að taka beygjuna inn afleggjarann að Meðalfellsvatni í birtu og blíðu á föstudagskveldi. Engu að síður var það næstum því eins og að koma heim þegar við bárum dótið inn í Krókinn, Eyjakrókinn okkar sem við myndarlegi heimsækjum helst tvisvar á ári.
Hér við vatnið höfum við ófáa máltíðina mallað og ýmislegt brallað saman tvö. Hér höfum við hámað í okkur bækur, lært undir próf, drukkið áfengi af ýmsum toga og iðulega hlaupið nakin í pottinn (nei, það hefur ekkert með áfengið að gera).
Af hverju hlaupum við svo í pottinn, gætuð þið spurt? Jú, vegna þess að það er nær undantekningarlaust alltaf veður þegar við myndarlegi erum hér. Hingað höfum við ekið í rigningu, slyddu, snjó og hríð. Ávalt í myrkri. Höfum aldrei farið útá vatnið í bát en nokkrum sinnum gengið það á ís.
Hingað komum við ávalt hlaðin bókum og mat og drykk með náttföt og hlýja sokka. Einu sinni séð stjörnufylltan himinn í heita pottinum. Það var dýrtíð. Aldrei að vita nema við náum því aftur einhverju sinni. Hingað til höfum við þó alltaf náð öllum prófum sem við höfum lært undir hér, meira að segja stærðfræðiprófinu sem ég tók hér um árið. Þá er nú mikið sagt.
Það er líka eitthvað svo gott við að kúldrast hér í veðri, kúpla sig út frá restinni af tilverunni, sökkva sér í bækur, skrifa bréf til fjarlægra landa, sitja í heita pottinum með kalt nef og jafnvel hvin í eyrum, kósa sig undir teppi með myndarlegum manni, kannski kalt á tánum já en hlýtt í hjartanu.
Get ekkert útskýrt þetta neitt betur eða meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli