fimmtudagur, 5. apríl 2018

Af sól og sólargeislum

Gekk fram á sólarþyrsta Íslendinga á heimlabbi mínu úr vinnu. Dágóður hópur samankominn við Austurvöll, konur og karlar sem ýmist teyguðu bjór eða dreyptu á hvítvínsglasi, svolgruðu í sig sólarylinn kappklædd í kuldanum. Sjálf var ég með sólgleraugu á nefinu og tvívafinn þykkan trefil um hálsinn. 

Sötraði bjór meðan kartöflur, laukur og paprika lúrðu á pönnu. Sá myndarlegi, sem var í ræktinni, sendi mér sms þegar hann var á leið í pottinn. Gekk út á verönd og hugsaði með mér að það væri vel hægt að sitja úti, í yfirhöfn að sjálfsögðu, en gaf það uppá bátinn þegar ég tók eftir litlu snjóhrúgunum sem lifa góðu lífi þar enn. Bætti dagsgömlum hrísgrjónum við pönnusamsætið. Setti Ninu Simone á fóninn. 

Þegar sá myndarlegi gekk inn um Samtúnsdyrnar braut ég egg á pönnuna og hrærði öllu gumsinu vel saman. Fann afgang af rifnum osti í ísskápnum sem ég dreifði yfir rétt áður en ég jós þessum "uppúrmér" rétti yfir á hvíta skállengju sem að vinkonur mínar færðu mér að gjöf í einhverju allt öðru lífi. 

Man að í því lífi bjó ég í ókláruðu einbýlishúsi og ég bauð þessum vinkonuhópi í mat (allar nema ein eru enn vinkonur mínar í dag (held samt að það hafi ekkert með matinn að gera (sko))). Man líka að ég var nýbúin að láta lita á mér hárið (hef einungis tvisvar gert slíkt á ævinni) í einhverjum karamellubrúnum lit og láta klippa á mig stuttann topp. Minnist þess líka að við vinkonurnar hafi drukkið vel af rauðvíni, talað mikið og hlegið enn meira. Man að þegar þáverandi sambýlismaður minn kom heim fengum við hann til að keyra okkur niður í bæ. Fórum á bar (sem er ekki til í dag) og drukkum skot og töluðum um menn sem eru ekki einu sinni partur af lífi okkar í dag, gáfum bút af okkur sjálfum, hlógum, vorum fullar, drukkum meira af skotum, dönsuðum, hlógum meira.

Mamma og pabbi gáfu okkur Pétri páskaegg þessa páskana, málshátturinn er svo hljóðandi: ekki vantar vini, meðan vel gengur. Kannski er það þannig. Sjálf hef ég aldrei átt marga vini en ég á vini sem hafa haldið þeirri áráttu til streitu að vera vinir mínir þrátt fyrir alla þá misbresti sem eina konu getur prýtt. Fyrir það er ég óhemju þakklát.

Engin ummæli: