Ég er byrjuð í ræktinni. Var komin með samviskusting af hreyfingarleysi og keypti mig inná eitthvert námskeið sem á að vera sjúklega fjölbreytt og svo stútfullt af hreysti að ég má eiga von á því að geisla af orku vel fram á haustið, ef ekki lengur. Mætti galvösk í fyrsta tímann í fyrradag, reyndist vera svona hjólatími. Kannski kallast þetta spinning en ég er þó ekki viss, hef aldrei farið í spinning. Hjóluðum ýmist sitjandi eða standandi, vorum sífellt að þyngja hjólið nema þegar við tókum "pásur" en þá léttum við hjólið í kannski svona mínútu, tókum víst spretti og einhverjar mismunandi æfingasessjónir en fyrir mitt leyti vorum við bara stanslaust að hjóla, allan tímann, líka í svokölluðum "pásum. Er það spinning? Allavega, eftir ca. korter var mér orðið illt í rassgatinu af hnakknum, samt fannst mér betra að hjóla sitjandi en standandi. Þegar tíminn var hálfnaður var ég farin að óttast um að ég myndi hrynja í gólfið þegar tíminn væri búinn. Þegar ca. 10 mínútur voru eftir var ég búin að ákveða að halda mér fast í hjólið þegar ég færi af því, bara svona til öryggis ef ég stæði ekki í lappirnar. Áhyggjurnar reyndust þó ástæðulausar, gat alveg teygt eftir tímann og labbað hjálparlaust niður í búningsklefa. Var ekki einu sinni með harðsperrur daginn eftir.
Í gær var ég svo aftur mætt, enn galvösk. Engin hjól í það skiptið, bara tvö sett af misþungum lóðum, lyftingastöng, pallur og dýna. Upphófust síðan hnébeygjurnar, framstigið, afturstigið, hnébeygjur, kviðæfingar, upplyftingar, hnébeygjur, grindarbotnsæfingar og ég veit ekki hvað og hvað nema konan fyrir framan mig var í einhverjum svona þröngum æfingabuxum og í hvert sinn sem hún beygði sig (og þær voru sko ekkert ófáar hnébeygjurnar) þá teygðust buxurnar svoleiðis yfir rassinn að það var hreinlega eins og hún væri bara ekkert í buxum. Sjálf er ég náttúrulega annálaður lopasokkur og þekki ekkert inná þessa líkamsræktartízku nema um miðbik tímans var ég farin að hugsa heldur hlýlega til hjólatímans kvöldinu á undan. Þjálfarinn hélt áfram að kyrja eitthvað um að gera bara svona æfingu eða hinseginn eitthvað ef við værum orðnar þreyttar í handleggjunum en það var bara ekkert að angra mig neitt, það voru hnébeygjurnar endalausu sem ætluðu með mig lifandi að fara. Þegar ca. 10 mínútur voru eftir að þessum tíma voru lappirnar á mér farnar að titra og ég þakkaði mínum sæla fyrir að vera bara í þægilega víðum joggingbuxum þar sem bífurnar á mér fengu að skjálfa óáreittar. Komst alveg hjálparlaust niður í búningsklefann og í sturtuna sko en var samt farin að sjá það fyrir mér að ég yrði að hringja í bræðurna morguninn eftir og segja þeim að ég kæmist bara ekki til vinnu þar sem ég ætti ekki eftir að standa í lappirnar.
En, ég lét mig hafa það að mæta í morgun. Harðsperrur dagsins voru ekki nærri því eins svínslegar og ég átti von á. Fann satt að segja ekkert fyrir þeim þar sem ég sat á mínum skrifstofustól.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli