Létum loksins verða af því að ganga Glymhring. Við tvö og allir hinir túrhestarnir. Vorum heppin að fá stæði á bílaplaninu. Stóðum í röð til að komast að trjádrumbnum. Sættum lagi að taka myndir, túrhestalausar myndir þ.e.a.s. Gleyptum í okkur náttúrudýrðina og veðrið. Maður minn, hvílíkt veður! Á heimleiðinni leyfðum við okkur að hlakka til að setjast útá verönd og halda áfram að njóta blíðunnar en nei, ó nei, vindurinn tók hvínandi á móti okkur, gnauðaði í okkur hálfgerðan vetrarhroll og blés okkur í svefn um kvöldið.
Á mánudags þriðjudegi get ég alveg sagt ykkur að löng helgin var alveg svakalega fín. Fór út að borða með vinkonu minni. Fór líka með henni á svaðalegt djamm. Svakalegt stuð. Þar til ég vaknaði daginn eftir. Timburmenn á fimmtugsaldri eru hreint ekkert spennandi, segi ykkur það satt. Fór líka í feikn góðan bíltúr með ektamanninum, las tvær bækur, fór aftur út að borða, mændi á Netflix, hámaði í mig hnetur frá Grikklandi, gaf heilsurækt og heimilisstörfum langt nef, drakk kaffi í rúminu.
Labbaði heim eftir vinnu með vindinn í fanginu. Ætla enn og aftur út að borða í kvöld.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli