þriðjudagur, 31. júlí 2018

Papa don't preach!

Oftar en ekki nota ég meiri hvítlauk en tiltekinn er þegar ég elda eftir uppskrift. Eiginmaðurinn setur alltaf meira krydd. Hinsvegar kreistum við iðulega minna af sítrónusafa þrátt fyrir að nýkreistur sítrónusafi á fingrum sé himneskur ilmur. 


Í kvöld skar ég sítrónu á stærð við appelsínu í tvennt og kreisti annann helminginn yfir rauðlauk, kjúklingabaunir, hvítlauk, edamamebaunir, cumin og papriku frá Marokkó, Ketjap Manis, Tabaskó og ólafíuolíu. Úr varð hið prýðilegasta salat. Baunasalat. 

Meðan eiginmaðurinn grillaði eggaldin og Halloumi ost dýfðum við Unnsa ofnbökuðu pítubrauði í himneskann hummus þess myndarlega og teyguðum bjór.

Töluðum um ketti og Hamingjuhöll og bækur og ketti og skáldskap og Hamingjuhöll og drauga og félagsheimili og fjallasýn og sirkus og Grund og æsku og Hamingjuhöll.

Hinn helminginn af sítrónunni kreisti ég útí ólafíuolíu, Tabaskósósu, salt og smátt skorinn hvítlauk. Prýðis dressíng sem við ýrðum yfir grillað eggaldinið og Hallúmíostinn. Drukkum rauðvín með stjörnum á miðanum.

Karlinn fleygði sér á sófann og við vinkonurnar opnuðum aðra flösku, skiptum út stjörnum fyrir engil. Héldum áfram að skála fyrir Hamingjuhöll og skáldskap og köttum og óráðinni framtíð og hvorug okkur leiddi hugann að því að við gætum endað á Grund.

Rétt í þessu var vinkona mín að stinga sér út í rigninguna. Eftir þrjá daga ætlum við að fara saman út að borða. Hverjum er ekki líka sama, eftir þriggja áratuga vináttu, hvort við endum í Hamingjuhöll eða á Grund?Engin ummæli: