fimmtudagur, 25. október 2018

Af lopahúfu og lúðu

Það sem ég var fegin að hafa gripið lopahúfuna, sem mamma prjónaði handa mér, er ég þaut til vinnu í morgun. Vindurinn sem lamdi kinnarnar kaldar, er ég arkaði heim úr vinnu,  sannfærði mig um að veturinn er í nánd. Ef þið eruð hugsanlega að velta því fyrir ykkur hvort þetta er hann E.T. sem trónir þarna á hausnum á mér þá get ég sagt ykkur að svo er ekki. Mamma mín prjónaði þessa lopahúfu handa kattastelpunni sinni. Þetta eru sumsé kettir. Þegar móðir mín kær færði mér húfuna hugsaði ég jæja mamma, nú hefuru alveg farið með það, þessa húfu nota ég aldrei! 

Eins og svo sem áður hafði ég kolrangt fyrir mér en móðir mín rétt fyrir sér, hef hundraðogþúsund sinnum notað þessa lopahúfu.

Þegar sá myndarlegi kemur heim ætla ég að steikja lúðu. Steikt lúða er uppáhalds maturinn minn og pabba míns. Þar hafið þið það.

Engin ummæli: