þriðjudagur, 1. maí 2018

Á enn eftir að hengja úr vél

Ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að rjúka á fætur á frídegi, hella uppá kaffi fyrir eiginmanninn og rjúka því næst í ræktina hefði ég svarað viðkomandi fyrr dansa ég húlla í helvíti! Á frídegi verkalýðsins rauk ég á fætur, hellti uppá kaffi fyrir eiginmanninn og rauk því næst í ræktina.

Af öðrum háu ljósum frídagsins ber þar hæst að

  • Eftir ræktarpúlið drifum við myndarlegi okkur í allsherjarþrif hér á heimilinu enda töluvert löngu tímabært, búið að standa fyrir þrifum ansi lengi. 
  • Gúffaði í mig vöfflur með rjóma og jarðarberjum og ís og sultutaui sem Ásta og Tóta voru ansi duglegar að greina en sannast sagna hef ég ekki hugmynd hvaðan sultutauið kemur eða hvurslags tau er um að ræða. Kannast einhver við að hafa gefið okkur sultu í krukku utanaf tómatpúrru?
  • Litaði og spjallaði og skoðaði ljósmyndir með sætasta afabarninu.
  • Tókst að losa mig við kippu af hálfs lítra Epla Kristal.
  • Setti í þvottavél.
  • Fékk þá flugu í höfuðið að sumarið væri alveg að koma þrátt fyrir haglélin inn á milli sólríkjunnar.
  • Borðaði lambakjöt í trufflumaríneringu í kvöldmat.
Drakk rauðvínsglas með matnum. Er ekki búin að hengja upp úr vélinni. Ætla að fá mér annað rauðvínsglas og horfa á fyrsta þáttinn af the Crown. Er ekki heldur búin að dansa húlla í helvíti.

Engin ummæli: