fimmtudagur, 30. desember 2010

Annað land, annar heimur

Amma löngu langa, 90 ára.
Lárus Breki, 3 ára.
Í afmælisveislu gærdagsins.

Amma: Hvar er annar sokkurinn þinn?
Breki: Í Kringlunni.
Amma: Ha?? Í Kringlunni??
Breki: Jaaá, í Ævintýralandi.

miðvikudagur, 29. desember 2010

Amma mín,

sem skírð var Hallveig í höfuðið á landnámskonu okkar Íslendinga, er níutíu ára í dag. Amma er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hefur ákveðið hugarfar og sterkar skoðanir. Hún hefur alltaf fylgst vel með öllum fréttum og viðburðum og veit því heljarins ósköp um allt og ekki neitt. Með ömmu hef ég ófáum Billede blöðum flett og rætt um konungsslekt, afa, Reykjavík, bækur og ástina yfir kaffi og Berlínarbollum. Amma kenndi mér að matreiða snitzel og að klæða mig rétt í nælonsokkabuxur. Hún býr líka til besta plokkfisk í heimi, kakósúpu og klatta.

Amma segist ekki hafa látið sér koma til hugar hún ætti eftir að verða níræð, en það sé í góðu lagi meðan hugurinn virkar og minnið bregst ekki.

Hér er amma mín 16 ára


Og hér erum við amma í níræðisafmælinu hennar fyrr í kvöld

þriðjudagur, 28. desember 2010

Jóla hvað...

Fyrir jólin bakaði ég þrjár sortir af smákökum sem misheppnuðust allar. Myndarlegi maðurinn þráast við að narta í eina sortina og bjóða gestum uppá, en hinar tvær fóru nánast beina leið í safnhauginn. Við fórum því á stúfana og festum kaup á 2ja kg konfektkassa sem við annars vorum búin að ákveða að láta eiga sig að kaupa þessi jólin. Þegar heim var komið rifjaðist það upp fyrir okkur að Pétur fengi væntanlega sinn hefðbunda konfektkassa frá vinnustaðnum. Þegar hann svo ákvað að stinga þeim kassa í hólfið á orgelinu í gær til geymslu, fann hann kassann frá því í fyrra.

Eftir 243 unnar stundir í mánuðinum kom helgarfríið svo loksins. Jólin voru endemis yndisleg og frábær og góð með ást og ást og enn meiri ást. Enda þótt smákökurnar hafi klikkað, klikka ég aldrei á hinum eina, sanna jólastemmara


þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Afsakið hlé

en ég stend á einhverskonar tímamótum í lífi mínu og veit ekki hvort ég eigi að fara afturábak eða áfram, til hægri eða vinstri. Kannski ætti ég bara að hoppa.

miðvikudagur, 6. október 2010

Skyn-

Deginum hefði átt að vera varið í lærdóm en mér leiðist að vera skynsöm á frídegi. Í staðinn fyrir spænsku gaufaðist ég um á náttkjólnum til tvö, dundaði mér við að drekka kaffi, klappa kettinum og lesa smásögu. Þegar skynsemin loks taldi mér trú um að best væri að troða sér í leppa ákvað óskynsemin að labba maskaralaus niður í bæ. Keypti vatnsbláa froska í Tæger, uppáhalds blaðið mitt í Iðu, borðaði lakkrís á Laugaveginum og sötraði latte á C is for cookie í grænum hægindastól. Gekk bærilega að hugsa lítið um vinnuna sem gleypt hefur tíma minn til þessa. Held mér hafi tekist að gleðja ástina mína með vísukorni og gjöf. Þá er dagurinn líka fullkominn með ýmsum gerðum af skyn og semi.

laugardagur, 11. september 2010

Barba-

Að kaupa ljósmynd af Ara var ekki á innkaupalistanum sem ég lagði af stað með niður í bæ í dag, en hver fær svo sem staðist Barbapabba og slektið hans?



Klárlega ekki Ari á vappi í Borgarnesi, og ekki heldur Katla á vappi í Fótógrafí.

fimmtudagur, 9. september 2010

Ind-æl

Á indælum frídegi gærdagsins tókst mér að sofa út, hanga á náttfötunum til að ganga eitt, fá myndarlega manninn heim í hádegismat, sötra óhóflega mikið kaffi og sörfa netið. Hitti bestu vinkonu mína á kaffihúsi og enduruppgvötaði hvað gott kaffihúsahangs er gott. Góð vinátta enn betri. Kjúklingaspergilkálsspínatbaka kvöldsins var ljúffeng við kertaljós. Göngutúr að kvöldlagi við sjávarsíðuna frískandi.

Klukkutímaark í og úr vinnu í dag var hressandi og vinnustundirnar átta flugu hjá. Síðasta korterið í tvöfalda spænskutíma kvöldsins var þó heldur lengi að líða. Vantar faðm myndarlega mannsins á sófanum. Og snakk.

mánudagur, 6. september 2010

Strikið tekið -

Labbaði glöð í vinnuna í morgun, spennt af tilhlökkun til tilbreytinga á nýjum vinnustað í gömlu vinnunni. Strætósögum mun því miður fækka, ef ekki hverfa, þar sem nýja ráðuneytið er svo gott sem í Tún-fætinum. Ráðherraskiptin verða endanleg við vikulok og nýr æðsti strumpur hefur verið til-kynntur til leiks. Hlakka til að kynnast nýju samstarfsfólki og umhverfi, en sakna þó Sörunnar minnar sárt.

Er strax farið að hlakka til að labba aftur í vinnuna á morgun.

sunnudagur, 5. september 2010

Breyting til -

Með komandi hausti eru sviptingar í fleiru en veðri og ráðherrahrókeringum. Myndarlegi maðurinn hefur sagt sig úr þjóðkirkjunni og tilbiður nú enga aðra guði en mig. Túnhald hefur tekið stakkaskiptum, til reynslu, kettinum án vafa til mikillar gleði. Strætó á það til að tala en þær samgöngur mun ég hér eftir brúka til hátíðarbrigða. Vinnustaðurinn hefur gengið kaupum og sölum og jafnvel öfugt, svo fleiri en pólitískir ráðherrar munu færa sig um set.

Mesta sviptingin þó var að uppgvöta í gærkveldi að sjónvarpskastið í Popppunkti hefur verið vikið fyrir öðrum, nýrri liðum. Að horfa á Felix Bergsson hlaupa á eftir sjónvarpinu er ein besta skemmtun sem nokkru sinni hefur verið í boði hjá RÚV. Ég er arfavonsvikin og mæli frekar með að hrútleiðinlega tónlistaratriðinu verði skipt út og Felix Bergsson á hlaupum verði sett inn í staðinn sem pikkfastur liður í prógramminu.

Er enn að býsnast við að melta þá hendingu að hafa farsællega aðstoðað sessunaut minn í gamla skólanum mínum að leysa stærðfræðidæmi.

mánudagur, 23. ágúst 2010

Reykt rifrildi

Strætó var þremur mín. of snemma við Smáralindina í kvöld. Það er ekkert grín að missa af strætó eftir vinnu og þurfa að bíða í klukkutíma eftir næsta. Sérdeilis fúlt þegar strætó fer framhjá stoppistöðinni fyrir tímann. Ég var heppin og bæði náði strætó og komst að því af hverju asinn var svona mikill; bílstjórinn var að flýta sér í reykpásu í stoppinu í Hamraborginni. Reykpásu sem átti sér stað í hurðinni á strætó. Feitlagna, dökkhærða strætókonan stóð inni í strætó og reykti út um hurðina. Ég sem hélt það væri bannað að reykja í strætó.

Ungt par reifst á ágætum hávaða á erlendri tungu í sömu strætóferð. Ég skildi ekki orð en látbragð og tónhæð kom upp um ósættið. Þau lækkuðu róminn örlítið eftir að farþegi hastaði á þau á þeirra tungumáli. Enduðu á að rjúka í sitthvort sætið en þó ekki fyrr en eftir að pilturinn hafði tekið af sér silfurlitað armband og fleygt því í stúlkuna. Fóru út um sitthvora hurðina á strætó og löbbuðu í sitthvora áttina.

Og vikan rétt að byrja.

mánudagur, 19. júlí 2010

Einn af fjórum

Í 16.5 °C hita langar mig ekki hreint neitt í vinnuna þó ég sé í stuttbuxum og blóma-gollu. Ég vil bara áframhald á Þingvallahelgi í Parísar-kjól Urðar, pikknikk með myndarlega manninum, lestur og límonaði á veröndinni. Fjóla segir mér það fari ekki alltaf saman það sem manni langi og það sem maður þarf að gera. Alltaf skynsöm stúlkan sú. Ég mun arka í strætó með eydísar-gleraugun á nefinu, hávaða í eyrunum og örvæntingafullt bros yst í munnvikunum.

Niðurtalning í sumarfrí formlega hafin.

þriðjudagur, 13. júlí 2010

Hug-mynd-ir

Myndarlegi maðurinn er hálfnaður með takmarkið. "5,1 km á 30 mín" gortar hann kot-rosk-inn á fésinu sínu. Svo roskinn að nú er næsta takmark að; "geta gert það tvisvar í röð." Ekki kvarta ég. Mun betri hugmynd en að púla sveittur á hlaupabretti inni í húsi á miðju sumri. Hann er líka hættur að vera styrktaraðili kvenna í þrifþjónustu. Brugðum út af Íslendingum og réðum erlent farandverkafólk til verka. Ég klappa saman höndum og hrín af kæti í hvert sinn sem ég uppgvöta tandurhreint heimilistæki.

Myndarlegi maðurinn er þó ekki uppfullur af einungis góðum hugmyndum. Þessa dagana hótar hann því að láta sér vaxa yfirvaraskegg ef ég hætti ekki að tala um Tom Selleck. Það er ekki góð hugmynd.

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Sm-ellin

Sá á strimlinum úr Bónus að ég keypti appelsínur frá Afríku, sítrónur frá Spáni, vorlauk frá Bandaríkjunum, snjóbaunir frá Kenya, gulrætur frá Frakklandi, lime frá Brasilíu og vínber frá Suður Afríku. Myndi glöð þiggja þessar strimlaupplýsingar inni í versluninni. Gæti haft áhrif á val mitt.

Keypti strigaskó framleidda í Kína með adidas merki á. Þeir kostuðu sitt enda ekki keyptir í Bónus. Þeir eru hundforljótir en afskaplega þægilegir. Er væntanlega að færast á þann aldur þar sem ég get búist við að taka sveiflukenndar, en meðvitaðar, ákvarðanir um að taka þægindi fram yfir útli. Einu sinni skar ég mig líka á gleri í lófann. Fékk upphleypt og vel sjáanlegt ör sem nú felur sig auðveldlega innan um hrukkur í lófanum. Ellin er smellin.

mánudagur, 5. júlí 2010

Killers

Fórum í bíó í kvöld. Ég átti boðsmiða fyrir einn sem var orðinn ársgamall og fannst tími til kominn að nota hann. Lét framan af fingri til að kaupa miða handa myndarlega manninum svo hann kæmist með mér. 10 mín fyrir sýningartíma var byrjað að rúlla auglýsingum. Og þær rúlluðu. Og rúlluðu. Til tuttugu mín yfir sýningartíma. Hálftíma-auglýsingapakki á uppsprengdu verði. Og hvenær hætti stór popp að vera stór popp?!

Ræman var reyndar ágæt. Tom Selleck var í henni; einn örfárra manna sem komast upp með yfirvaraskegg. Mér líður öngvu að síður eins og ég hafi verið höfð að fífli. Bíó-fífli.

miðvikudagur, 30. júní 2010

Fyrirmynd

Fyrir þrjátíu árum var ég fimm ára. Ég kaus ekki Vigdísi Finnbogadóttur og hef ekki hugmynd um hvar ég var stödd, eða hvað ég var að gera þegar Vigdís var kjörin forseti Íslands. Ef til vill var það sami örlagaríki dagurinn og þegar mér loksins tókst að suða kasettu frá stóru systur minni og gat sjálf hafist handa við að taka upp lög úr útvarpinu. Kannski var ég bara að lesa fyrir litla bróður minn eða stríða honum. Ég er engu að síður stolt sem Íslendingur að eiga þessa fyrirmyndarkonu sem fyrrum forseta Íslands. Ég las nýverið sögu Vigdísar í þeim tilgangi að kynnast henni betur. Ég naut mest og best að lesa innlegg hennar sjálfrar í bókinni; hvílík skynsemdarkona.

Ég er ekki búin að senda, né yfirhöfuð ákveða hver fær fyrirmyndar-bréfið mitt. En ég er þegar komin með lista yfir gott fólk sem á skilið takk-bréf fyrir að standa mér nær hvernig sem viðrar.

Fyrirmynd KV 1 e-ð til eftirbreytni, fordæmi; ágæti:

mánudagur, 31. maí 2010

Kæra Sigurbjörg Katla

fékk persónulegt bréf frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í dag. Hanna Birna borgarstjóri sem ekki virtist geta beint augnaráði sínu að sjónvarpsáhorfendum í kosninga-auglýsingu sinni, virðist fullfær um að senda persónuleg bréf til Reykvískra kvenna. Eða þannig.
Í persónulega bréfinu mínu, þar sem ég er ekki bara "kæra", heldur líka "þér, þín, þínum og þig," biður Hanna Birna mig að setja X við D af því að þau hafa ekki hækkað skatta þar sem fjölskyldurnar mega ekki við meiri útgjöldum, þau hafna niðurskurði sem bitni á börnum og öldruðum, þau standa vörð um störf fastráðinna borgarstarfsmanna og þau gera kröfu um að skólar, leikskólar og þjónusta við eldri borgara sé framúrskarandi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir áttar sig ekki á því að kæra Sigurbjörg Katla er einstaklingur. Kæra Sigurbjörg Katla á ekki börn, er ekki í skóla, er ekki borgarstarfsmaður og er ekki á leiðinni á ellilífeyri í náinni framtíð. Mér, mín, mínum og mig skilur ekki hvernig hægt er að komast hjá því að hækka skatta án þess að hækka útgjöldin annarsstaðar, útgjöld sem einstaklingurinn ég þarf e-r að gjalda.
Ég ber vissulega von um velferð öllum til handa og átta mig fyllilega á að ég tilheyri heild. Fjöl-póstur hentar vel til þess að höfða til liðsheildar minnar. Dulbúinn, persónulegur fjölpóstur hinsvegar gerir það ekki.

Fyrir nú svo og utan að kæra Sigurbjörg Katla kaus sl. laugardag, og hvorki hún né mér, mín, mínum og mig X-ar við D-ið.

sunnudagur, 30. maí 2010

SÞF

Mamma mín prjónar, heklar, sníðir, saumar, föndrar og klippir hár jafn auðveldlega og ég drekk eitt vatnsglas. Ég erfði ekkert af þessum eiginleikum frá henni, enda 3 systur á undan mér í röðinni. Ég kann ekki heldur að búa til uppáhaldsmatinn minn, en það gerir ekkert til; soðkökurnar eru einfaldlega langbestar hjá mömmu. Hún gerir líka langbestu rjómatertuna og langbesta drullumallið. Hún nennir líka stundum að gera sér ferð í Smáralindina til að borða með mér hádegismat, leyfir mér að þykjast eiga allar ABBA plöturnar hennar og hún á afmæli í dag

föstudagur, 21. maí 2010

LHL

Hallveig systir mín á afmæli í dag



Hún hefur náð hinum árlega áfanga að verða aftur elst í systkinahópnum. Ekki amalegt það.

sunnudagur, 16. maí 2010

Ariel

Ég hafði mig með einbeittum viljastyrk í gegnum viðlagið, enda lagið á allra stelpna-vörum í Zöru-heimi. Held mér hafi svei mér þá hlakkað meira til að glápa á annan hring af sömu sílikon-syrpunni, en hlusta fram að öðru viðlagi. Ég leyfi mér stórlega að efast um að röddin sé stolin. Ekki bara vegna þess að ásakanirnar komu fram í Skitið og skeint*, og ekki heldur vegna þess að vanillu-bomban svaraði fyrir sig í Fréttablaðinu. Ónei. Af hverju í ósköpunum ætti nokkur sála að stela þessari rödd?! Það má vel vera að vanillu-bomban sé ekki öll alveg ekta, en vitlaus er hún ekki. Ef hún ætlaði sér að stela held ég hún hlyti að stela e-u betra, hún hefur jú stíl.

Svo er ekkert hægt að stela rödd. Ég reyndi það áðan og greip í tómt. Myndarlegi maðurinn masar enn.
Hinsvegar er hægt að gera sér-samning við vondar haf-flyðrur um að láta röddina sína í skiptum fyrir fætur. En þá þarf maður líka að hafa armennilega rödd.

*Séð og heyrt.

fimmtudagur, 6. maí 2010

Veruleikar

Í frí-veruleikanum í Skotlandi þorði ég ekki að spyrja hversu stór Large kaffibolli væri, þar sem Medium var álíka stór og langleitt andlitið á mér


og myndarlegi maðurinn drakk svo mikinn T að hann ummyndaðist í bjór stuttu áður en við yfirgáfum Skot-landið


Vika flogin af raun-veruleikanum. Mér hlýnar í kvöldbirtunni og kitlar af væntanlegu sumri.

sunnudagur, 25. apríl 2010

Sko-t-land

Rútuferð frá BSÍ; 22:00.
Komutími á Akureyri; 03:00.
Áætlaður flugtími; 05:00.

Vorum líka að uppgvöta af hverju hótelgistingin í Glasgow er svona ódýr. Við pöntuðum víst bara 1 nótt en ekki 2. Erum búin að bæta annari nótt við, höfum bara ekki fengið staðfestingu á þeirri pöntun. Ennþá.
Mig hlakkar samt voða mikið til að fara í ferðalag með myndarlega manninum mínum; skrölta í rútu í 5 klst um miðja nótt, borða smurðar eggjasamlokur á leiðinni, gera mér vonir um að sofna í flugvél í fyrsta skipti á ævinni, fara aftur í rútu í Skotlandi og hitta Ástu og Tótu.

Svo er örugglega gaman að vera skotin í Skotlandi.

laugardagur, 24. apríl 2010

Bogga litla,

næst elsta systir mín, á afmæli í dag



Hún hefur náð hinum árlega áfanga að verða jafngömul elstu systur okkar. Og já, við erum allar alsystur.

þriðjudagur, 13. apríl 2010

Shakespeare

Á vorri jörð svo aumt er ekki neitt,
að ekki geti farsæld af því leitt,
né neitt svo gott að ekki verði að illu
ef eðli þess er spillt og leitt í villu.
Dyggðum má snúa í lesti á ýmsar lundir
og löstur verður dyggð ef svo ber undir.

laugardagur, 3. apríl 2010

Ver

Dreymdi nokkuð raunverulega í nótt. Ekki endilega eins og ég myndi sjálf kjósa raunveruleikann, en raunverulegt alveg fram að þeim punkti þar sem ég var komin með inngöngu í vafasamann galdraskóla í djúpum undirheima, og myndarlegi maðurinn var einn af kennurunum þar. Hann var ískaldur og grimmdarlegur í framkomu við mig, allt þar til mér var byrlað eitur og ég hné niður og var svo gott sem komin með fuglshöfuð.
Mín túlkun á draumnum er sú að ég hafi hrapað niður í undirheimana um leið og ég byrjaði að fara inn í sængurverið. Það var svo sem ekkert óþægilegt að vakna í sængurverinu með sængina í fanginu. Myndarlegi maðurinn ætlar öngvu að síður að bródera fallegann fugl í hliðina á verinu, og hefur fullvissað mig um að hann sé ekki að kenna á daginn; hann vinni bara hjá Vegagerðinni.

föstudagur, 2. apríl 2010

K

Af því Parísardaman stal flottustu myndinni af eldgosinu af vef RÚV og af Landhelgisgæslunni, ætla ég að stela henni frá henni. Hún gerir þá varla annað en að skamma mig fyrir það.



K er vissulega fyrir Kristín en ég held að þessi skilaboð komi frá Kötlu. Katla kallar á Kristínu.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Decor

Þegar myndarlegi maðurinn masar og masar og missir svo fimina í málfærninni og segir; hvað ætlaði ég nú aftur að segja? finnst mér ofsalega sniðugt að svara; ætlaðir þú ekki bara að þegja? Enda segja og þegja svo gott sem sama orðið og ég svo ofsalega sniðug stelpa. Hlæ og enda langhæst að sjálfs míns fyndni.

Örkuðum í bæinn í dag í frískandi veðrinu. Ég fékk óvæntann glaðning í vikunni í ígildi fjárs. Leyfði mér því að fjárfesta frekar í HlíðarTún-gjörningnum og arkaði svo beint í Bónus að kaupa sælgæti. Þetta kalla ég almennilega bæjarferð


þriðjudagur, 9. mars 2010

Keftiréttur

Mikið leiðist mér sú veitingastaða-lenska að bera kaffið fram á undan eftirréttinum. Þegar ég panta mér eftirrétt og kaffi, vil ég fá kaffið með eftirréttinum. Ég vil hvorki drekka kalt kaffi með eftirréttinum mínum, né eiga rétt botnfyllis-slurk af kaffi eftir þegar eftirrétturinn minn kemur. Hef oft velt því fyrir mér af hverju þetta sé svona og hvort þetta sé sér-íslenskur gjörningur. Hef ekki komist að neinni varanlegri niðurstöðu.

Það er aðeins eitt sem angrar mig meira en þessi gjörningur; þegar ég bið sérstaklega um að fá kaffið um leið og eftirrétinn, og fæ svo kaffið á undan.

laugardagur, 27. febrúar 2010

Imba frænka mín

bjó til rosalega góða hvíta köku með súkkulaðibitum og hvítu kremi. Hún drakk alltaf kaffið sitt úr glasi. Hún tók alltaf vel á móti gestum og veitti vel af mat. Hún átti sjálf engin börn en ól samt upp þrjú. Henni þótti vænt um dýr og átti bágt með að vera nálægt dauðum skepnum. Það var gaman að vera í sveit hjá henni. Hún leyfði mér alltaf að reka beljurnar, dansa við hundinn og bannaði mér aldrei að gefa honum brenni; bað mig bara um að gefa honum ekki mikið. Svo leyfði hún mér alltaf að hlusta á plöturnar sínar þegar ég kom í heimsókn. Hún var hörkudugleg og líka glettin. Hún var mikil blómakona og á enn fallegasta garðinn í Borganesi. Svo þótti henni voða vænt um pabba minn.

Imba var fædd í mánuðinum mínum og kvaddi í honum líka. Mér skilst að Imba frænka mín sé jafngömul mér á þessari mynd


Þetta er ekki Imba eins og ég þekti hana, en þó þekki ég svipinn vel. Mér þykir vænt um hana.

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Best fyrir

Tók eftir því fyrst í dag að myndarlegi maðurinn virðist vera á síðustu metrunum



Best fyrir: 26.03.2010 stendur á hvítum miða á ilinni. Ég hafði nú satt að segja vonast eftir lengri tíma. Sjáum hvað setur.

föstudagur, 12. febrúar 2010

Bráðum, bráðum

Ég elska að eiga afmæli. Ég elska að hlakka til þess og nýt þess í botn að fólk óski mér til hamingju með að hafa fæðst. Elska gleðina og brosin sem ég fæ, en mest af öllu elska ég að fá pakka. Og já, svona almennt að fá e-ð fyrir það að hafa fæðst. Til að fá sem mest út úr þessu hef ég alltaf 2. í afmæli og jafnvel 3. Ég á reyndar ekki afmæli fyrr en þrettánda, en ég er þegar búin að fá afmæliskaffi, fullt af brosum OG frábærar gjafir. Frábæru samstarfsstúlkur mínar gáfu mér alveg nýja sýn í dag; auðvita á maður að byrja að hita upp fyrir afmæli! Rétt eins og með bolludaginn; hann er vissulega bara einn dag á ári, en auðvita byrjar maður að úða í sig bollum þegar tækifæri gefst. Grípa gæsina áður en hún gefur upp öndina.



Eftir rúmann kltíma á ég loksins afmæli. Ég er þegar byrjuð að suða um tánudd.

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

Février

Febrúar er mánuðurinn minn. Ég deili honum glöð með góðu fólki, en ég á hann samt. Ég hef ekki tíma til að hlakka til fjarlægs vors í Janúar, ég er of upptekin við að hlakka til febrúars. Ég hef líka verið upptekin við að klappa poka með súrdegi, týna til hluti úr hlíð í tún, rifja upp doldið af frönsku, drekka mikið af kaffi og vera ástfangin upp fyrir haus. Hef einnig afrekað langþráð matarboð með tveimur góðum vinkonum, og á nú blómstrandi túlípana á borði og trönuberjalyktandi spýtur í glasi.

Eins og febrúar er nú oftast kuldalegur mánuður, veðurfarslega séð, þá finnst mér orðið á íslensku svo afskaplega notalegt. Á frönsku, afskaplega fallegt.

mánudagur, 11. janúar 2010

Illt skeytingarleysi

Staðin upp úr sófanum. Get bara ekki horft einu sinni enn á þessa klippu þar sem lifandi fugl er fláður lifandi. Og jafnvel saumaður lifandi eftir plokk-þörfum. Get ekki skilið hvað í heilanum segir manneskju það sé í lagi að meiða lifandi dýr. Hef ímugust á illri meðferð í garð dýra.
Myndarlegi maðurinn hefur greinilega líka fengið nóg. Hann er farinn niður í þvottahús með bleiku inniskóna mína. Það hefur ekki verið gerð heimildarmynd um það safn af táfýlu sem loðað getur við kafloðna inniskó, en frekar kýs ég fýluna í gervinu en plokkaðan dún af lifandi fugli. Ojbarastann!

laugardagur, 2. janúar 2010

Tíð

Labbaði í gær í mjúkri birtu nýársdags, að gamla vinnustaðnum í Skógarhlíðinni. Rýndi inn um glugga á tómt rými fyrrum skrifstofu. Kyrrð í lofti og fátt sem sat eftir. Það er fortíðin.

Mætti fyrir allar aldir á núverandi vinnustað ásamt galvöskum vinnufélögum til að leggja lokahönd á undirbúning útsölu. Útsölu sem hófst á slaginu ellefu og iðaði af lífi í allann dag. Það er nútíðin.

Á morgun er á morgun. Og ég hlakka til. Það er framtíðin.

föstudagur, 1. janúar 2010

Tvöþúsund&tíu

Eftir því sem árunum fjölgar uppgvöta ég betur og betur hversu lítið ég þarf á fortíðinni að halda. Ég er ginkeypt fyrir nýungar og hef gaman af breytingum. Ég hef þegar fengið margar óskir uppfylltar en langar samt í meira. Ég strengi ekki áramótaheit en er þó full af væntingum og löngunum. Mér finnst gott að lifa í nútíðinni og enn og betra að hlakka til framtíðarinnar. Ég er í bleikrósóttu pilsi og mikið meira en til í 2010.