miðvikudagur, 29. desember 2010

Amma mín,

sem skírð var Hallveig í höfuðið á landnámskonu okkar Íslendinga, er níutíu ára í dag. Amma er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hefur ákveðið hugarfar og sterkar skoðanir. Hún hefur alltaf fylgst vel með öllum fréttum og viðburðum og veit því heljarins ósköp um allt og ekki neitt. Með ömmu hef ég ófáum Billede blöðum flett og rætt um konungsslekt, afa, Reykjavík, bækur og ástina yfir kaffi og Berlínarbollum. Amma kenndi mér að matreiða snitzel og að klæða mig rétt í nælonsokkabuxur. Hún býr líka til besta plokkfisk í heimi, kakósúpu og klatta.

Amma segist ekki hafa látið sér koma til hugar hún ætti eftir að verða níræð, en það sé í góðu lagi meðan hugurinn virkar og minnið bregst ekki.

Hér er amma mín 16 ára


Og hér erum við amma í níræðisafmælinu hennar fyrr í kvöld

6 ummæli:

Lífið í Árborg sagði...

Falleg kona hún amma þín, bæði sem ung stúlka og sem eldri dama, dæmalaust er hún með fallegt hár. Til hamingju með hana.

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk fyrir Þórunn! Hún amma er með hnausþykkt, liðað hár sem þynnist nákvæmlega ekkert með aldrinum. Hins vegar varð hún alveg gráhærð þrítug. Það var reyndar á þeim tíma sem það var móðins að vera með grátt hár, og hún hefur gaman af að segja frá því hvernig sumir voru sannfærðir um að hún hefði litað á sér hárið, en væri ekki raunverulega gráhærð, þrítug manneskjan.

Kristín í París sagði...

Mjög falleg kona, innilega til hamingju með hana. Og hvenær kemur svo youtube-myndband með því hvernig á að klæða sig í nælonsokkabuxur? Gleðilegt árið!

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk Kristín! Eins fáránlega og það hljómar, þá skiptir máli að kunna að klæða sig í örþunnar og rándýrar nælonsokkabuxur, sem annars er sáraeinfalt að rífa. Skemmtilegast við það þó var að fá kennslustund "úr fortíðinni".

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þetta var yndisleg lesning.Til hamingju með ömmu þína.

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk Svanfríður : )