fimmtudagur, 6. desember 2012

Tímamisminni

"Ertu vöknuð?" hvíslaði sá myndarlegi út í svefnherbergisloftið. "Já" hvíslaði ég á móti.
Lágum þétt upp við hvort annað og töluðum um drauma, tímamismun, ferðina okkar, jólin, tilfinningar, hamingjuna og allt og allt, margt og lítið, mikið og smátt alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Snúsuðum í þrígang þrátt fyrir að vera löngu vöknuð. 

Svona getur nú verið skemmtilegt að jafna sig á tímamismun.

þriðjudagur, 4. desember 2012

Ástfangin af mat, lakkrís og myndarlegum manni

Skar niður beikon og sveppi og steikti á pönnu meðan sá myndarlegi útbjó hvítlauksolíu fyrir konuna sína. Mallaði saman rjóma og gráðaost  og lagði á borð. Sauð ostafyllt tortelini og dansaði við þann myndarlega í takt við kínverska djassinn sem við keyptum í Hong Kong. Bætti niðurskornum perum og salthnetum út í réttinn rétt í lokinn og kveikti á kertum. Pipraði og kyssti svo karlinn beint á munninn


Torguðum ekki nema ríflega helmingnum af þessari saðsömu dásemd. Arkaði svo með belginn fullan niður í bæ að kaupa lakkrís af tónskáldi. Nýbúin að kaupa lakkrís af gamalli skólasystur sem er reyndar ekkert svo gömul.

Svona þykir mér gott að lifa.

sunnudagur, 2. desember 2012

Heimsálfa á milli

Meðan veturinn lék sér að landanum með lemjandi roki og beljandi snjó spókuðum við myndarlegi okkur á stuttbuxum í sól og hita í Hong Kong. Ástralía tók vinalega á móti okkur með veðri eins og það gerist best á íslensku sumri. Í Singapore bugaði raki og hiti okkur svo mjög að við hugsuðum hlýlega til þess að koma heim til kalda Íslands.

Hvað gera svo tvö flón sem hafa ekki enn náð að jafna tímamismun Asíu og Norðurhvels og vakna kl. sex á sunnudagsmorgni? Jú, auðvitað baka þau smákökur 

þriðjudagur, 23. október 2012

Sífellt sólskin á Mó-holti

Sumarið 1913 hugðist Þórbergur Þórðarson afla sér tekna með málningarvinnu utanhúss í Reykjavík. En sumarið var rigningarsamt og ekki vildi viðra til húsamálunar. Þórbergur gáði á hverjum degi til veðurs. Þótt hann sæi alltaf fallegt sólskin á einhverjum tindinum austan við Esjuna lét uppstyttan standa á sér. Einn daginn skrapp hann upp fyrir Skólavörðu til að horfa á tindana. "Mér fannst öll framtíð mín, allt líf mitt, hanga á þessum sólroðnu tindum. Ég nam staðar á klöppunum suðaustan við Vörðuna og góndi lengi í norðaustur. Þá uppgvöta ég, að það er engin heiðríkja yfir tindunum, þó að sólskinið sé á þeim. A-a? Hvernig í ósköpunum getur staðið á þessu? Eru helvítin sjálflýsandi eins og maurildi? Þessari uppgvötun fylgdi önnur enn þá hræðilegri. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var bara grjótið í þeim, sem var svona á litinn." (Þórbergur Þórðarson: Ofvitinn, Reykjavík 1941). Þannig hafa Móskarðahnúkarnir blekkt margan maninn.


(Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson: Íslensk Fjöll - gönguleiðir á 151 tind, Reykjavík 2010).

sunnudagur, 21. október 2012

Hó-Holt og Mó-holt

 Færði þeim myndarlega Holtið í rúmið


og dreif hann svo framúr á hærra holt. Bjuggum okkur undir að mæta frískandi októberkulinu en vorum fljót að týna af okkur plöggin. Veðrið lék við hvern sinn fingur og kætti glaða lund   


Það var ekki fyrr en við nálguðumst toppinn sem við tókum eftir litlu snjókornunum sem flögruðu allt í kring, og ekki fyrr en við settumst niður til að drekka kaffið okkar á toppnum, sem við byrjuðum að dúða okkur 


Týndum aftur af okkur á leiðinni niður. Hvílík veðurmildi í október á fjöllum. Hvílík litbrigði, fjölbreytni, fegurð og kyrrð. Hvílíkur félagsskapur, hamingja og ást. Helber himnasæla 


laugardagur, 20. október 2012

Um bleikt Holt og appelsínugular hæðir

Var vakin af þeim myndarlega í morgun. Ekki bara færði hann mér rjúkandi kaffi, hann gaf mér líka pakka. Bleikan pakka sem tældi brosið fram á svefnpurku með úfið hár


Eftir rjúkandi kaffibolla var svefnpurkan rekin á lappir og sagt að fara í leppa. Og ekki bara e-a leppa, fína leppa. Sem betur fer hlýddi ég og tjónkaði við hárið á mér að auki. Sá myndarlegi dubbaði sig upp í bestu jakkafötin og dreif svefnpurkuna sína í hádegismat á Holtið


Eftir listaverk í forrétt, kvöldmat í aðalrétt og brenndan rjóma í eftirrétt sveif ég svo glerfín á kjörstað með þann myndarlega upp á arminn.

Var enda jákvæð að flest öllu leyti, nema einu.

miðvikudagur, 17. október 2012

Lýðveldismubla


Þegar ég kynntist þeim myndarlega bjó ég í Sigvaldablokkinni í hlíðunum. Ég bjó í 47 fermetrum með pínulitla kompu (á stærð við kústaskáp) við hliðina á hurðinni minni. Hinar íbúðirnar voru flennistórar með feikn góðar kompur (á stærð við herbergi). Íbúarnir sem mest höfðu plássið dugði greinilega ekki plássið. Fyrir utan hjól og barnavagna úði og grúði af dóti og drasli í sameigninni. Einn daginn var ákveðið að taka skurk í dótinu og henda draslinu. Kom þá ekki nema í ljós hin prýðilegasta hilla sem enginn ábúandi kannaðist nokkuð við eða kærði sig um að hirða. Ég, sem hafði flokkað og sorterað og hent og fleygt til að koma sjálfri mér og mínu hafurtaski fyrir í skonsunni minni, gat ekki hugsað mér að sjá á eftir þessari bláókunnugri hillu í ruslið. Ég, sem var svo gott sem farin að búa með þeim myndarlega ákvað að taka hilluna undir minn handlegg og flytja hana með mér í Samtún. Þar hefur hún staðið upp við rönd uppí risi útí horni og safnað ryki.

3 árum síðar þurrkaði ég af henni rykið, splæsti olíu á viðinn og sá myndarlegi hengdi hana upp. Hillan, sem merkt er 17.júní 1944, smellur eins og tappi við tíkarsrassgat við nýja sófasettið okkar. 


Svei mér þá ef sá myndarlegi smellur ekki eins og flís við ....?

fimmtudagur, 6. september 2012

Á morgun, á morgun...

Stóð í baðkarinu áðan og furðaði mig á hvað vatnsbunan var heit. Alveg þar til ég uppgvötaði að kraninn var stilltur á 50, þá fyrst fann ég að það var brennandi heitt en ekki bara óvenju heitt. Meira hvað maður er ósjálfbjarga þegar betri helmingurin bregður sér af bæ. Ligg í skítakulda í bælinu og næ ekki að halda hita á sjálfri mér. Get heldur ekki horft á sjónvarpið því það er stillt á dvd-ið sem er ágætt, ég skelf þá bara af kulda en ekki hræðslu líka. Væri vís með að horfa á e-ð skerí glæpastöff ef ég kynni að gera e-ð meira en bara kveikja og slökkva á bannsettu viðtækinu.

Á morgun kemur sá myndarlegi heim. Ætla að gefa honum upphitað lasanja og senda hann með soninn beina leið á Ísland - Noregur. Þeir feðgar munu áreiðanlega njóta vel, hvorugur er áhugamaður um fótbolta.

Djöfuls skítakuldi. Ætti ég að sofa í sloppnum?

þriðjudagur, 4. september 2012

Haus á káli er blóm

Vorum orðin úrkula vonar um að fá nokkurt blómkál í nýja matjurtagarðinn. Höfðum tekið eftir sniglum sem snigluðust í garðinum fyrr í sumar og töldum okkur trú um, í afar svörtu svartsýniskasti, að óværan sem sumir vilja helst leggja sér til munns með hvítlauk, hefði haft okkur, og blómkálið, undir. Vorum því kampakát er við uppgvötuðum að tveir blómkálshausar höfðu sprottið upp, annar með miklum vaxtakippum og skiljum við nú loks af hverju blómkál heitir BLÓMkál



Sá ofvaxni var saxaður í ljúffenga kartöflublómkálssúpu sem við höfðum áður prófað og vissum að var góð. Fyrir hinn hausinn setti ég undir mig hausinn og lagðist í uppskriftaflettingar. Útkoman varð þessi baka


Blómkálið aftur í kartöflufylgd ásamt papriku, beikoni, Camembert, eggjum og mjólk.


Nú hefur þriðja blómkálið rekið upp hausinn og bíður eftir að komast inn í eldhús til okkar. Lumar e-r lesandi hér á girnilegri blómkálsuppskrift sem ekki krefst kartöflu?

fimmtudagur, 30. ágúst 2012

Krimmakrútt

Lagðist uppí sófa eftir vinnu og langaði að leggja mig. Langaði líka að vera húðlöt en gerði hvorugt. Magga systir var búin að melda okkur með sér í Norræna húsið. Sem betur fer. Jussi Adler-Olsen er nefninlega ekki bara krúttaralegur karl sem skrifar góðar bækur, hann er líka feikn skemmtilegur, kann að stafa Magga og Katla, og vildi sjálfur láta taka mynd af sér með tveimur systrum


miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Heimilisprýði síðan 1966

Eftir að hafa troðið okkur út af kjötbollum og kartöflum með brúnni sósu og rabbarbarasultu og skyri með rjómablöndu og berjum úr sveitinni leysti mamma okkur út með gjöf



Mamma fékk vasann að gjöf árið sem Hallveig systir fæddist og því ekkert skrýtið að mér finnist eins og vasinn hafi alltaf verið til þar sem hann var búinn að prýða heimili foreldra minna í níu ár áður en ég birtist.

Nú mun garmurinn prýða okkar heimili og hefur þegar gert sig heimakominn í félagsskap Veturliða og allra hinna tekk-aranna í borðstofunni.

mánudagur, 27. ágúst 2012

Áratugur á áratugi ofan

Fórum í hádeginu og keyptum okkur sófasett, skenk og skáp. Stofurnar prýða nú 3 sófar, 4 stólar, hillusamstæða, skenkur, skápur, skrifborð, bókahillur, ruggustóll, 2 sófaborð og ég veit ekki hvað og hvað. Úir og grúir af 3. 4. 5. 6. 7. og 8. áratug í mublum og smáhlutum. Palísander, tekk, fura, beyki, handmálaður krossviður, keramík, gler og gylltir gips rammar. Í stöðu sem þessari er ekkert annað að gera en skála í Vintage



og dást að art deco stúlkunni okkar.

miðvikudagur, 15. ágúst 2012

Máttur fésins á bloggið

Vegna fjölda áskorana á fésinu kemur hér uppskrift að *heitrauðu paprikusúpunni sem við gæðingarnir gæddum okkur á í gærkveldi


Olía borin á 3 rauðar paprikur og þær látnar malla í ofni í 20 mín. Því næst kældar og reynt að ná sem mestu hýði af þeim undir rennandi köldu vatni, eða þar til þolinmæði ofbýður og skipar þér að hætta þessari helv.vitleysu sem skipti engu máli þar sem allt heila klabbið eigi eftir að enda í matvinnsluvél. Hálfur laukur og 2 hvítlauksgeirar steiktir í olíu og smjöri. Hálfflysjuðum paprikum bætt út í ásamt 3 dl. af vatni, grænmetiskrafti, chillidufti, kummin, kóríander, salti og pipar. Sjóðið í 20 mín. eða þar til betri helmingurinn rífur þig upp úr internetósómanum og minnir þig á að þú ert að elda súpu sem búin er að sjóða. Og sjóða. Fá betri helminginn til að bæta vatni á súpuna, smakka hana til og *blanda saman með töfrasprotanum. Fyrst betri helmingurinn er svo byrjaður í eldhússtarfsemi er best að fá hann til að kippa brauðinu úr ofninum í leiðinni.

Fyrst ég er byrjuð er best að láta *fljótlegu brauðuppskriftina fylgja með líka. Blandið 3,5 dl af hveiti, 3,5 dl af haframjöli, 1 dl hveitiklíð, 1 msk sykur, 4 tsk lyftiduft og 0,5 dl af hörfræjum saman og hrærið saman við 0,5 ltr af súrmjólk. Setjið í ílanga sandkökuformið hennar ömmu og stráið sólblómafræjum yfir. Bakið við 200°C í ca 50 mín.

Borið fram með sýrðum rjóma í súpuna og glás af smjöri á heitt brauðið. Skálin töluvert umrædda er önnur af tveimur sem ég keypti nýverið hjá Retró-Magnúsi á fésinu. Ef minnið bregst mér ekki átti tjéð sandkökuformsamma svona skálar



Meiri bólan þetta facebook.

*tekið lóbeint upp úr M-tímariti um mat og vín, tbl. fjögur 2005.

mánudagur, 13. ágúst 2012

Lund, sund, snúinn rass í hund

Er ég bjástraði við bannsett sundgleraugun í sundi í gær hóf miðaldra maður með sundhettu að spyrja mig út í sundfimi sína. Þar sem ég hafði ekki mikinn áhuga og hafði heldur ekki tekið eftir því hvernig hann synti, voru svör mín á þann eina veg að ég vissi ekkert um það hvernig hann synti, hvort stíllinn væri í lagi hjá honum, hvort hann hefði synt beint eða almennt borið sig fagmannlega að við sundtökin. Spurningum eins og "æfir þú sund? Ferð þú oft í sund? Æfir þú frjálsar? Æfir þú íþróttir? Ertu í sundfélagi? Ert þú í e-u íþróttafélagi" var öllum svarað með stuttu en snörpu nei-i. Sundhettumaðurinn var þó hvergi banginn og vippaði sér því næst í að tala um ólympíuleikana. Þar með var ófélagslund minni allri lokið og ég hvæsti fremur ókurteislega að eymingjans sundhettuklædda sundgarpinum með óbifandi íþróttaáhugann og félagslyndi á stærð við sundlaug, að ég væri ekki komin í sund til að tala. Spyrnti mér því næst kröftuglega frá bakkanum og synti úr mér bölvaða geðluðruna.

Í heita pottinum sat selsvaxinn heldri maður með skalla og gráar tennur, fyrir utan aðra framtönnina sem var ekki lengur til staðar. Mæsti og blæsti eins og 38°heitt vatnið væri að gera útaf við hann. Yrti ekki á mig. Ef til vill búið að vara hann við hvæsandi kvendinu.

Sá myndarlegi hljóp 10 km hringinn til æfingar fyrir fjórðungs maraþonið og vippaði sér því næst í sultugerð. Sultaði 5 kg af berjum með bros á vör og gleði í hjarta. Engin luðra þar enda ekki að ástæðulausu að betri helmingurinn minn er betri helmingurinn.

Hvað er annars málið með sundgleraugu? Af hverju er bandið alltaf að losna svo ég þarf að bjástra við þau í hvert skipti sem ég fer í sund? Af hverju verð ég alltaf aum við nefið af því að nota sundgleraugu? Af hverju þurfa þau að vera svo þröng að eftir sundsprettinn sit ég yfirleitt með blikkandi rauða hringi kringum augun í heita pottinum? Af hverju ræddi ég þetta vandamál ekki við þann sundhettuklædda? Og bara svo þið vitið það, þá er það eina góða við ólympíuleikana að þeir eru búnir.

laugardagur, 11. ágúst 2012

Gleði

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu. Ástin spyr því ekki um kynhneigð, húðlit, þyngd, háralit, aldur né fyrri störf. Ástin spyr ekki um neitt af því sem skapar stétt né stöðu. Stétt og staða er sköpuð af samfélagi. Samfélaginu okkar.
Ástin biður um kærleika og heiðarleika, -leikar sem samfélag ætti að vera skapað af. Ég vildi óska að samfélagið okkar væri skapað af samþykki sem af hlytist sátt, en ekki af umburðarlyndi sem sprottið er af fordómum.

Þess vegna ætla ég að spenna upp marglitu regnhlífina, arka með ástinni minni í bæinn, og taka þátt í þeirri gleði sem felst í því að samþykkja náungann eins og hann er.

fimmtudagur, 2. ágúst 2012

1952

lofuðu sómamanneskjurnar Kristín Hulda og Matthías sér í hjónaband


60 árum síðar skína þau enn sem demantar


miðvikudagur, 1. ágúst 2012

Maurice

er skrifuð 1913-1914 og tileinkuð a Happier Year



" ´And what´s to happen to me?´said Maurice, with a sudden drop in his voice. He spoke in despair, but Mr Lasker Jones had an answer to every question. ´I´m afraid I can only advise you to live in some country that has adopted the Code Napoleon´, he said.
´I don´t understand.´
´France or Italy, for instance. There homosexuality is no longer criminal.´
´You mean that a Frenchman could share with a friend and yet not go to prison?´
´Share? Do you mean unite? If both are of age and avoid public indecency, certainly.´
´Will the law ever be that in England?´
´I doubt it. England has always been disinclined to accept human nature.´

fimmtudagur, 12. júlí 2012

Vaðall um fjöll, fell og háls

Ef ég tryði á guð hefði ég beðið til hans er ég hékk á milli heims og helju* í Reykhólahreppi um daginn. Þar sem ég hékk í brattri hlíðinni og íhugaði að fleygja mér niður stuðlaða klettana, rifjaðist það upp fyrir mér að ég tryði á mig. Með fítonskrafti skutumst ég og hræðslan á toppinn og vorum bænheyrðar af náttúrunnar dýrð


*milli tveggja hnjúka Vaðalfjalla.

Á Úlfarsfelli hefði mátt trúa að þar hefði annar guð aðsetur


en ég trúi á ástina sem fór með mér þangað upp.

Á hálsinum réð þokan ríkjum og Daney varð að trúa á okkur sem teymdum hana í villu og svíma eina 6 auka km á ótraustri stikuleið. Réttu stikurnar leyndust í þokunni



og leiddu okkur niður af hálsinum ásamt dillandi lukkunni.

Er að skreiðast út úr þokunni og trúi á mig sem lukkunar pamfíl.

mánudagur, 25. júní 2012

Hringdi með æsingi í röddinni

í bróður minn í gær. Varð að láta hann vita af mynd kvöldsins á RÚV. Fyrsta sem bróðir minn sagði var; manstu hvað við vorum hrædd? Jeramíasminnmanég! Ég var skítlogandihrædd í 3 áratugi eftir að ég horfði á þessa mynd, allt þar til í gær er ég sá hana aftur



Þar sem Húsið hefur verið brennd í minni mitt í þessa 3 áratugi var fátt sem kom mér á óvart, nema þá helst hvað hún var hæg og lítið draugaleg, eiginlega bara alls ekki neitt draugaleg. Mér fannst samt gaman að sjá hana aftur, finnst plottið enn gott og naut Eydísarnostalgíunnar.

Ekki síðra að losna við Hús-hræðsluna. Vonandi.

miðvikudagur, 20. júní 2012

Sjarmerandi spéfugl

Fyrir rúmu ári skrifaði ég e-ð á þá leið að menn misstu ekkert húmorinn við það að rétt silast yfir hálfa öld. Húmorinn hjá kómíska kærastanum mínum styrktist bara við að komast annað árið yfir hálfu öldina


tví-efldist jafnvel



Gef mér því að húmorinn þrí-eflist eftir tæpt ár og leyfi mér að hlakka til að sjá hvað þeim myndarlega dettur í hug að setja á höfuðið á sér á næsta afmælisdegi. Hláturinn lengir jú lífið.

þriðjudagur, 19. júní 2012

föstudagur, 15. júní 2012

Eftir lengri vinnudag en vanalega

tók ég eftir því á heimleiðinni að bifreiðin var að verða bensínlaus. Ef rauða ljósið hefði getað gefið frá sér hljóð erum við að tala um heila lúðrasveit og læti. Fór að hugsa um hvar næstu bleiku bensínstöð væri að finna og veðjaði á Snorrabrautina. Lét ekki hugfallast þegar gulur góndi á mig þar og hugsaði með mér að fyrst ég væri komin þetta langt þá væri lítið mál að beygja niður á Miklubraut því ég var handviss um að stöðin væri bleik við Kringlu. Nema ég tók vitlausa beygju og endaði niður á umferðamiðstöð þar sem ég hugsaði aftur að fyrst ég væri nú komin þetta langt þá hlyti ég að hafa það af að snúa við og koma mér á bleiku bensínstöðina við Kringluna. Og það tókst. Næstum því.
Á ljósunum við Kringlu (Miklubraut/Kringlumýrarbraut) stoppaði Gullvagninn. Harðneitaði að fara fetinu lengra án vökvunnar.

Hvað gerir svo stúlka á fertugsaldri í vanda? Jú, hringir í pabba sinn nema pabbi var líka að vinna langan vinnudag og í ofanálag á reiðhjóli. Pabbi benti nú stelpunni sinni á að það væri göngufært á bensínstöðina og jafnvel hægt að fá brúsa á stöðinni hinum meginn. Stelpan benti pabba sínum ekki á að hún hefði ákveðið að fara á appelsínugulu hælaskónum sínum í vinnuna um morguninn. Stelpan hringdi í bróður sinn sem kom að vörmu spori með tvo brúsa fulla af bensíni. Á árum áður var bróðir minn bensínlaus í tíma og ótíma út um hvippinn og hvappinn. Í gær uppástóð hann að þessir tveir brúsar, sem stóðu blindfullir af bensíni í bílskúrnum hans, væru ætlaðir sláttuvélinni, hann væri löngu hættur að verða bensínlaus.
Hverju svo sem sætir þá er ég ánægð að eiga lítinn bróður sem býður mér á tónleika eitt kvöldið og bensín næsta kvöld á eftir

Brósi í Hörpu í gær

fimmtudagur, 14. júní 2012

Ráð-stefna og afmæli

Sá myndarlegi kom örþreyttur og örlítið rakur heim í gær með fangið fullt af blómum


Ekki handa mér, seiseinei, blóm sem honum voru afhend fyrir að skipuleggja og vinna að stórri ráðstefnu. Vafalítið staðið sig með miklum sóma, skyri og rjóma. Svaf líka eins og ungbarn undir sæng laust eftir níu í gærkveld.

Öllu hressari í kvöld er hann snaraði fram dýrindisnautasteik og hrærði saman bernaise fyrir afmælisbarn dagsins, væntanlega úthvíldur og einu hugsanlegu áhyggjurnar sitt eigið afmæli eftir örfáa daga


Eftir nautasteikina var ég svo heppin að vera boðin í Hörpu þar sem ég hlustaði á sinfóníuhljómsveit og sópransöngkonu, nútímaleg verk og klassísk. En sú dásemd sem tónlist er, að maður tali ekki um góða veðrið úti. Enda er ég á leið í göngutúr og geri mér góðar vonir um að ná þeim myndarlega upp af sófanum.

Þó ekki fyrr en ég er búin að setja hér inn mynd af fína afmælisbarni dagsins og sætu systur hans



miðvikudagur, 13. júní 2012

Fór í gala dinner í gær

ásamt 899 öðrum og uppgvötaði að mig sárvantar hvíta flík sem er klárlega það heitasta í dag, eins og t.d. hvíta kjólinn sem ég sá í Fréttablaðinu um helgina, þessi þarna efst til vinstri



Á hvítar nærur og haldara. Haldari að vísu orðinn örlítið grásprengdur af þvotti en ætti að geta sloppið. Kjólinn gæti ég svo strax notað aftur í næsta mánuði í bryllupi. Í ágúst gæti ég svo unnið í garðinum í þessari fínu flík þar sem ég þarf ekki að óttast grasgrænkuna og í september gæti ég svo prófað að hella yfir hann rauðvíni ef mér skyldi detta í hug að bjóða fólki heim í mat. En þá verður þessi drusla líka löngu dottin úr tísku og því orðinn óþarfi að fylgja ráðunum þarna í vinstra horninu eftir. Þá verð ég löngu búin að snúa mér að næsta lit sem ég þarf að eignast til að vera inni og heit.

mánudagur, 11. júní 2012

Þegar forsíðufréttirnar snúast um

að landsbyggðin tapi konum, að ýsan sé við hættumörk og að hvítt sé inni, finnst mér þessi forsíðumynd vel við hæfi



Grínlaust.

sunnudagur, 10. júní 2012

Lífið er grænt og það er kominn júní.

Höfum dundað okkur við garðdútl undanfarna blíðviðrisdaga. Dútlað við að skipta og færa gróinn runna með rætur niður til kölska. Dedúast við að grafa upp steinsteypuklumpa frá löngu liðinni tíð. Látum togstreitu vors og sumars ekkert á okkur fá og dundum okkur daglega við að vökva nýju rósirnar, nýju brómberjarunnana, nýja matjurtagarðinn og allt hitt gamla klabbið. Hlustum ekki á það þegar talað er um að það hausti snemma. Skítt með það þó rósirnar láti ekki sjái sig fyrr en næsta sumar og að brómber kosti hvítuna úr augunum og tvo handleggi til og að matjurtagarðurinn liggi á steyptum klumpum. Hvernig svo sem fer þá eru hlutir í lífinu sem vert er að treysta á



eins og kartöfluuppskeruna. Og jájá, kallinn líka, mikil ósköp.

Mamma kom færandi hendi



Sveskjurograbbarbari, gráfíkjurepliograbbarbari, döðlurograbbarbari, apríkósurograbbarbari, rabbarbarasulta, sultaðurlaukur, súrsaðgrænmeti.

Rabbarbarbía.

Ekki sætavísa heldur sæta mín

segir sá myndarlegi stundum við mig.
Þá brosi ég blítt og hugsa um það hversu heppin ég er að vera ekki sætavísa í leikhúsi í Glasgow, heldur sæta hans myndarlega sem elskar mig næstum jafn heitt og ég elska hann.

miðvikudagur, 30. maí 2012

Sunnudaginn fyrir hvítasunnu

hjálpaði ég systur minni að flytja. Bar marga kassa og troðfylltar töskur. Ferð eftir ferð eftir ferð eftir ferð. Ofan af 4. hæð niður á plan. Tómhent ofan af plani upp á 4. hæð aftur. Engin lyfta. Ég kjagaði í heila viku á eftir vegna verkja í kálfum. En, ég fékk laun og þau ekki lítil. Bogga systir gaf mér gamla vasann hennar ömmu Boggu



Síðasta sunnudag, sem reyndist vera mánudagur, sló ég Túnblettinn í fyrsta sinn. Fyrsti sláttur sumars var ekki létt verk. Merkilegt hvað einn blettur getur gengið í bylgjum og dældum þegar rennt er yfir hann sláttuvél. Verkjar í lófana og fékk engin laun*. Ætlaði að ræða það við þann myndarlega hvort það væri ekki orðið tímabært að helluleggja bévítans garðinn, en fékk það ekki af mér þar sem hann stóð og starði brostnum augum á kuldabarða rifsberjahengluna. Ojæja.

*Allar athugasemdir um laun erfiðisins eru vinsamlega afþakkaðar.

þriðjudagur, 15. maí 2012

Áður en ég hóf lestur

á þeirri frönsku gleypti ég þessa í mig



Þegar ég segi gleypti þá meina ég gleypti. Ef ég hefði ekki neyðst til að mæta í vinnuna hefði ég lesið hana í einum rykk. Spyrjið þann myndarlega ef þið trúið mér ekki.

Nú er stóra spurningin hvort ég eigi að nenna að sjá myndina, vitandi það að myndirnar ná aldrei að verða jafn góðar og bækurnar, því ekki bara finnst mér bókin góð heldur stórgóð. Eru e-r lesendur hér sem hafa lesið bókina og séð myndina? Er myndin góð eða stórgóð?

Þýðir ekkert að spyrja þann myndarlega um það.

mánudagur, 14. maí 2012

Einhenti mér í

brauðbakstur og súpugerð eftir vinnu meðan norðangarrinn blés og stundi. Sá myndarlegi stundi með alvörugefnum svip yfir meðferð garrans á garðinum. Þegar dramatíkin stóð sem hæst og sá myndarlegi lýsti því yfir að allar plönturnar, grasið, tréin og snúrustaurinn væru dauð, fannst mér tilvalið að grafa upp þá hugmynd mína að helluleggja bara bévítans garðinn. Sá myndarlegi grét þurrum tárum yfir rifsberjarunnunum. Útlýsti með rámri röddu að sultukrukkurnar yrðu líklegast tómar í ár. Ég tuldraði því bara ofan í súpuna þetta með tennisvöllinn og barði hugmyndina um sundlaugina ofan í deigið.

Ojæja, ég er allavega fegin að ég fór í lopapeysu í vinnuna í morgun.

sunnudagur, 13. maí 2012

Hvað er líkt með karlmönnum og svínum?

"Bæði lykta og éta allt sem að kjafti kemur" heyrði ég barnsrödd segja í hverfisbúðinni í dag. Sneri mér við og sá stúlku á að giska 9 ára þylja þessa speki fyrir yngri bróðir af gjafakorti sem væntanlega eru til sölu í versluninni.

Fyrr um daginn las ég þessa færslu sem gladdi mitt litla hjarta. Mig skortir nefnilega þennan húmor fyrir mismun kynjanna. Eða nei, ég er gersneydd þessum húmor fyrir mismun kynjanna, skortir hann ekki rassgat og langar ekki vitund í hann.

Þannig er það.

laugardagur, 12. maí 2012

Hnýtti á mig gönguskónna

og brunaði upp í hlíðar Breiðholts. Lagði bílnum á planinu við æskuheimili mitt, labbaði yfir götuna og var komin í Elliðaárdalinn.
Arkaði niður löngu brekkuna sem ég var vön að renna niður á hjólaskautunum frá ömmu.Þræddi krákustígana milli trjánna niður að stíflu. Ætlaði að labba framhjá húsinu þar sem eini strákurinn sem ég hef trúlofast bjó í, en húsið var horfið. Hlustaði á regnið og fuglana tísta á leið minni aftur upp í hverfið.
Labbaði framhjá kirkjunni sem ég fermdist í, blokkinni sem ég bjó í til 6 ára aldurs, búðinni sem ég fór svo oft með ömmu í, engin búð þar lengur. Labbaði framhjá blokkinni sem amma bjó í, framhjá sjoppunni sem núna er take-away staður, fór inn í gamla bakaríið og komst að því að þar er enn hægt að fá skeljar.
Labbaði framhjá blokkinni þar sem ég bjó ein í fyrsta skipti, Ritu sem er enn á sínum stað, að gamla skólanum mínum.
Þræddi gömlu skólaleiðina mína aftur heim, framhjá Leiknisvellinum, sundlauginni, FB, hinni sjoppunni sem enn er sjoppa, bílskúrnum sem Sálin Hans Jóns Míns æfði í til margra ára, grindverkinu sem ég sat á þegar ég kyssti strák í allra fyrsta sinn, skammtímavistuninni sem ég vann í.
Staldraði við hjá húsinu sem ég bjó í í næstum tuttugu ár. Hverfið mitt. Samt ekki.

Eina hugsunin sem ég raunverluega náði utan um var þessi myndarlegi maður sem ég sakna og hlakka til að fá heim á morgun.

Fór í freyðibað í gærkvöld



Ekkert merkilegt í sjálfu sér, nema ég fór að hugsa um hvað ég ætti nú að hafast við, verandi næstum ein heima með heila helgi framundan. Var hreint ekki viss um hvað mig langaði til að gera. Datt svo sem ýmislegt í hug en e-a hluta vegna virkuðu hugmyndirnar ekki jafn spennandi þegar enginn var myndarlegi maðurinn til að deila þeim með.

Í Skaftahlíðinni nostraði ég við matargerð handa mér einni og fannst unaðslegt að japla á góðum mat í takt við góða tónlist sem ómaði fyrir mín eyru ein. í gærkvöld nostraði ég við maríneraðan lax og hlustaði á góða tónlist, naut þess að borða og dilla mér með músíkinni. Það var bara ekki eins. Fór að hugsa um hvað hefði orðið um mig sem vildi vera ein, elskaði að ráðstafa mínum eigin tíma, fílaði í botn allt rýmið sem fór undir mig og kringum mig og bara mig.

Er búin að drekka morgunkaffið ein, borða morgunmatinn í rúminu, lesa blogg og glugga í Frönsku Svítuna með köttinn malandi til fóta. Veit ekki enn hvað mig langar að gera í dag enda enn á náttkjólnum. Hef það í rauninni súpufínt en sakna samt þess myndarlega.

Það er líka margt vitlausara en að sakna, t.d. að hengja út þvottinn í rigningu eins og nágranninn er búinn að gera. Ætli hann þorni ekki samt á endanum, svona e-n þegar styttir upp. Heldur ekki svo slæmt að sakna þegar maður elskar.

sunnudagur, 6. maí 2012

Í gærkveldi

umlaði veisluþreytti maðurinn minn að við ættum kannski að þvo rúmfötin og hengja þau til þerris í brakandi blíðunni. Við áttum þó ekki von á þessu í morgunsárinu



Verður spennandi að sjá hverjum hefur dottið í hug að hengja þvottinn sinn til þerris í trjánum okkar, steinsnar frá snúrunum.

Nema þetta séu nýútsprungin blóm?

þriðjudagur, 1. maí 2012

Síðan tilfinningin kom yfir mig hef ég

  • farið í rómantíska ferð með ástinni minni og keypt mér rauða húfu
  • farið í göngutúr með hund og heilsað upp á geitina Elvis
  • kíkt á gluggana í rjómabúi og labbað að vita
  • heimsótt kæra bloggvinkonu og Húsið á Eyrarbakka
  • farið fleiri ferðir í Húsasmiðjuna en ég kæri mig um að muna
  • fylgst með þeim myndarlega mála stofurnar og íhugað að bjóða fram krafta mína
  • horft á systurdóttur mína dansa í Borgarleikhúsinu
  • farið í appelsínugulu hælaskóna mína af því dagatalið sagði að sumarið væri komið
  • vafið treflinum þéttar um hálsinn á mér því það er ennþá bara vor
  • mótmælt mannréttindabrotum í Kína
  • séð þunglynda dramatík og stúlku gráta í leikhúsinu eftir stórleik allra leikarana
  • lesið bækur jafn mikið og ég hef verið löt (eða öfugt)
  • farið á Laxness tónleika og sænskan Laxnes í bíó
  • keypt nýju ljóðabókina hans Braga
  • bakað sömu súkkulaðikökuna tvisvar
  • farið aftur í leikhús og botnað hvorki upp né niður í verkinu
  • leyft tilfinningum að leiða mig

Í dag fórum við eina ferðina enn í Húsasmiðjuna, helltum upp á ósköpin öll af kaffi fyrir gesti og gest og fylgdumst með veröndinni hverfa.

Ef vinnuvikurnar hefðu ekki verið svona stuttar undanfarið veit ég hreint ekki hvort ég hefði haft tíma til að vinna.


þriðjudagur, 10. apríl 2012

Sá myndarlegi mundi eftir að stilla vekjaraklukkuna í gær

Samviskusamur þessi elska. Neyddist því til að mæta í vinnuna.
Nei annars, ég er að ljúga, var vöknuð löngu á undan vekjaraklukkunni. Nennti reyndar ekki á fætur en það var ekki vinnunar vegna því þar leiðist mér aldrei.

Páskafríið var líka gott. Fórum á Snæfellsnesið og skoðuðum okkur um í þokunni, þáðum kapalkennslu og matarkrásir í bland við góðan félagsskap í Ólafsvík. Steiktum læri í 18 klstundir og fengum góða gesti í hádegismat á páskadag. Kláruðum að ganga frá í eldhússkápana og töluðum út í geim um framkvæmdir. Lágum eins og klessur á sófanum og lásum eins og við fengjum fimm þúsund kall borgaðan fyrir hverja lesna síðu. Röltum um borgina og héldumst í hendur. Borðuðum páskaegg og mændum ástföngnum augum á hvort annað.

Í dag skein sólin og í kvöld byrjuðum við að tilfæra dót. Mænum enn ástföngnum augum á hvort annað og höldum áfram að tala út í geim um framkvæmdir.

Páskafríið er búið


mánudagur, 9. apríl 2012

Margir þvælast í bandi

Ef ég ætti mann sem gæfi mér Mergur Málsins eftir áratugahjónaband, myndi ég íhuga alvarlega hvort mergur hjónabandsins væri á traustum grunni. Ef maðurinn eftir annan áratug tæki upp á sitt einsdæmi að festa kaup á lazyboystól fyrir einn, myndi ég fara fram á skilnað.