sunnudagur, 27. ágúst 2017

Óróleiki grasekkju

Vaknaði rétt fyrir ellefu í morgun og spratt fram úr rúminu. Sólin skein inn um gluggann á efri hæðinni en þegar ég kíkti út um gluggan á neðri hæðinni sá ég þykka, fíngerða rigninguna. Brosti með sjálfri mér er ég dembdi baunum í kaffikvörnina, eins og ég geti ekki hellt uppá hugsaði ég meðan ég malaði dýrindis kaffið. Var ekki alveg jafn sjálfsörugg þegar ég mældi vatnið og fylltist óöryggi er ég fylgdist með kaffinu hrynja niður í könnuna. Hvað haldið þið svo? Jú, kaffið var lapþunnt. Kaffioflæti þess myndarlega í gegnum árin er búið að gjörspilla mér. Hvað veldur því svo að ég er að rembast við að hella uppá á sunnudagsmorgni en ekki hann gætuð þið spurt. Jú, ég nefninlega vaknað í nótt til að keyra karlinn á Keflavíkurflugvöll, hann er því fjarri öllu kaffigamni. Með Finnbogaráð í handraðanum hellti ég kaffinu aftur í gegn og drakk svo rótsterkt kaffi úr bolla sem við myndarlegi keyptum í antíkverslun í smábæ í Englandi.

Eftir 7 ára sambúð með þeim myndarlega fyllist ég enn eirðarleysi þegar hann er erlendis og ég er ein heima. Já, ég sakna hans þegar við erum ekki saman og já, líklega hefur mér aldrei fundist þetta heima vera mitt heima. Hvað sem því líður eru nokkrir hlutir sem ég gæti gert til að slá á eirðarleysið


  1. Drukkið kampavínsflösku á hverjum degi
  2. Blastað Prodigy á hæsta styrk
  3. Skúrað gólfin en líklegast mun ég ekki nenna því
  4. Horft á allar Dynasti seríurnar sem sá myndarlegi gaf mér í jólagjöf og drukkið kampavín með
  5. Sópað moldina úr stiganum fyrir utan og tæmt pottana af dauðum blómum
  6. Sleppt því með öllu að kveikja á sjónvarpinu
  7. Drukkið kampavínsflösku á hverjum degi
  8. Spilað ABBAplöturnar hennar mömmu og sungið eins og síkátur skúnkur með
  9. Endurraðað öllu innandyra
  10. Falið allar nærbuxurnar hans
Smávinir fagrir, treysti á ykkur að koma með fleiri góðar uppástungur fyrir grasekkjuna (aðrar en að reykja gras) í fjarveru þess myndarlega. Koma svo!

2 ummæli:

Eva sagði...

Hvað með að drekka kampavínsflösku? :)

Frú Sigurbjörg sagði...

Príma hugmynd Eva! Og takk fyrir innlitið :-)