þriðjudagur, 31. desember 2013

Gamlársglenna

Eftir þéttskipaða þriggja tíma vinnutörn á síðasta morgni ársins dreif ég mig í náttkjólinn er heim kom og rak karlinn í búð, sæta karlinn minn sem kom klyfjaður heim af snakki og rósum. Sæti dásamlegi karlinn minn sem nú dundar sér við uppvask og annað snurfus meðan ég lufsast enn á náttkjólnum. Ekki búin að velja kjól fyrir áramótaveislu kvöldsins. Húðlitaðar sokkabuxur verða væntanlega ekki fyrir valinu þetta árið


en ég gæti sett rós í hárið

fimmtudagur, 5. desember 2013

Kalt úti, hlýtt inni

Kom heim með rautt nef og hvíta putta. Með hakk og lauk í töskunni. Í skítakulda er enn frekari ástæða til að liggja utan í myndarlegum manni og þiggja yl ástarinnar. Myndarlegum manni sem gerir hakkabuff að dásemdarmáltíð. Sjónvarpsgláp og sófakúr í yl kertaljósa. Kalt úti, hlýtt inni.

Á morgunn á áfram að vera kalt. Við ætlum að ylja okkur við félagsskap fjölskyldu og vina, njóta veitinga og tónlistar. Fýra upp í hlýjunni í hjartanu. Halda sálinni heitri og kuldanum fyrir utan. Kalt úti, hlýtt inni.

laugardagur, 2. nóvember 2013

Ráðlagt um nekt

Í sundi fyrr í dag bað stúlka mig um að leiðbeina sér í klefanum. Hún talaði ensku með frönskum hreim og var á að giska áratug yngri en ég. Hún sagðist aldrei hafa farið í svona sund áður. Eftir að hafa sýnt henni skápana, hvernig hún ætti að læsa og opna, bent henni í átt að sturtunum og sagt henni hvar hún ætti að geyma handklæðið spurði hún mig hvort það væri rétt að hún ætti að fara úr öllum fötunum og þvo sér í sturtunni. Þegar ég jánkað því var næsta spurning; hvar á ég að fara úr öllum fötunum. Hér sagði ég og svo setur þú öll fötin í skápinn. Þessu næst byrjaði ég að týna af mér spjarirnar og stúlkan gerði slíkt hið sama. Þegar nærbuxur og bolur voru eftir spyr stúlkan mig hvort ég sé alveg viss um að hún eigi að fara úr öllu þarna, hvort hún eigi ekki að fara úr restinni nær sturtunum. Ég fullvissaði hana um að hún skyldi úr hverri spjör og í sturtunum væru ekkert nema berar konur í öllum stærðum og gerðum. Úr fór hún og trítlaði svo á eftir mér í átt að sturtunum, gjóandi feimnum augum að nektinni sem okkur mætti. Í sturtunni vorum við svo umkringdar hóp af konum sem töluðu þýsku og ekki á þeim að sjá að þeim þætti vitund óþægilegt að standa berar í sturtunni innan um kynsystur sínar, þ.e.a.s. fyrir utan eina sem kaus að baða sig í lokuðum sturtubás.

Í sumar sem leið fór ég í sund á Vík. Í sundlauginni á Vík eru ekki margar sturtur og aðeins 1 klósett. Þegar ég fór upp úr voru sturturnar uppteknar af íslenskum konum sem að sjálfsögðu böðuðu sig kviknaktar enda ekki vanar öðru. Á meðan biðu 15 breskar unglingsstúlkur sem áttu eftir að baða sig í sundfötunum og skiptast á að fara ein í einu inn á þetta eina klósett til að klæða sig úr til að þurrka sér til að geta klætt sig. Ég man ég hugsaði að ef til vill sæu þessar unglingsstúlkur aldrei allar breiddir, stærðir og gerðir kvennlíkamans, hversu sorglegt það væri ef eina nektin, fyrir utan þeirra eigin, væri nektin sem prýðir klámsíður eða stórstjörnur með sýndarþörf, einsleit nekt þar sem öll brjóst eru stinn, allar geirvörtur litlar, allir magar mjóir og allir rassar þrýstnir. Hvað gerist þegar unglingsstúlka uppgvötar að hennar vöxtur er ekki eins og sá einsleiti vöxtur? Unglingsstúlka sem er feimin við eigin vöxt, hvernig líður henni sem fullvaxta konu?

Einsleitur og oft á tíðum photosjoppaður, og þar af leiðandi óraunverulegur, vöxtur byggir varla upp sjáfsöryggi hjá neinum. Að umgangast eðlilega nekt og fá þá vissu að við erum ekki meitlaðar í einn og sama steininn, þurfum ekki og eigum ekki að vera það, hlýtur að gera þig meðvitaðari um að þinn líkami er þinn og þinn til að vera stolt af. 

laugardagur, 19. október 2013

þriðjudagur, 15. október 2013

Hverjum síminn glymur

Ef síminn hringir í tíma í skólanum sem ég er í þarf símaeigandinn að koma með tertu í næsta tíma á eftir. Í síðasta tíma þegar gemsinn fór að gelta hjá nöfnu minni sem situr fyrir aftan mig hljóp kátínan hratt og dillandi um skólastofuna. Alla hlakkar til næsta tíma, kennarann líka. Svona er hægt að búa til góðar reglur.

Talandi um kennarann þá kætir hann mig í hvert skipti sem hann segir fjegur.

miðvikudagur, 2. október 2013

Brosandi

Um helgina er ég tölti löturhægt heim, ánægð eftir sundsprett og full af kyrrð eftir heita pottveru, stoppaði ég á brúnni og tók mynd af himninum sem skartaði fegurð að vanda. Myndin rataði beina leið á Instagram þar sem ég sá svo mynd af litla bróður mínum á hótelherbergi í London, í slopp uppí rúmi, afslappaður og sæll að sötra kampavín með manninum sínum. Munnvikin á mér kipptust upp og ég stóð á göngubrú heima á Íslandi skælbrosandi yfir því hvað bróðir minn var sæll í London. Svona getur nú netið fært mann nær fólki. 

Kringlan er staður sem yfirleitt geymir slatta af fólki. Samt forðast ég hana í lengstu lög og geri mér helst ekki ferð nema eiga ákveðið erindi. Ákveðið erindi átti ég um helgina sem leið svo ég arkaði af stað beint í geislandi bros frænku minnar sem tók á móti mér í innganginum. Aftur kipptust munnvikin á mér upp og ég stóð brosandi út að eyrum í húsi sem ég vil helst ekki vera í. Það er nefnilega fólk sem vekur upp væntumþykjuna í mér.

sunnudagur, 22. september 2013

Hnúður með kind og kartöflupoka

 Kippti þessum hnúð upp úr garðinum í gær


og skar niður ásamt kartöflum, gulrótum, sætum kartöflum og lauk. Ýrði ólífuolíu og sáldraði salti og pipar yfir og skellti inni í ofn þar til það var farið að líta svona út


Borið fram með kindafille brúnað á báðum hliðum og skellt í ofn í 10 mínútur. Skolað niður með dágóðu rauðvíni í kartöflupoka frá Síle


Notið í félagsskap myndarlegs manns sem gerir allar máltíðir betri en aðrar.

mánudagur, 9. september 2013

Sultuslök og sykursæt

Rumskaði í gærmorgun þegar myndarlegi maðurinn minn læddist fram úr rúminu. Opnaði augun við malið í kaffikvörninni. Stökk á fætur þegar síðustu droparnir hrundu niður í könnuna. Mætti þeim myndarlega í stiganum með rjúkandi kaffibolla. Auðsótt að fá aðstoð við súkkulaðikarlagerð


Auðsótt fyrir þann myndarlega að fá aðstoð Daneyjar þrátt fyrir að vera orðin menntaskóladama og síupptekin


Þrátt fyrir annríki við að tína ber, vigta ber, þvo krukkur, sjóða ber, demba sykri í pott, sigta berjasoð, kremja hrat, hella í krukkur og loka krukkum var líka tími til að njóta karlsins sem orðinn var að köku


enda þaulvanir og því sultuslakir sultugerðarmenn á ferð


þriðjudagur, 3. september 2013

Tveggja mánaða helgi

Sofnaði á íslenskum tíma, vaknaði á Vilníus tíma. Hellti upp á kaffi, drakk kaffi. Heitur pottur og herðanudd. Fótsnyrting og rautt naglalakk. Lestur, Þjófur og hundar. Marilyn, ást og snakk. Nýbakað bananabrauð og bráðið smjör. Miðdegisverður á Borginni og brosandi foreldrar. Spenna og kvíði í bland við gleði. Rósir og rómantík


Helgi sem hófst í ágúst en lýkur í september.

fimmtudagur, 18. júlí 2013

Strandir horna á milli

 Klifum skörð og fjöll. Inn víkur og firði. Örkuðum snjó og grjót. Óðum ár og ós. Tipluðum fjörur og mosa. Heilsuðum selum og fuglum. Glöddumst barnslega af refum og hnýsum.

Eftir 7 dásamlega daga á Hornströndum skipti ég gönguskónum út fyrir rauða hæla og þáði miðdegisverð hjá franska sendiherranum. Skáluðum fyrir Bastilludeginum, afmælisbarni og ástinni


Í vinnunni blasir þetta við mér á hverjum degi


Nokkuð til í því.

laugardagur, 6. júlí 2013

Kynlegir kvistir

Á 53 ára afmælisdeginum sínum reið sá myndarlegi feitum drumbi


skreið inn í tré


og vingaðist við kynjaverur Skosku hálandanna


Hann kom mér því gjörsamlega í opna skjöldu með því að setja ekki nokkurn hlut á höfuðið á sér, nema jú hattinn sem sjaldan er langt undan á göngu. Uppátektarsamur með eindæmum þessi elska. 

Þessi fallegi maður. Maðurinn minn. 

sunnudagur, 26. maí 2013

Ekki svo fýld egg

Sporðrenndum fýlseggjum með morgunmatnum, já, hér skiptir ý sköpum


Bikarana keyptum við í Ástralíu þar sem úir og grúir af búsáhaldabúðum með mörgum skemmtilegum og misþarflegum eldhúsáhöldum.

Eggin voru prýðileg og ágætt alveg að hafa fýlsegg á afrekaskránni, en svartfuglseggin hlakka ég til að snæða


Skálin kemur frá ömmu Hallveigu, merkt hinum íslenska Funa. Mér þykir hún, rétt eins og svartfuglseggin, hreint dásamleg.

mánudagur, 20. maí 2013

Lyftist þá á mér brúnin

Ég er lofthrædd. Myndi því seint láta bjóða mér miðdegisverðinn sem hér gefur að líta, þótt hann sé á Manhattan


Læt mér nægja að lifa á brúninni með því að fara á náttkjólnum út í bakarí í morgun. Tróð honum ofan í gallabuxur og henti lopapeysu yfir mig.

Fór að vísu langt niður stálstiga ofan í helli. Hring eftir hring eftir hring í hringstiga. Óttinn sparkaði sting í kviðinn örskotstund en gekk annars bærilega að hugsa um einhvað annað. Passaði mig á að horfa ekki niður


Prýðis helgi að baki. Fríið samt ekki búið. Þess vegna ætla ég í heitt bað með Campari Crush á baðbrúninni


Nýt þess að lifa á minni brún á Samhattan.

fimmtudagur, 9. maí 2013

Tíminn líður, trúðu mér

Á síðasta degi aprílmánaðar fórum við skötuhjúin og hlýddum á Fóstbræður þenja raddböndin. Mér til sérstakrar ánægju fluttu þeir þetta gamla þjóðkvæði;


"Tíminn líður trúðu mér
taktu maður vara á þér
heimurinn er sem hála gler
hugsað´um hvað á eftir fer"

Síðustu tvær vísurnar þekki ég vel. Man eftir sjáfri mér í fanginu á ömmu sem strauk mér um eyrun, ruggaði mér og söng;

"Það á að strýkja strákaling,
stinga honum oní kolabing,
loka hann út í landsynning
og láta hann hlaupa allt um kring.

Það á að strýkja stelpuna,
stinga henni oní mykjuna,
loka hana úti og lemja hana
og láta hann Bola kremja hana."

sunnudagur, 21. apríl 2013

Kampavín & rjómi

Tók á móti þeim myndarlega meða hreindýrafille og kirsuberjasúkkulaðisósu


Í morgunn vaknaði sá myndarlegi organdi á kampavín með kaffinu, gjörspilltur af eftirlæti


Að sjálfsögðu lét ég það eftir honum ásamt appelsínusúkkulaðiköku með berjum og rjóma


Eins og þetta væri ekki nóg teymdi ég hann líka á Borgina í dásamlegan hádegisverðarfjarka 


Að skála í kampavíni að morgni af því bara er næstum því jafn skemmtilegt og að vera ástfanginn


en bara næstum því.

föstudagur, 19. apríl 2013

Gestagangur & fjarvera

Í gær buðum við foreldrum Péturs í mat. Sátum sex að miðjum snæðingi er dyrabjallan hringdi. Þar voru mætt Magga systir og Hörður mágur sem voru drifin inn í stofu meðan ég hellti upp á kaffi og konfekti frá jólum í skál. Var passlega búin að hella upp á aðra könnu þegar dyrabjallan hringdi aftur. Foreldrar mínir voru mætt á svæðið og drifin til stofu í kaffi og konfekt. Eftir tæplega þá könnu afréð ég að hella upp á meira kaffi. Viti menn, bjallan hringdi í þriðja sinn það kvöldið. Brósi og Sævar mágur voru mættir og drifnir inn í stofu, enn til konfekt og nýuppáhellt kaffi. Hér var því handagangur, eða ætti ég að segja gestagangur, í öskjunni af óboðnum en afar velkomnum gestum. Ég áræddi þó ekki að hella uppá fjórðu könnuna, óvíst hvað það hefði leitt af sér.

Í kvöld er ég ein heima. Gal-ein. Sá myndarlegi er farinn í árlega strákaferð. Satt best að segja hlakkaði ég til þessarar helgar. Ég hlakkaði til að svala þeirri þörf að vera ein, þörf sem af og til skýtur upp kollinum. Þörfin til að elda fyrir mig eina, gleyma mér í plötunum mínum, dansa ein um allt hús og hlusta á ekkert nema umganginn í mér einni. Sem fyrr mætir sú þörf þeirri þversögn að sakna þess myndarlega. Yfir mig dembist eirðarleysi, eirðarleysi þess sem saknar. Skrýtin þessi blanda af því að vilja vera ein en geta samt ekki hugsað sér heila kvöldstund án annars manns. Helgarferð þess myndarlega styttist um heilan dag, hann kemur heim á morgun í stað sunnudags. Sem betur fer, ég get ekki beðið eftir þessum augum og þessu brosi


miðvikudagur, 17. apríl 2013

Talandi um rósir

þá kem ég eins og útsprungin rós undan helgi


þrátt fyrir skítakulda í bústað var ég heit að innan af eldamennsku, lestri, pottferðum og bréfaskriftum. Hlýnaði inn að beini við að fylgjast með einbeitta manninum mínum og þiggja tánudd í lærdómspásunum hans


Þegar við keyptum rósirnar í sumar sem leið var okkur sagt að líklega myndu þær ekki blómstra fyrr en sumarið á eftir. Við nostruðum engu að síður við þær blessaðar og dedúuðumst í garðinum sem aldrei fyrr


Rósirnar létu eins og þær hefðu ekki gert annað en að standa í garðinum okkar og glöddu augu og hjörtu, prýddu beð og vasa, garði og heimili til sóma


Agnúast ekki út í snjóinn en hlakka til sumars. Hlakka til að draga vatnsslönguna um garðinn, teyga sólina af veröndinni og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða, því


föstudagur, 12. apríl 2013

Rósir og curry paste

Sá myndarlegi fylgist grannt með hitamælinum þessa dagana. Hann las um umhirðu rósa á netinu í vikunni og dreif okkur í kjölfarið út í garð að fylgja þeim eftir. Þessum böggli fylgdi þó það skammrifi að engin megi hættan vera á næturfrosti. Nú bítur sá myndarlegi sig í herðablöðin og bolsótast út í að nú hljóti bara að koma næturfrost fyrst hann æddi af stað. Maðurinn minn á það nefnilega til að vera fljótfær. Þegar hann er búinn að setja undir sig hausinn og brunar í verkið er oft ekki tauti við hann komið, eins og um daginn þegar hann sturtaði óhemju magni af curry paste út í matinn, þá þýddi ekkert fyrir mig að benda honum á að þetta væri paste en ekki sósa, hann var búinn að lesa á krukkuna og var kominn í verkið. Eldhúsverkið.

Ég stóðst ekki mátið að segja Melunum sem ég vinn með frá 2 krukku paste atviki þess myndarlega og skríkti af kátínu þegar hlægjandi bræðurnir báðu mig um að afhenda honum gjöf



Næst þegar sá myndarlegi ætlar að tvöfalda uppskrift og setja 2 krukkur af curry paste í matinn í stað hálfrar krukku ætla ég að benda honum pent á að setja upp réttu gleraugun


föstudagur, 8. mars 2013

Vetrarnasl

Arkaði slabb og  snjó í gær. Hitnaði á göngunni í rigningunni. Kom heim með andlitið vindbarið og hárið blautt. Þurr í fæturna.

Sá myndarlegi hristi fram heitan rétt sem fékk roða fram í kinnar 

Sjá uppskrift hér.

Sá myndarlegi vildi setja eina tsk af chilli í stað 4, ég fékk mínu fram með 2. Ein hefði verið fullnóg en fyrir vikið varð heiti chilirétturinn að heitum chilirétti.

Eftir ark alla aðra daga vikunar kom ég bílandi heim í kvöld með lambafillé í töskunni sem sá myndarlegi saltaði og pipraði. Slatti af grófu salti sett á fituröndina og sú hlið steikt á pönnu í 3-4 mín og rétt örlítið steikt á hinni hliðinni áður en kjötið var sett inn í ofn í 5-10 mín


Með þessari dásemd bar sá myndarlegi fram bragðmikið kartöflugratín sem toppaði máltíðina. Ogjújú, salvíusveppasósunni sem sá myndarlegi hefur í ófá skiptin gert og fæst ekki linkur á hér því sú uppskrift skröltir í haus þess myndarlega.

Þannig er nú það.

mánudagur, 4. mars 2013

Já, blástu bara

Meira sem það var hressandi að arka heim úr vinnunni. Að koma heim með eldrautt andlit og kuldabarða leggi. Heppin að hafa lappir sem bera mig og seiglu til að berjast við veðrið. Frekar myndi ég 57 sinnum í röð vilja arka garrann mér til hreyfingar heldur en hamast inni í líkamsræktarstöð. Þakklát mömmu sem endalaust nennir að prjóna handa mér fallegar lopapeysur.

Sit og hlusta á gnauðið. Inni í hlýleika kerta og myndarlegs manns. Skítt með það þó enn sé kuldahrollur í tám og fingrum. Lífið er fjári gott þótt hann blási


laugardagur, 2. mars 2013

Góð grjón

Ég þekki menn sem finnast hrísgrjón ekki vera matur. Þegar ég segi menn þá meina ég karlmenn, ég þekki enga konu sem fussar og sveiar við hrísgrjónum. Sjálf get ég vel hugsað mér hrísgrjón sem máltíð ein og sér. Oft langar mig þó að gera einhvað meira með grjón, poppa þau upp eins og sagt er


Í vikunni dró ég fram uppskrift sem ég prentaði af femin.is fyrir líklega um áratug síðan, uppskrift að kanilkrydduðum túnfiski sem ég skellti í lög og lét liggja yfir nótt. Fyrir meðlætið skar ég 35 gr af þurrkuðum apríkósum smátt og setti í skál ásamt 40 gr af rúsínum. Hellti sjóðandi vatni yfir og lét standa í 15 mín. Því næst hellt í sigti og geymt


25 gr af smjöri brætt í potti og 150 gr af hrísgrjónum (ósoðnum) blandað vel saman við. 3,5 dl af grænmetissoði bætt út í smám saman (rísottólegt já) og hrært vel í á meðan. Grjónin síðan soðin í korter. Furuhnetur og sólblómafræ (40 gr) ristuð á þurri pönnu


Ávöxtunum, niðurskornum blaðlauk og ristuðu fræunum blandað saman við grjónin sem borin eru fram heit


Hrísgrjónin átum við upp til agna. Hins vegar var ég ekki alveg nógu hrifin af túnfisknum. Hráefnin í kryddlögin voru öll góð og túnfiskurinn var ekki þurr, lítið steiktur á grillpönnu og rauður í miðju eins og talað er um að steiktur túnfiskur eigi að vera. Er helst á því að ég einfaldlega fíli ekki túnfisksteik. Hverju svo sem sætir þá gladdist kötturinn við leifarnar af mínum disk

sunnudagur, 24. febrúar 2013

Drýpur súkkulaði af hverju strái

Eftir alla dásemdina sem mér var færð í bólið reif ég mig á lappir í aðra dásemd


dásemd sem dró fram eftirvæntingu og gleði hjá þeim myndarlega sem gleður mig og fyllir eftirvæntingu dag hvern


Uppskriftina fékk ég hjá Nönnu sem ég þekki ekki neitt en fylgist þó áköf með hverri dásemdinni af annari sem hún galdrar fram í eldhúsinu sínu í vesturheimi


Tilvalið að vígja kaffibollana sem ástin mín færði mér á afmælisdaginn


fyrir slíkar dásemdarkökur sem súkkulaði drýpur af í himneskri sinfóníu við sjávarsalt


Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég er þegar búin að háma í mig margar


en ég er ekki viss um að ég komist í það að klæða mig í dag.

K-dagur

Trúði því eitt augnablik að sá myndarlegi hefði fært mér blaðlauk í rúmið


Alveg þar til ég reisti mig upp í rúminu og hristi af mér svefnhöfgann. Innan um blaðlaukinn leyndust túlípanar og brosandi trakteringar


Hjá Degi eru allir dagar Dagsdagar