laugardagur, 12. október 2019

Í gallabuxum við nátttreyjuna

og lopapeysu þar yfir renndi ég í bakarí eftir brauði. Þá þegar búin með 2 kaffibolla og nokkra kafla í bók. Með smurt nýbakað bakarísbrauð endasentist ég aftur í bælið og hélt áfram að lesa.

Sólarglenna teygir sig inn um gluggana hér í risinu og af söng fugla að dæma hlýtur eitt allsherjar fuglapartý að standa yfir í trjánum í garðinum. Sólarglennan og fuglasöngurinn æstu mig upp í göngutúrsgír en hálft í hvoru langaði mig líka til að leggja mig. Ákvað að íhuga málin betur yfir einum kaffi enn. Græjaði kaffi í bolla fyrir kallinn og missti svo minn bolla í gólfið. 

Búin að ryksuga alla neðri hæðina og er aftur komin uppí rúm. Enn nokkrir kaflar eftir af bókinni og sólin skín og fuglarnir syngja. Hvort á þá kona að leggja sig eða drífa sig út í göngutúr? Svör óskast. 

4 ummæli:

Sigga Rósa sagði...

Þegar stórt er spurt. 🙄 Ef þetta er ein af þessum bókum sem maður tímir ekki að klára þá er það göngutúr annars kósíheit. 😁

Frú Sigurbjörg sagði...

Eða allt í bland? Annars verð ég að þakka þér sérstaklega fyrir að skilja eftir ummæli hér, ummæli á bloggi eru orðnir slíkir sjaldséðir fuglar, en það er vissulega enginn eins og þú, mín kæra :*

Unknown sagði...

ég er bara agndofa af aðdáun.

Frú Sigurbjörg sagði...

Hví nafnlaus nafnlaus?