Fyrir 5 árum síðan stóð ég fyrir framan hárprúðann og skeggjaðann Norðmann. Hann var í svartri skikkju, ég var í rauðum kjól sem ég hafði keypt í Wales árinu á undan. Við hlið mér stóð maðurinn sem ég kolféll fyrir þá 32 ára gömul. Ég hefði viljað giftast honum af ást, og engu nema ást, en ég giftist honum af nauðsyn. Stakk mér með honum til Osló og stóð sumsé þarna á fertugs afmælisdegi mínum og dró sérsmíðaðan gullhring á hans fingur í votta viðurvist. Vottar sem ég leit fyrst augum fyrir utan dyr sýslumannsins áður en við æddum inn. Engin fjölskylda, engir vinir.
Ekki að ég væri hætt að elska hann eða að ég vildi ekki elska hann, ég var einfaldlega búin að átta mig á því að lífið yrði ekki eins og ég hafði staðfastlega trúað að það myndi verða. Væntingarnar voru miklar og því var fallið hátt. Harkalegt og hátt.
Í dag er ég komin í annað samband. Samband sem gerir mér hátt undir höfði. Samband þar sem nærveru minnar er óskað. Samband sem byggir á því hverjar mínar tilfinningar, langanir og óskir eru. Samband mitt við sjálfa mig. Eins og öll ný sambönd þá litast það af mikilli spennu og eftirvæntingu, tilhlökkun jafnvel, en líka af feimni og óöryggi við því óþekkta.
Leyfi mér að efast um að þetta nýja samband muni enda á sýslumannsskrifstofu í Noregi en sambúðin er hreint prýðileg. Legg ekki meira á ykkur.
2 ummæli:
Það búa ekki allir við þá gæfu að vera sáttir við að vera með sjálfum sér. Til hamingju með það. Svo má hugsanlega sjá til með að bæta fleirum við ef þannig stendur á spori, eða bara sleppa því.
Nákvæmlega mín kæra, ég tel mig lukkulega að njóta einverunnar. Hvað gerist í framtíðinni kemur í ljós í framtíðinni en núna er ég glöð með mig. TAKK fyrir þessu flottu orð!
Skrifa ummæli