Rigning tók á móti okkur í Mosfellsdalnum svo gangan á Grímannsfell hófst í fullum gönguklæðum. Um miðja uppgöngu rifum við okkur þó úr jökkunum enda hlýtt í veðri og rigningin hafði tæplega fylgt okkur út úr bílnum.
Átakalítil fjallganga á bungumyndað, lúið fjall sem opnar skemmtilega sýn á nágrenni helsta þéttbýlis í landinu. Fullkomið hugsuðum við, lúið fjall fyrir lúið fólk. Uppganga enda vel þolanleg og útsýnið lét ekki á sér standa, Mosfellsdalurinn og sveitin, Úlfarsfell og höfuðborgin svo eitthvað sé nefnt.
Grímannsfell nær varla meðalhæð fjalla en er býsna mikið um sig og nokkuð skorið af giljum og drögum. Já já, við leikum okkur að því að hlaupa á þennan topp hugsuðum við en eins og í öllum góðum fjallgöngum er toppurinn sjaldnast toppurinn heldur leynist iðulega toppur á eftir toppnum sem fyrstur lætur sjá sig og jafnvel fleiri þar á eftir.
Grímannsfell er dregið mjúkum línum og telst ekki til eftirtektarverðustu fjalla en það er þó nokkuð hátt miðað við allra næsta umhverfi. Það er nefninlega það já. Á toppinn komin dauðsáum við skötuhjú eftir að hafa ráðist í þessa för nestislaus. Eftir að hafa rýnt í útsýnið, Móskarðahnúkar, Botnssúlur og Hengilinn svo eitthvað sé nefnt, varð þeim myndarlega á að segja að næst lægi leiðin í Mosfellsbakarí. Þar með var heimför hafin af þessu átakalitla, varla meðalháu og eigi eftirtektarverðu felli, já jafnvel tíðindalitlu skv. lýsingum Ara Trausta Guðmundssonar og Péturs Þorleifssonar í hinni annars ágætu skruddu Íslensk fjöll.
Rétt misstum af kaffibollanum og bakkelsinu sem teymdi okkur niður af fellinu, Mosfellsbakarí lokar kl. fjögur á laugardögum. Vissuð þið að það er ísbúð við hliðina á bakaríinu?
Rigning og rok, logn og sól, súrefni í lungun og ís með dýfu. Ef til vill tíðindalítið en harla gott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli