Varð litið út um gluggann og sá kettlingana mína tvo hátt uppi í tréi nágrannans. NEI var það fyrsta sem flaug í hugann, árans vandræði var það næsta. Sá myndarlegi nýfarinn í ræktina og ég fór strax að sjá fyrir mér hvernig ég yrði að hringja á slökkviliðið eftir aðstoð við að ná apaköttunum niður. Í næstu andrá fylgdist ég með þeim hlaupa niður trjábörkin og kútveltast í leik á garðflötinni áður en þau tóku aftur stökkið uppí sama tré, hlupu upp um greinar þess og aftur niður eins og ekkert væri. Apakettir og klifurkettir sumsé. Útikettir að auki síðan í fyrradag.
Vorum búin að ákveða að kettlingarnir yrðu inni þar til búið væri að örmerkja og gelda greyin, rétt leyfðum þeim að valsa inn og út um svefnherbergisgluggann okkar til að komast út á svalirnar í risinu enda handriðið allt of hátt fyrir litla, krúttlega kettlinga. Eftir 2 nátta útiveru Bjössa varð okkur myndarlega ljóst að svalahandriðið dygði líklega ekki til og kettlingar, já,já, þeir koma sér greinilega niður af þökum. Gátum ekki hugsað okkur að meina þeim greyjunum um súrefni í litlu kettlingalungun (svona erum við geld í staðföstunni) svo sá myndarlegi rauk í dýrabúð, keypti rauða ól handa Bjössa og bláa handa Birtu og *púff* út um verandarhurðina ruku þau sumsé í fyrradag og urðu útikettir með það sama.
Talandi um ræktina þá hef ég hóstað og hnerrað og snýtt mér síðan ég fór síðast. Vissulega eru báðir Pétrarnir í lífi mínu búnir að vera með kvefpest en það er alveg ljóst að óhóflegt kapp í konu í líkamsræktarstöð er heilsuspillandi.
Legg ekki meira á ykkur elskurnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli