Þegar ég gekk á Þyril í fyrsta skipti var ég ein á ferð. Í dag var ég aftur ein er ég skondraðist þar upp. Galein. Finninn og fransmaðurinn urðu eftir í bænum. Hugurinn arkaði í takt við hjartað sem marseraði í takt við hugarrónna. Með sólargeisla á nefbroddinum og vind í bakið tóku hugurinn og hjartað tal saman, tilfinningar seytluðu eins og lækur og hugsanir þutu dansandi útí vindinn.
Rétt ókomin á toppinn gekk ég fram á dauðan kálf. Já, kálf með klaufir og hala og etið trýni, svo vel etið að einungis kúpan stóð eftir. Ég stóð og starði í tómar augntóftirnar. Átti satt að segja frekar von á að rekast á annað göngufólk eða gestabók þarna á toppnum en kálfur var það heillin og lítið við því að gera.
Vindurinn sperrti sig á bakaleiðinni, kom beljandi upp Þyrilhlíðar, reyndi sig í fangbrögðum við frúnna og þeyttist með látum í grasinu.
Rakst á þennann herramann á leiðinni niður, hann gaf lítið út á ferðir kálfsins og enn minna um komandi sumar, brosti bara sínu skakka brosi.
Það er eitt að vera með vind í bakið og allt annað að hafa vindinn í fangið. Legg ekki meira á ykkur að sinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli