mánudagur, 15. apríl 2019

Framtakslítil og framlág

Eftir 10 daga af kröftugum hósta, snörpum snýtingum, harðsoðnum höfuðverk, snörlandi andardrætti og þjakandi þreytu er ég komin í kvefverkfall. Búin að jamma þegar ég er spurð hvort ég sé lasin og jæja þegar mér er ráðlagt að fara til læknis, hef hummað það fram af mér að vera veik heima, mæti bara í vinnuna og vinn hægt. Kann ekki að hringja mig inn veika, kannski það sé einhverskonar sjúkdómur?

Nú allavega nenni ég ekki meir. Mætti framhá í vinnuna í morgun og heimtaði höfuðverkjapillu. Reigði mig upp í framtakssemi og arkaði svo heim í þessari líka blíðu. Nú dugar ekkert annað en að mæta í ræktina á morgun, svei mér þá.

Í gær stundi eiginmaðurinn af beinverkjum. Í morgun kvartaði hann sáran yfir þokuhnykli í höfði. Akkúrat núna er hann á læknavaktinni, er víst búinn að hósta svo mikið, þessi elska.

Það verður hver að fá að vera eins og hann er gjörður las ég einhversstaðar á einhverju bloggi einhverntíman. Legg ekki meira á ykkur elskurnar.

Engin ummæli: