miðvikudagur, 28. júní 2017

Hríslaðist um mig...

Vegna fjölda áskoranna (það var ein) rauk ég til og tók myndir af óberminu í gær

Hér sést glöggt hvernig óbermið breiðir úr sér yfir gafl og glugga og teygir anga sína upp á svalir. Vert er að taka fram að myndin er tekin EFTIR að kallpúngurinn, sem þjáist af hnausþykkri þrjósku varðandi þessa hríslu, var búinn að klifra uppí stiga til að snyrta óskapnaðinn. Eða, afsakið, óbermið.

Í gvuðanna bænum látið gvuðsvolað sólarljósið sem skín þarna eins og himneskt ljós ekki blekkja ykkur, helv*"%! hríslan er eins og subbulegt skrímsli þarna á húsinu, ég er að segja ykkur það.



Núnú, þið sem trúið mér ekki, hvernig haldið þið að það sé að opna glugga beint út í þetta?
Já, eins og ég var búin að segja ykkur þá eru þessar myndir teknar eftir að ástkær eiginmaður minn, sá þrjóski þverhaus, snyrti óbermið.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með honum ofan af svölunum og hélt á tímabili að hann myndi hreinlega ekki leggja í hana í ár. Læt þessa mynd hér fylgja með máli mínu til stuðnings

Þverhandarþykk þrjóska þess myndarlega lætur aldeilis ekki að sér hæðast og uppí stiga fór hann, glotti svo bara til frúarinnar, öruggur í faðmi sinnar hríslu 



mánudagur, 26. júní 2017

Af óbermi ómunatíðar

Eftir að hafa lesið pistil frúarinnar í gær fann sá myndarlegi sig knúinn til að minna hana á að hann hefði ekki bara slegið blettinn fyrir gönguna góðu, hann hefði jú líka snyrt klifurjurtina (hér eftir kallað óbermið). Óbermið sumsé hríslast upp gaflinn á Samtúni 8, breiðir úr sér milli glugganna í stofunum, þ.e.a.s. betri stofunnar og hinnar stofunnar (er hægt að vera svo fínt fölende að kalla aðra stofuna verri stofuna?). Á hverju ári talar sá myndarlegi í sig kjarkinn til að taka fram stigann og ráðast á óbermið sem á hverju ári teygir hríslur sínar yfir glugga og upp á svalir. Á hverju ári hóta ég þeim myndarlega að fara út í garð og klippa ræturnar á helv*+<! óberminu sem mér finnst subbulegur þarna á gaflinum, lítur helst út eins og hárlubbinn á Davíð Oddsyni þar sem það flækist út um gafl og trissur, bölvað óbermið. Í ofanálag er ég hætt að opna annann gluggann í betri stofunni, glugga sem snýr svo gott sem út í bév¨#*%? óbermið, því ef ég geri það skríða von bráðar pöddur inn sem mig langar hreint ekki til að fá, við erum jú að tala um betri stofuna.

Ég hef aldrei skilið kindarlega svipinn sem hefur komið á þann myndarlega þegar ég lýsi áliti mínu á óberminu, ekki fyrr en í fyrra þegar hann játaði það loks fyrir mér að hún hefði ekki fylgt húsinu heldur hefði hann og fyrrverandi fengið óbermið að gjöf og gróðursett sjálf á umræddum gafli. Það var nefninlega það. 

Þrátt fyrir að kæra mig ekki hið minnsta um að særa ástkæran eiginmann minn, móðga hans ágætu fyrrverandi og enn síður góðvini þeirra frá Þurá þá hótaði ég því samt að klippa á ræturnar í ár eins og öll hin árin. Óbermið er kannski ekki versta óbermið frá ómunatíð, en djöfull er það ljótt samt. 

Legg ekki meira á ykkur elskurnar. Lfið heil og blómstrið.

sunnudagur, 25. júní 2017

Þotið á Þyril

Drukkum morgunkaffið í brakandi blíðu á svölunum og ákváðum að drífa okkur í göngu. Þ.e.a.s. eftir að sá myndarlegi var búinn að slá garðinn. Ég sauð egg á meðan. Vorum búin að ákveða að ganga á Mosfell en tókum svo stefnuna á Hvalfjörð. Gengum á Þyril í svo mikilli blíðu og kyrrð, fuglasöngur og lækjarniður og já, jafnvel býflugnasuð var sem englasöngur í stórbrotinni náttúrunni, tignarleg fjöll, litfagurt og spegilslétt haf, grænar hlíðar og litrík blóm, var bara hársbreidd frá því að hefja trú á almættið enda blakti ekki hár á höfði frúarinnar.

Vorum að koma heim og sá myndarlegi fór strax og fíraði upp í grillinu og skar niður kartöflur og lauk. Kjötið fór í maríneríngu í gær. Sit á veröndinn í grillreyk, með sólina í andlitinu og rauðvín í glasi. Almættið krakkar, almættið, það er enginn guð en lífið sjálft er ekkert minna en stórkostlegt, ég er að segja ykkur það. Núna ætla ég að borða.

fimmtudagur, 22. júní 2017

Rækjukokteill par excellence

Hef ekki hugmynd um hvenær ég keypti þessa hestaradísu 
 Eins og umbúðirnar bera með sér hefur eitthvað og dulítið gengið á en hvað það var veit ég ekki heldur. Á skældum pakka sem þessum er enginn heilbrigður gjörningur að lesa á best fyrir dagsetningu sem er gott, best fyrir er bara blöff til að fá neytandann til að kaupa oftar og meira en hann þarf. Vodkinn sem ég blandaði hestaradísunni saman við var skilinn eftir í ísskápnum okkar af tveimur geðþekkum frökkum í ágúst 2015. Síðan þá hefur vodkaflaskan vermt stað í frystikistunni niðrí kjallara, einstaka sinnum dreginn aftur upp á efri hæðina til að hristast saman við kokteil(a). Í kvöld sumsé var flöskunni dröslað upp til að blandast saman við útþvælda hestaradísu, tómatsósu, tabaskósósu, Vúrstersjérsósu, salt, pipar og majónes. Rækjum skellt saman við og geymt í kæli þar til sá myndarlegi kom heim úr ræktinni. Þá fleygði frúin brauði inní ofn, skar sundur lárperur, henti blindfullri rækjunni yfir og smurði þykku smjörlagi á heitt brauðið. Ef einhvað er að marka John Torode (sem ég hef ekki hugmynd um hver er) þá var frúin að bjóða þeim myndarlega uppá retró lárperu með rækjum í Blóðugri Maríu majónesi
 Sel það ekki dýrara en ég keypti það en við myndarlegi erum sammála um að þessi rækjukokteill var með þeim betri og já, það álit er með tilliti til sterkrar rækjukokteilhefðar hér á heydögum landans. Ef þið trúið okkur ekki þá ragmana ég ykkur bara til að prófa uppskriftina. 

Hvað afganginn af vodkaflöskunni varðar þá má bjóða okkur myndarlega í kokteil hvaða kvöld vikunnar sem er. 

þriðjudagur, 20. júní 2017

Er aldur afstæður?

Hvað er krísa? spurði stúlka vinkonu sína á kaffistofunni í dag. Æ, það þýðir það sama og kaos svaraði vinkonan. OK, sagði stúlkan, þú talar stundum eins og eldgömul 53 ára kelling þúst. Það er nefninlega það hugsaði ég sem væntanlega er orðin vel miðaldra í þeirra augum.

Arkaði heim meðfram sjónum eftir vinnu með vindinn í fangið og prísaði mig sæla með rigningarleysi. Annað en á sunnudaginn sem leið, rigning og ský gerðu það að verkum að afmælisgjöf þess myndarlega var afbókuð. Kaffi í rúmið, kampavín og krossant á sófanum og út að borða um kvöldið varð því að duga. Í gær glennti sig sólin og ég brunaði fyrr heim úr vinnunni til að sækja karlinn. Í gær viðraði prýðilega til þyrluflugs sem var hreint stórskemmtilegt enda mitt fyrsta þyrluflug, karlinn er auðvitað svo sjóaður að hafa ekki bara ferðast með þyrlu heldur með heilt tökulið með sér. Jájá, allt gott og blessað með það, hann hafði allavega ekki lent á Stóra Bolla áður til þess eins að dreypa á kampavíni, alveg glæný "2007" hegðun fyrir hann skal ég segja ykkur.

Karlhróið hlunkaðist annars yfir á 57. árið s.l. sunnudag. Ekki veit ég hvað vinkonurnar á kaffistofunni hefðu sagt um það, enda þagði ég þunnu hljóði. Lái mér hver sem vill.

föstudagur, 16. júní 2017

Gríma

Um daginn röltum við myndarlegi í bæinn þar sem við stungum okkur inn á Jómfrúna, sátum þar yfir smurbrauði og víntári, undir dillandi bongójassi og hávaðasömum flugvélum. Daginn eftir um daginn brunuðum við í barnaafmæli á Hvolsvöll, knúsuðum sætar systur, átum súpu og kökur, drukkum kaffi og spjölluðum. Eitthvert kvöldið eftir þessa daga þarna um daginn fórum við með mömmu út að borða á hávaðasömum veitingastað í bænum, átum rausnarlega af svakalega góðum mat, drukkum temmilega af rauðvíni með og hristum svo skankana í Hörpu þar á eftir í takt með Kool & the gang.

Þessir þrír atburðir eiga það allir sameiginlegt að frúin var með maskara. Eftir að ég fékk kvef þarna um daginn, daginn þá nennti ég ekki að setja á mig maskara á morgnana, enda þrútin um augun og leiðinlegt að vera með kvef eins og ég var búin að segja ykkur. Það er bara svo asskoti þægilegt að vera laus við að maskara sig hvern dag. Jújú, ég get svo sem alveg viðurkennt að suma daga þegar ég lít í spegilinn finnst mér eins og það vanti á mig andlitið og vissulega (og blessunarlega) er ég löngu laus við kvefið, ég nenni bara samt ekkert að setja á mig maskara á morgnanna. Set bara á mig maskara þegar ég nenni og vil og heilmikið frelsi í því fólgið, skal ég segja ykkur.

Sá myndarlegi er í afmælispartýi í heimabænum með móður sinni níræðri. Sálf ætla ég að hitta yndislegar vinkonur í kvöld. Spurning hvort ég splæsi maskara í það.

miðvikudagur, 14. júní 2017

Græn steik

Meðan ég steikti græna eplið í gær varð mér hugsað til steiktra grænna tómata og rifjaðist þá upp fyrir mér bók sem ég las fyrir margt löngu sem mig minnir að hafi verið eftir sama höfund og skrifaði Steiktir grænir tómatar. Mér finnst eins og bókin heiti Hvítt skítapakk og flekkóttur svertingi en hún gæti líka heitið Flekkóttur svertingi og hvítt skítapakk, það eru jú einhver ár síðan ég las hana en ég man að mér þótti hún feikn skemmtileg. Núna langar mig til að lesa hana aftur en finn hana hvergi í bókaflóðinu hér á heimilinu. Finnst eins og ég eigi að eiga hana en það gæti verið misminni. Er nokkuð viss um að bókin er ekki hugarburður en ef ég á hana ekki, hvar ætli ég hafi þá fengið hana að láni fyrir öllum þessum árum?

Það voru rétt passlegir afgangar af steiktum gænum eplum á eina samloku sem kom sér býsna vel í kvöld, sá myndarlegi er að kósa sig með afmælispiltinum eldri syni sínum, sitja rétt í þessu, nuddaðir og dekraðir, á Hótel Holti og kýla vömbina. 
Svei mér þá ef smjörsteikta búrbonperulaukssultusamlokan var ekki bara betri í kvöld en í gær. Ég er að segja ykkur það satt.

þriðjudagur, 13. júní 2017

Af garnagauli og steiktum grænum eplum

Var að smjörsteikja epli og langar að deila því með ykkur að ilmandi lyktin í vitum mér ærir upp í mér hungrið. Þegar sá myndarlegi kemur úr ræktinni ætla ég að smyrja búrbonperulauksultu á hvítar brauðsneiðar, leggja galíslenska skinku í sæng með breskum cheddar osti og smjörsteikja samlokur með smjörsteiktu eplunum á milli líka. Ó mig auma hvað ég vona að karlinn fari að koma heim. Garnagaulið í maga frúarinnar er ekki nærri því jafn fagurt hljóð og mal kattarins. Legg ekki meira á ykkur mjásurnar mínar.

mánudagur, 12. júní 2017

Frásögn af því hvernig kona verður plebbi

Núna erum við orðnir plebbar sagði sá myndarlegi við mig i morgun. Ég var 32 ára þegar ég kynntist honum, bjó ein í þægilega lítilli íbúð og átti ekkert sjónvarp. Í dag er ég 42 ára, bý með þeim myndarlega í þægilega of stórri íbúð og við eigum 55" flatsjónvarp (er það orð?) síðan í gær. Svona æðir lífið áfram meðan stúlka rétt deplar auga.

Af öðrum þroskasögum stúlkunar ber þar helst til tíðinda að eftir 6 farsæl ár í starfi Melabúðarstúlkunnar þeyttist hún á hausinn og endaði á eldhúsgólfi búðarinnar miðju. Ruslatunnan sem stúlkan hafði hugsað sér að demba í pappagáminn í portinu utandyra þeyttist á undan henni og pappírinn dreifði sér fagurlega um eldhúsgólfið. Fall frúarinnar, hér eftir kallað the Macron effect, var frönsk kartefla. Þökk sé vídjókerfi búðarinnar gátum við spilað og endurspilað og skemmt okkur yfir fallinu, skemmt okkur yfir því með samstarfsfólki sem missti af sýningunni, gestum sem bar að garði, talsett með tilþrifum, hlegið fram eftir degi. Gott stöff skal ég segja ykkur.

Svo er ég líka orðin plebbi, þið náðuð því, var það ekki? Hvernig segir kona annars plebbi á frönsku?

sunnudagur, 4. júní 2017

Á vegum landsins

Sá myndarlegi treystir sér ekki í langar göngur þessa dagana og stakk uppá bíltúr í staðinn. Þú sem ert nú úr bíltúrafjölskyldu sagði hann rogginn með sjálfan sig yfir hugmyndinni. Féllst á þetta með semingi eftir að hann hafði lofað að smyrja samlokur og hafa kaffi á brúsa með. Mosfellsheiði, Uxahryggir, Kaldidalur, Húsafell, Kleppjárnsreykir, Skorradalsvatn, Draginn, Hvalfjörður, Kjósaskarðsvegur, Mosfellsheiði. Vorum að koma heim.

Malbik og malarvegur, rok og rigning, galíslenskt landslag og frönsk músík í bílnum, vaðandi túristar og sauðfé á vegunum. Rukum í nokkur skipti út úr bílnum til að taka myndir, t.d af girðingastaur, fjöllum, skýjum og steinum. Sáum fullt af fallegu landslagi, fjöllum sem vert væri að ganga á og athyglisverðum gönguleiðum. Drukkum kaffið í bílnum, nenntum ekki að breiða úr teppinu í rokinu til að maula dýrindis Pésasamlokurnar.

Höfðum hugsað okkur að fara í sund í Húsafelli. Sá myndarlegi ákvað að sýna mér fyrst bústaðinn sem vinir okkar eiga þar uppfrá, ef hann rataði þ.e.a.s. Ekki bara rataði karlgarmurinn heldur voru vinir okkar stödd í umræddum bústað ásamt börnum, barnabörnum og tengdasyni. Ekki bara vorum við mætt þarna óvænt í heimsókn heldur önnur vinahjón þeirra líka. Yfir kaffibollum og fjörugum samræðum komumst við síðan að því að vinur þeirra reyndist ekki bara skyldur tengdasyni þeirra, hann er líka náskyldur mági mínum og fyrrverandi eiginkonu þess myndarlega.

Ísland er stórkostlega mikil þúfa. Enda ætlum við myndarlegi aftur í bíltúr á morgunn, getið sveiað ykkur uppá það.