Þegar ég festi kaup á minni fyrstu fasteign skipti staðsetningin mig öllu máli. Úthverfastelpan ég hafði tekið saman við mann sem var að byggja í Grafarholti. Ég flutti því úr úthverfinu mínu í enn meiri úthverfakjálka. Í staðinn fyrir að flytja niður í bæ, eins og mig hafði lengi dreymt um, flutti ég lengra upp eftir. Þegar sú ást var þrotin eftir sandhaug í verðandi stofu, steypuhrærivél á verðandi gangi, 2 eldavélahellum ofan á ofni ömmu minnar í svefnherbergi, kaffikönnu á náttborði og öllu því ryki og plasti sem fylgir nýbyggingu þá sumsé var ég staðráðin í að næst myndi ég flytja niður í bæ, láta drauminn rætast.
Svo ég flutti úr úthverfakjálkanum í gamla úthverfið mitt, nema aftur heim til mömmu og pabba í það sinnið. Leitin að fasteigninni minni tók heila meðgöngu, í 9 mánuði þræddum við pabbi fasteignir í ákveðnum póstnúmerum. Pabbi minn, skynsemdarmaður sem hann er, reyndi að brydda uppá ódýrara húsnæði sem byði uppá meira pláss en dóttirin vildi ekkert slíkt heyra, hún var að fara niður í bæ.
Niður í bæ fór hún, með sinn kött. Heilt Klambratún sem skildi hana og bestu vinkonuna að. Á þessum stað undi stúlkan sér vel, labbaði til vinnu á virkum dögum og arkaði á Sirkus um helgar. Eitt kvöldið arkaði hún yfir Klambratúnið til vinkonu sinnar, sem hafði boðið henni heim í mat, og arkaði síðan með henni á Ölstofu í staðinn fyrir að fara beina leið á Sirkusinn sinn. Þetta örlagaskref leiddi hana niður brekkuna frá íbúðinni hennar en stúlkan var sátt og ekki bara sátt, hún var ástfanginn. Aftur.
Það sem beið hennar hafði hún ekki hugmynd um, hefði ekki einu sinni getað ýmyndað sér það. Það þarf alveg sérstakt ýmyndunarafl til að ýmynda sér raunveruleikann, er það ekki?
2 ummæli:
Skemmtilega frásögn hjá þér vinkona, ég er alveg sammála þér í því að það er ekki nokkur laið að ýmynda sér hvað framtíðin ber í skauti sér. Kemur manni svo oft á óvart.
Enginn veit sína ævi fyrr en öll er, eins og sagt er.
Skrifa ummæli