sunnudagur, 13. janúar 2019

Lífslækur lifandi

Sá myndarlegi er í göngu. Árlegri borgargöngu nema í ár nennti ég ekki með. Hentist niður og kyssti karlinn áður en hann fór. Lét sem ég sæi ekki uppvaskið eftir matarboð gærkvöldsins. Skreið aftur upp í rúm með kaffibolla og hélt áfram að lesa. Teygði mig í konfektkassa sem ég fékk í jólagjöf. Valdi mér fallegan mola með hvítri ábreiðu og valhnetu þar ofan á. Hugsaði með mér að í fjarveru karlsins þyrfti ég ekki að bíta molann í tvennt og deila með honum. Stakk molanum því heilum uppí mig og byrjaði að tyggja. Marsípanfylling molans fyllti út í munninn á mér svo ég tugði hratt og flýtti mér að kyngja. Þambaði því næst úr kaffibollanum til að losna sem fyrst við óbragðið úr munninum á mér. Ekki að mér líki ekki við marsípan, ég hata marsípan. Svo mikið að ég myndi heldur éta lúku af rúsínum en að éta marsípan. 

Af þessari græðgisstund hefur því frúin lært að betra er að bíta í konfektmola en að gleypa í heilu lagi. 

Engin ummæli: