þriðjudagur, 1. janúar 2019

Af konu og kampavínsleysi

Eftir að hafa lesið langt fram á morgun líður mér eins og ég sé andvaka eftir 4 tíma svefn. Sit við eldhúsborðið í myrkrinu í slopp af þeim myndarlega og dauðlangar í rjúkandi kaffi. Á síðasta kvöldi nýliðins árs át ég safaríkasta kalkún sem ég hef á ævi minni smakkað og úðaði þar á eftir í mig besta heimatilbúna ís sem ég hef á sömu ævi bragðað. Fór á brennu, sem ég hef ekki gert í nokkur ár, og hugsaði til pabba míns. Hló að skaupinu, mér til mikillar furðu, og reyndi að rifja upp hvenær það hefði gerst síðast. Á miðnætti sat ég í sprengingum og látum og las ljóð Ólafs Jóhanns Sigurðsson milli þess sem ég dáðist að sofandi 10 mánaða drengnum sem ég gætti meðan foreldrar hans og sá myndarlegi og elsti bróðir þeirra og frú og dóttir þeirra og piltar hennar hurfu út í buskann að mæna á sprengjuæði landans. 

Í fyrsta skipta í háa herrans tíð, eins langt og hún nú annars nær fyrir konu á fimmtugsaldri, drakk ég ekkert kampavín á gamlárs (nei, freyðivínsglasið sem ég dembdi í mig þarna eftir miðnættið telst ekki með). Ekkjurnar mínar tvær lúra því ískaldar á sínum stað, önnur í ísskápnum, hin á veröndinni, og bíða eftir því að fá að iða.

Ég er nú samt að hugsa um að byrja á því að hella uppá blessað kaffið. Aldrei að vita nema ég fái mér konfektmola líka, það er jú víst nýtt ár. Eina ferðina enn.

2 ummæli:

Íris sagði...

Gleðilegt nýtt ár ��

Frú Sigurbjörg sagði...

Gleðiríkt ár til þín og þinna elsku Íris!