miðvikudagur, 9. janúar 2019

Lax, lax, lax og aftur lax!

Núnú, kallinn ekki heima? spurði Lárus sposkur á svip þegar ég bað hann um bita af laxi yfir fiskborðið í Melabúðinni áðan. Karlinn minn er nefnilega ekkert hrifin af laxi. Þess vegna er það orðið að ritúali hjá mér að fá mér lax þegar sá myndarlegi er að heiman. Maka laxinn í ólafíuolíu og krydda með Köd&grill. Hendi bitanum undir grillið í ofninum í nokkrar mínútur. 

Í kvöld spurði Lárus: þú færð þér nú eitthvað gott með þessu, er það ekki? og ég svaraði: jú, fæ mér alltaf hvítvínsglas með.  

Í morgunn klæddi ég mig í sokkabuxnaleggings sem ég hafði sjálf keypt inn í 3 Smára þegar ég vann þar (ómunatíð), steypti yfir mig peysunni sem ég keypti notaða í Spútník. Ætlaðir þú ekki að vera í kjól spurði eiginmaðurinn þegar ég spígsporaði niður tröppurnar af efri hæðinni. Jeramundur minn skrækti ég, ég gleymdi að fara í kjólinn! 

Eins gott að eiginmaðurinn verður ekki lengi fjarverandi.

Engin ummæli: