Er komin með lubba. Algengt vandamál þegar kona er með stutt hár. Stutt hár er fljótt að verða að lubba, hvað þá þegar hárið er fljótt að vaxa. Rigningunni óx einnig ásmeginn í dag, komin hellidemba þegar ég gerði mig klára til að labba heim. Í regnjakka, að sjálfsjögðu. Jú, auðvita rauðum, segir sig sjálft.
Var komin upp hálfa Hofsvallagötuna þegar ég tók hettuna niður. Vissulega húðrigndi en rokið var svo milt og ég naut þess sannast sagna að finna rigninguna leika við lubbann. Kannski ímyndaði ég mér það en mér fannst ég finna hvernig rigningin og vindurinn kitluðu lubbann í dansi, fannst ég finna þessa laufléttu blöndu hlaupa lubbanum í sveiflu.
Á Laugaveginum varð mér litið í glugga og sá að lubbinn var hlaupinn í liði, hlykkjandi liði sem dönsuðu í allar áttir. Ég brosti við sjálfri mér og hélt áfram að arka.
Arka leiðina heim því ég er ekki bara komin með lubba, ég er líka komin með kettlinga. Litla, líflega kettlinga sem komu hlaupandi á móti mér er ég steig inn um dyrnar heima, lubbinn löngu hættur að dansa í sveigjum og farinn að drjúpa votu höfði. Regnblautur lubbinn, regnjakkinn og gallabuxurnar skiptu kettlingana engu máli. Ekki mig heldur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli