Í gær bauð snaggaralegur heldri maður mér upp í dans á árshátíð í Viðey. Á appelsínugulum Minelli skóm leyfði ég honum að snarsnúa mér hring eftir hring og stýra mér í dansi (langt í frá einfalt). Tvistuðum og tjúttuðum, syngjandi og hlægjandi. Svaka fjör. Þegar ég ætlaði að fá mér sæti og ná aftur eðlilegum andardrætti eftir danssveifluna vildi sá myndarlegi ólmur dansa. Gat ekki neitað honum svo ég hélt áfram að skekja alla skanka, syngja, hlægja og ærlast í góðum gír með góðum gæja.
Núna sit ég við eldhúsborðið með kuldaroða í kinnum og hita í kroppnum eftir hressilega göngu. Sá myndarlegi er staddur í Sögusetrinu á Hvolsvelli með foreldrum sínum. Meðan sá myndarlegi reif sig framúr, í sturtu, í leppa og reif í sig morgunmat lá ég pollróleg undir sæng og hélt áfram að lesa. Ég nefnilega neitaði því góða boði um að fljóta með og missi því af bílferð í sólinni, málþingi um Njálu, kaffiveitingar í Sögusetrinu og kaffistoppi á Selfossi. Verst þykir mér að sjálfsögðu að missa af ávarpi Guðna Ágústssonar.
Í staðinn hef ég sumsé legið í bælinu og lesið, drukkið ósköpin öll af kaffi, klappað kettinum, vökvað basilikuna, sett í uppþvottavélina, klætt mig án þess að fara í sturtu á undan og arkað út í hressandi, sólríkan og vindblásinn göngutúr. Brugðið plötu á fóninn og hlustað á Þorvald Halldórsson synga Ó, hún er svo sæt með sinni blíðustu bassaröddu. Klætt mig aftur í náttfötin.
Örlar ekki á samviskubroti yfir því að hafa ekki nennt með. Já, ég sagði það, ég NENNTI ekki með. Svo er ég líka að læra að segja nei. Vildi að ég hefði lært það svo miklu, miklu fyrr.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli