Í morgun blés hárblásarinn með þvílíkum látum að karlinn hélt
að ég væri komin með höggbor í samband á baðherberginu. Ég lét óhljóðin ekki á
mig fá og hófst handa við hárþurrkun vinstra megin (já, ég byrja alltaf vinstra
megin og nei, ég hef ekki prófað að breyta til og byrja hægra megin). Þegar ég
svo ætlaði að fikra mig yfir á hægri hliðina gaus upp megn hitafnykur sem var
snöggur að
breytast í brunalykt. Mér var
hætt að lítast á blikuna ekki síst fyrir það að karlinn kvartaði undan
lyktinni, hann sem annars finnur aldrei neina lykt. Kippti hárblásaranum úr
sambandi. Skarta því afar lekkeri og vel blásinni vinstri hlið meðan sú hægri
sveigist eftir geðþóttum liðanna sem að öllu jöfnu prýða hár mitt, þ.e.a.s.
þegar það er ekki blásið. Langar ekki einu sinni að vita hvernig það lítur út
að aftan. Gleymdi líka að setja á mig maskara í morgun.
Ekkert af ofantöldu haggar ómótstæðilegum yndisþokka mínum, að kona tali nú ekki um kynþokka frúarinnar sem drýpur af henni eins og smjör af vænni flís.
Legg ekki meira á ykkur elskurnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli