Áttum von á þremur fríhressum norskum kellum í mat s.l.
föstudagskvöld. Ætluðum að rigga fram svaðalegann Ottolenghi rétt fyrir þær
norsku sem ætluðu að renna beint til okkar eitthvað rétt eftir hefðbundin
matartíma úr Bláa Lóninu, þar sem þær að sjálfsögðu áttu bókaðan tíma, það fer
víst enginn óforvendis í Lónið á tímum sem þessum. Nema hvað, Bogga systir
hringdi, alls óforvendis, og kríaði út næturgistingu fyrir sig og dæturnar tvær
sem eitthvað voru að bisast í höfuðborginni við fiðluspil og bíóferð. Ætluðu
ekkert að snæða með okkur enda fyrirhuguð ferð á fyrirmyndar kjúklingastað á
heimsvísu, eftirlæti dætranna. Nema hvað, þær norsku sáu ekki fram á að ná í
mat á neinum skikkanlegum tíma þar sem öllu þeirra plani hafði seinkað. Bogga
og dætur enduðu svo á að borða með okkur og það var spjallað og kettinum
klappað og tekinn tappi úr einni rauðvínsflösku og lesin heil bók og svo sofnaði
sú yngri og sú eldri kom sér fyrir í Pétursholu og sofnaði þar (því skal haldið
til haga hér að hvorugur atburður hafði neitt með rauðvínið að gera). Klukkan
hálf tólf mættu þær norsku færandi hendi með norskt ákavíti og kampavín,
ferlega hressar þrátt fyrir svakalega seinkun og bið í öllu er viðkom Lóninu (bið
eftir rútunni, bið til að komast inn í Lónið, bið í sturturnar og svo framvegis).
Þeim finnst allt dýrt á Íslandi. Já, ég sagði það, þeim norsku finnst allt dýrt
á Íslandi en líka allt alveg ógvuðdómlega og afskaplega fallegt og skemmtilegt
og hresst, helst til mikið af túristum kannski. Og já, hrikalega dýrt.
Vorum með stórar hugmyndir um sófaleti á laugardagskvöldið
en vorum svo alls forvendis boðin í mat hjá vinum okkar sem eru miklir
matargúrmeiar og því erfitt að hafna slíku boði. Steiktar geitaostabollur,
krabbasalat á bruchettu, himnesk andabringa með velktu spínati og
rabarbarasorbei með kampavínsskvettu bættu öll önnur plön prýðilega upp. Og já,
félagsskapurinn ágætur líka.
Þrátt fyrir lítið og eiginlega ekkert kenderí vöknuðum við
örlítið rykug. Hafði hugsað mér að baka köku en mamma og pabbi björguðu mér frá
því með því að mæta í Túnið og heimta næturgistingu. Foreldrar, ekki sem
verstir.
Og svo bara *púff* aftur kominn mánudagur. Legg ekki meira á ykkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli