laugardagur, 12. maí 2012

Fór í freyðibað í gærkvöldEkkert merkilegt í sjálfu sér, nema ég fór að hugsa um hvað ég ætti nú að hafast við, verandi næstum ein heima með heila helgi framundan. Var hreint ekki viss um hvað mig langaði til að gera. Datt svo sem ýmislegt í hug en e-a hluta vegna virkuðu hugmyndirnar ekki jafn spennandi þegar enginn var myndarlegi maðurinn til að deila þeim með.

Í Skaftahlíðinni nostraði ég við matargerð handa mér einni og fannst unaðslegt að japla á góðum mat í takt við góða tónlist sem ómaði fyrir mín eyru ein. í gærkvöld nostraði ég við maríneraðan lax og hlustaði á góða tónlist, naut þess að borða og dilla mér með músíkinni. Það var bara ekki eins. Fór að hugsa um hvað hefði orðið um mig sem vildi vera ein, elskaði að ráðstafa mínum eigin tíma, fílaði í botn allt rýmið sem fór undir mig og kringum mig og bara mig.

Er búin að drekka morgunkaffið ein, borða morgunmatinn í rúminu, lesa blogg og glugga í Frönsku Svítuna með köttinn malandi til fóta. Veit ekki enn hvað mig langar að gera í dag enda enn á náttkjólnum. Hef það í rauninni súpufínt en sakna samt þess myndarlega.

Það er líka margt vitlausara en að sakna, t.d. að hengja út þvottinn í rigningu eins og nágranninn er búinn að gera. Ætli hann þorni ekki samt á endanum, svona e-n þegar styttir upp. Heldur ekki svo slæmt að sakna þegar maður elskar.

3 ummæli:

Íris sagði...

Þetta var nú með fallegri ástarjátningum sem ég hef lesið. Vona að þú finnir þér samt eitthvað að gera annað en að sakna þó svo að mér finnist nú hljóma ansi kósý það sem þú hefur haft fyrir stafni.

Frú Sigurbjörg sagði...

Aðallega ligg ég í leti og les, sá myndarlegi hverfur sjadan, ef aldrei úr huga mér, ekki einu sinni þegar hann er heima : )

Frú Sigurbjörg sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.