Eftir heita sturtu og heitt kaffi reif ég mig upp úr ruggustól ömmu Boggu og sleit mig úr greipum Jussa. Dreif mig út í bjarta, snjóhvíta stilluna, andaði að mér fersku loftinu og gekk af stað. Fallegt já en skítkalt. Kom heim með grænann, bleikann og appelsínugulann vönd í fanginu og rauðann kuldaroða í kinnum.
Í nýju íbúðinni minni er komin þvottavél sem lætur vart í sér heyra, þráðlaust net og flatt sjónvarp, ný sturta sem kætir frúnna á hverjum morgni og nýtt rúm sem bíar henni í svefn á hverju kvöldi. Pabbi tengir og festir, setur saman, græjar og gerir, staðfestir fyrrum fullyrðingar stelpunar sinnar. Ekki að mamma gefi honum neitt eftir, tekur upp úr hverjum kassanum af öðrum sem stúlkan brunar með milli túns og húss, vaskar upp, þrífur, eldar og heldur nánast óslítandi flaumi af kaffi.
Síðan síðast er ég búin að fá kótelettur með raspi, soðna ýsu stappaða með kartöflum og smjéri og kjöt í karrí. Blómvöndurinn fagri sperrir sig með appelsínugulum amaryllis fyrir miðju. Sjálf sperri ég mig rogginn fyrir miðju með góða foreldra sem standa þétt við bakið á mér.
2 ummæli:
Það er svooo gott að eiga góða að.
Það er gott að heyra þetta kæra Katla, þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. <3
Skrifa ummæli