sunnudagur, 22. september 2019

Uppáhalds sundveðrið mitt dag eftir dag.

Þrátt fyrir það hef ég ekki látið sjá mig í sundi síðan síðast. 

Aftur kominn sunnudagur. Það er ekki með vilja gert að síðustu færslur raðist á þennan dag vikunnar og enn síður að tala um sund trekk í trekk. Í trekk. 

Iðulega er frúin sest niður til að blogga þykist hún hafa góða hugmynd í huga, jafnvel þarfa pælingu á góðviðrisdögum. Stundum skrifar hún heilu bálkana af pistlum í sturtunni að morgni (allt í höbðinu að sjálfsögðu, enda varla vöknuð) en þegar hún svo sest niður (ávalt síðdegis) til að koma snilldinni frá sér ræður hún ekki neitt við neitt. Bloggpistill sem átti að vera um pó gæti snúist upp í pistill um pí. 

Síðan eru það pistlarnir sem þú skrifar en veist um leið að þú munt aldrei birta. Þrátt fyrir persónuleika bloggsins eru alltaf hlutir sem þú segir ekki frá, rétt eins og þegar þú mætir í fermingarveislu eða hittir fjarskyldan ættingja í búð; jújú, allt gott að frétta segir þú og brosir sama á hverju gengur.

Í fullri hreinskilni get ég þó sagt ykkur að um helgina hef ég notið samvista við hana Ólafíu systurdóttur mína. Við Fía pía höfum notað tímann til að tala saman fölskvalaust, farið út að borða, drukkið góð vín og eitthvað af kokteilum, sofið í sama rúmi, haldið áfram að tala saman, drukkið fleiri kokteila og sannreynt að þrátt fyrir 12 árin sem aðskilja okkur eigum við sitthvað sameiginlegt annað en blóðböndin.

Er allt fram streymir endalaust, og allt það, er fátt sem jafnast á við fjölskylduna. Hvað sem svo flokkast sem fjölskylda getur alltaf verið túlkunaratriði en hér er ein góð mynd af okkur Ólafíu saman


Engin ummæli: