Í stað þess að liggja í bælinu yfir kaffi og lestri rauk ég á lappir og arkaði út í rigninguna. Hellidemban fylgdi mér alla leið út í laug þar sem fáir voru á floti, ef til vill vegna veðurs. Sjálfri þykir mér best að synda í rigningu, nýt þess að heyra í henni smella á vatnsyfirborðinu í kafi og sjá dropana skella á vatnsfletinum á innsoginu.
Synti í hálftíma. Sat lengi í heita pottinum.
Það var ekki dugnaður sem ýtti mér af stað heldur pirra, svekkelsi og leiði. Að synda er allra meina bót, eða þannig. Að taka tökin og líða í lauginni skerpir á hausnum, allavega mínum. Set allt það góða sem kemur í hugann í innsogið og allt það leiðinlega sem svekkir og pirrar í útblásturinn.
Og viti menn, nú skín sólin og frúin situr í þverröndóttum kjól með kaffi í blómabolla og dáist að haustinu.
Skörp. Einbeitt. Áfram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli