fimmtudagur, 26. september 2019

Er þetta ekki Katla?

spurði konan sem stóð á móti mér á Melabúðargólfinu. Jú svaraði ég og á meðan ég dróg seiminn skannaði ég heilabúið í leit að þessari miðaldra konu sem virtist þekkja mig en konan sú arna kom mér ekki svo mikið sem kunnulega fyrir sjónir. Enda kom það á daginn að ég hafði aldrei hitt hana fyrr. Hún hins vegar var í menntaskóla með manninum mínum og hvernig var svo í Argentínu? Það er svo æðislegt að fylgjast með ykkur á facebook. 

Já krakkar, svona er þetta þegar raflífið blandast við raunlífið; pínulítið sérstakt, örlítið sérkennilegt en líka mega skemmtilegt. Úr varð c.a. korters samtal sem var nákvæmlega blanda af þessu en hvort ég muni þekkja konuna næst er hún verður á vegi mínum þori ég ekki að segja til um, verð bara að treysta því að hún muni þekkja mig. 

Eða ekki.

sunnudagur, 22. september 2019

Uppáhalds sundveðrið mitt dag eftir dag.

Þrátt fyrir það hef ég ekki látið sjá mig í sundi síðan síðast. 

Aftur kominn sunnudagur. Það er ekki með vilja gert að síðustu færslur raðist á þennan dag vikunnar og enn síður að tala um sund trekk í trekk. Í trekk. 

Iðulega er frúin sest niður til að blogga þykist hún hafa góða hugmynd í huga, jafnvel þarfa pælingu á góðviðrisdögum. Stundum skrifar hún heilu bálkana af pistlum í sturtunni að morgni (allt í höbðinu að sjálfsögðu, enda varla vöknuð) en þegar hún svo sest niður (ávalt síðdegis) til að koma snilldinni frá sér ræður hún ekki neitt við neitt. Bloggpistill sem átti að vera um pó gæti snúist upp í pistill um pí. 

Síðan eru það pistlarnir sem þú skrifar en veist um leið að þú munt aldrei birta. Þrátt fyrir persónuleika bloggsins eru alltaf hlutir sem þú segir ekki frá, rétt eins og þegar þú mætir í fermingarveislu eða hittir fjarskyldan ættingja í búð; jújú, allt gott að frétta segir þú og brosir sama á hverju gengur.

Í fullri hreinskilni get ég þó sagt ykkur að um helgina hef ég notið samvista við hana Ólafíu systurdóttur mína. Við Fía pía höfum notað tímann til að tala saman fölskvalaust, farið út að borða, drukkið góð vín og eitthvað af kokteilum, sofið í sama rúmi, haldið áfram að tala saman, drukkið fleiri kokteila og sannreynt að þrátt fyrir 12 árin sem aðskilja okkur eigum við sitthvað sameiginlegt annað en blóðböndin.

Er allt fram streymir endalaust, og allt það, er fátt sem jafnast á við fjölskylduna. Hvað sem svo flokkast sem fjölskylda getur alltaf verið túlkunaratriði en hér er ein góð mynd af okkur Ólafíu saman


sunnudagur, 15. september 2019

Sund-ur er Und-ur

Í stað þess að liggja í bælinu yfir kaffi og lestri rauk ég á lappir og arkaði út í rigninguna. Hellidemban fylgdi mér alla leið út í laug þar sem fáir voru á floti, ef til vill vegna veðurs. Sjálfri þykir mér best að synda í rigningu, nýt þess að heyra í henni smella á vatnsyfirborðinu í kafi og sjá dropana skella á vatnsfletinum á innsoginu.

Synti í hálftíma. Sat lengi í heita pottinum.

Það var ekki dugnaður sem ýtti mér af stað heldur pirra, svekkelsi og leiði. Að synda er allra meina bót, eða þannig. Að taka tökin og líða í lauginni skerpir á hausnum, allavega mínum. Set allt það góða sem kemur í hugann í innsogið og allt það leiðinlega sem svekkir og pirrar í útblásturinn. 

Og viti menn, nú skín sólin og frúin situr í þverröndóttum kjól með kaffi í blómabolla og dáist að haustinu. 

Skörp. Einbeitt. Áfram.

sunnudagur, 8. september 2019

Sund-ur

Man ekki hvenær ég fór síðast í sund en um leið og ég spyrnti mér frá bakkanum fann ég hvað ég hef saknað þess, saknað þess að líða í gegnum klórinn og leggja hugann í bleyti. Anda að mér orkunni og blása frá mér luðrunni. Sópa að mér vellíðan með sundtökum, sparka frá mér neikvæðni. Stundum syndi ég hægt, stundum syndi ég hratt. Hjartað slær örar og hugurinn virkar skarpari. 

Man það núna að ég fór í sund síðustu helgi en ekki til að synda heldur fljóta, fljóta með 28 öðrum kellum með flothettu á höfði, einbeiting á andardrætti, hugarfloti og slökun. Anda inn, anda út. 

Andardráttur andi, lífsandi, vindur, önd, öndun; blástur.