...þá skarta samrýndu systkinin í Samtúni afar litaglöðum trúðakrögum þessa dagana. Hinn Péturinn í lífi mínu gaf þeim þessa kraga og Pétur minn vildi koma þeim strax í notkun. Ég hinsvegar spornaði við fótum, alveg þar til fyrsti dauði fuglinn lá á plastparketinu.
Nú sumsé hlaupa kettirnir um Samtúnskoppagrundir íklædd prestakrögum. Fuglar eiga víst að sjá björtu litina vel og eiga því meiri líkur á að forða sér. Kragarnir atarna hafa víst verið sannreyndir af amerískum háskólavísindamönnum og virka jafnvel á mjög hæfa veiðiketti, enda er mælt með þessum krögum, ljótir sem þeir eru.
Að meðaltali veiðast 87% færri fuglar stendur á miðanum sem fylgdi þessum krögum. Nú hef ég aldrei verið sterk í stærðfræði en þegar ég kom heim lá dauður fugl á plastparketinu.
Jarðaförin var látlaus og fór fram í kyrrþey.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli