mánudagur, 24. mars 2014

Malt í kássunni

Vorum vakin með látum af morgunútvarpinu með fréttum af vitfirrtum Rússlandsforseta, slagsmálum í miðbæ borgarinnar og ófærð og snjóflóð á vegum landsins. Meiri lætin alltaf í þessu blessaða mannfólki. Já, og veðri líka sem þó er einfaldara að sætta sig við en grimmd mannskepnunnar.

Sjálf var ég spök um helgina sem leið með nefið á kafi ofan í bók. Rétt leit upp til að sýna samstöðu á samstöðufundi, elda kjúklingarétt frá Palestínu, hella kaffi ofan í foreldra mína, baka marengs, sjóða kartöflur í mjólk og bræða súkkulaði í malti. Nærandi og styrkjandi. Gefur hraustlegt og gott útlit. Bætir meltinguna. 
Þar hafið þið það. 

fimmtudagur, 20. mars 2014

Hálfur nakinn sannleikur

Skaust aftur niður á neðri hæðina eftir sturtuna í morgun. Ekki búin að brjóta saman úr balanum. "Fannst þér öruggara að fara í brjóstahaldara" spurði sá myndarlegi sem sat og brosti að kærustunni við morgunverðarborðið. "Já" svaraði ég komin með hreinar nærbuxur í hendurnar "þó það sé líklega ekki þörf á því, afar ólíklegt að þeir komi tvo daga í röð til að tæma ruslið." Með enn breiðara brosi svaraði sá myndarlegi; "þeir voru nú bara að tæma bláu tunnuna í gær."

Átti útrunnið rauðrófu, epla- og piparrótarchutney sem ég smellti á svínalund sem ég síðan skellti inn í ofn ásamt rest af sætri kartöflu. Ég braut líka saman og gekk frá þvottinum. 
Þar hafið þið það. 

miðvikudagur, 19. mars 2014

Nakinn sannleikurinn

Skaust niður á neðri hæðina eftir sturtuna í morgun eftir hreinum nærbuxum sem ég vissi af í þvottabala inni í herbergi. Herbergi með glugga sem snýr út að götunni og innkeyrslunni að húsinu okkar. Glugga sem mér varð litið út um er ég stóð þarna í morgunsárið. Á öskukarlinn sem stóð og starði opinmynntur á kviknakta kerlinguna með hreinar nærbuxur í höndunum. Þannig var það og lítið við því að gera svo ég brosti bara til aumingja stráksins sem tók leiðina að tunnunum niðurlútur í nokkrum stökkum. 
Þar hafið þið það.

sunnudagur, 16. mars 2014

Sam-suða

Eftir samstöðufund á Austurvelli í gær dembdi ég mér peningalaus inn í Kolaportið. Kom heim með átta plötur. Með stynjandi diskódrottningu dembdi ég mér í örlitla tiltekt



Þó Donna vinkona mín hafi stunið heila A-hlið þýddi lítið fyrir mig að stynja, tiltekt tekur sig sjaldnast til sjálf og ég hlakkaði til næsta verkefnis



grátlaus laukskurður, gulróta- og sellerískurður ásamt hæfilegu magni af hvítlauk og ókjarnhreinsuðu chillí, niðurskurður sem vit er í


teygaði dásemdar angann sem brýst fram þegar kóríanderfræ eru mulin


henti kanilstöng út í dásemdina og því næst hellti ég slatta af rauðvíni yfir sem mér þykir næstum því jafn skemmtilegt og að hella rauðvíni í sjálfa mig


Með mexíkóskri matargerð, fengin frá íslending í Svíþjóð, leitaði ég til Grænhöfðaeyja til að fá seiðandi sveiflu í matinn og dillandi takt í mjaðmir


Borið fram með haug af sýrðum rjóma í sætri skál sem ég fór með heim um daginn úr Húsi Fiðrildanna 


Ekki síður nauðsynlegt að hafa aukaskammt af nachos nærtækt, borið fram í sósuskálinni úr dásemdarstellinu okkar sem við höfðum með okkur heim þarna um árið úr Húsi Fiðrildanna


Skv læknisráði teyguðum við svo rósavín frá Faustino vini okkar sem brást okkur ekki frekar en fyrri daginn, þið megið giska á hvar við fengum glösin...


Þann myndarlega fann ég á ónefndri ölstofu úti í bæ fyrir einum sex árum síðan, að drösla þeirri elsku inn í líf mitt eru margfalt betri kaup en matarstell og rósavín.

sunnudagur, 9. mars 2014

Matur & fjör

Talandi um mat þá drifum við foreldra mína á Food & Fun um helgina síðustu. Komum á þéttsetinn staðinn rétt fyrir níu og hófum kvöldið á fordrykk í setustofunni þar sem borðið okkar var ekki laust. Rúmum hálftíma síðar skáluðum við í freyðivíni sem var það fyrsta sem borið var á borð þegar okkur var loks vísað til borðs. Borð lengst inni í horni í enda veitingastaðarins. Tveimur borðum frá voru vinir okkar, Þóra og Svavar, að klára síðasta kaffisopann. Meðan þau stóðu við borðið okkar að spjalla birtist þjóninn með forréttinn. Allt í einu fer Þóra að hósta. Og hósta. Og hóstar svo meira og pabbi hnerrar og Pétur byrjar að hósta og síðan mamma og ég tek eftir því að flestir á staðnum eru hóstandi og hnerrandi og helmingur búinn að bera servíettuna fyrir vitin og þá byrja ég að finna fyrir fáránlegri ertingu í hálsinum, ertingu sem lætur ekki að sér hæða en lætur mig hósta og hósta án þess að ég fái nokkru ráðið. Áður en ég veit af er ég líka búin að hnerra og bera servíettuna fyrir vitin og Pétur er kominn langleiðina út sem og hálfur veitingastaðurinn. Þjónarnir labba um og ráðleggja fólki að fara út fyrir. Úti á gangstétt er fólk hissa og ringlað en gleðst þó fljótt er þjónarnir birtast með glös og freyðivínsflöskur og skenkja eins og óðir menn með heilan veitingstað á gangstéttinni. Allir virðast komnir út; matargestir, þjónar, kokkar og útlenski gestakokkurinn. Kátína hleypur um sig í kuldanum í bland við stóru spurninguna; hvað var þetta? Enginn veit svarið en þjónarnir halda áfram að skenkja og brosa og bera út bjór í ofanálag ofan í liðið sem dregið hefur athygli húsráðenda í kring út í glugga með furðusvip, skyldi engan undra


  
Eftir að búið var að lofta út eins og hægt var, m.a. með því að opna allt upp á gátt, var okkur í annað sinn þetta kvöld boðið til borðs á borði beint á móti útidyrahurðinni. Inni í horni í enda veitingastaðarins þar sem við áður sátum var ekki vinnandi vegur að vera og ekki á neinum öðrum borðum þar í kring. Tveimur af þremur klósettum staðarins var lokað og enn eimdi eftir af þessu sem enginn veit hvað var í loftinu. Vorum ánægð með opna hurðina beint á móti okkur og ekki síður ánægð að geta loks bragðað á forréttinum hálf ellefu um kvöld. Þjónarnir héldu eftir sem áður áfram að skenkja fríkeypis freyðivín í glösin og þjóna gestum með stakri prýði og bros á vör þrátt fyrir þessa óvæntu uppákomu, uppákomu sem væntanlega verður aldrei útskýrð, að minnsta kosti ekki fyrir matargestum 

Eftir prýðilega máltíð og töluverðar vangaveltur erum við nokkuð viss um að þegar við verðum löngu búin að gleyma matseðlinum eða hvernig príma matseld útlenska Food&Fun kokksins bragðaðist, þá munum við seint gleyma þessu kvöldi



fimmtudagur, 6. mars 2014

Upp úr mér

Það er ekki bara útlitið sem myndarlegi maðurinn minn hefur með sér, honum er margt til lista lagt. Og já, lysta líka. Hann er nefninlega fjári fínn kokkur. Þykir skemmtilegast að elda upp úr sér og á satt best að segja ekki gott með að gera bara eins og uppskrift segir til um. Galdrar fram kryddblöndur úr kryddum sem hann þurrkar sjálfur, hristir fram úr erminni eðal brauð sem hann hnoðar í eins og atvinnubakari og eldar dýrindis máltíðir í rólegheitum fyrir matargesti eins og það sé jafn einfalt og að sötra eitt rauðvínsglas í mestu makindum. 

Eftir að hafa marga kjötbolluna sopið (formað, steikt og etið) skilst mér að manninum hafi  tekist að toppa sjálfan sig með beztu kjötbollum sem hann hefur á áratuga ferli sínum í matseld mótað, steikt og borðað. Mér skilst að samsetning og magn krydda hafi gert trixið. Sjálf var ég hæstánægð með fetaostinn sem gægðist út úr bollunum og kitlaði ánægða bragðlauka


Merkilegt hvað margt gott kemur upp úr rauðhærðum slána sem alinn er upp á Hvolsvelli.