sunnudagur, 23. júní 2024

Vaknaði fyrir allar aldir í morgun.

Þegar ég segi fyrir allar aldir þá á ég við að ég hellti upp á kaffið fyrir sjö. Áður en ég hellti upp á kaffið var ég búin að klára bókina sem ég var að lesa og vaska upp frá kvöldinu áður sem ég nennti ekki að gera áður en ég fór að sofa í gær. Sveigja í trjágreinum, gulur og rauður dans blóma, grænt regnvott grasið, fuglasöngur og regndropatif. Kyrrlátt og fallegt. Hefði samt viljað sofa lengur. 

Þrátt fyrir að vera komin með nefið á kaf í aðra bók reif ég mig á lappir og í leppa. Arkaði í galíslensku sumarveðri úr Norðurmýri í Laugardalinn. Dettur ekki til hugar að skrifa það upphátt hvenær ég fór síðast í sund en þar sem ég stóð í sturtunni í Laugardalslauginni, og var við það að klæða mig í sundbolinn, tók ég eftir hvað hann var orðinn togaður og teygður, gegnsær á ýmsum stöðum jafnvel. Ákvað þó að skella mér í hann enda gegnsæið ekki á neinum velsæmismörkum, rétt svona á hliðunum.

Mér hefur alltaf þótt gott að synda, sér í lagi í rigningu. Nýt þess að kljúfa vatnið í sundtökum og heyra regndropa sameinast klórvatninu í lauginni. Tæmi hugann. Synti í 20 mínútur. Þegar ég hífði mig upp stigann úr lauginni tók ég eftir því að hálft hægra brjóstið sperrti sig út úr sundbolnum. Á ekki von á því að fara neitt í sund á næstunni.

Ástæðan er þó ekki spéhræðsla enda þjáist ég ekkert sérstaklega af henni. Ástæðan eru aukaverkanir af lyfjameðferðinni. Það er ekkert sérlega heillandi að svamla um í sundlaug og finna doða og stingi í höndum og fótum né að arka heim á stirðum fótum og sársaukastingjum í hverju skrefi.  

Heim komin henti ég sundbolnum og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur. Að sinni.

laugardagur, 22. júní 2024

Vofveiflegur ótti

Þegar ég var lítil stelpa var ég logandi hrædd við manninn hennar Sirrýjar. Eins og ég man þetta þá var hann á háum hælum, í hvítum kjól, með rauða hárkollu og dró á eftir sér sleggju. Hann var vofan sem drap fólk í Sjónvarpshúsinu á Laugavegi.

Mörgum, mörgum árum síðar þegar ég var orðin ráðsett frú á fertugsaldri rákumst ég og þáverandi maðurinn minn á Sirrý og manninn hennar á flugvelli úti í heimi. Þá þekkti ég Sirrý ekki neitt en hins vegar þekktust þau og minn fyrrverandi. Eins og ég man þetta þá var Sirrý upptekin af að fylgjast með töskubandinu en maðurinn minn og maðurinn hennar tóku spjall saman. Þá komst ég því að "rauðhærða vofan" virtist vera frekar næs gaur.

Þegar ég svo síðar skildi við manninn minn og keypti mér íbúð þá var það maðurinn hennar Sirrýjar sem seldi mér tryggingar. Í gærkveldi stóð ég svo í garðinum heima hjá þeim og hélt lítinn ræðustúf sem hófst á þessari sögu.

Rétt rúmu ári eftir að ég skildi hóf ég nám við Háskólann á Bifröst og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Sirrý sjálfri. Á Bifröst hefur hún það vandasama verkefni að kenna nemendum skólans örugga tjáningu, verkefni sem hún leysir löðurmannlega af hendi með gleði, röggsemi og einstakri hlýju. Í garðinum í gær var ég umvafin samnemendum sem flest, ef ekki öll, eru aftur komin í áfanga til Sirrýjar því þar er gott að vera. Það er langt í frá stresslaust að stíga fram og biðja um orðið, jafnvel ekki með öllu óttalaust að tjá sig af öryggi, líka í hópi kunningja og vina. Í gær var ég þakklát að standa frammi fyrir frábærum samnemendum mínum sem ég er lánsöm að hafa fengið að kynnast er við fetum saman skrefið í átt að öruggri tjáningu með skoðanaskiptum, hlustun, ræðuhaldi, ræðukeppni, spuna og einlægum samræðum. 

Í hvert skipti sem við horfumst í augu við okkar eigin ótta, og tökumst á við hann eftir bestu getu, styrkjumst við. Oft á tíðum er óttinn líka óþarfur, tilbúningur í okkar eigin hugsunum og ranghugmyndum um eigið sjálf. Í gær komst ég t.d. að því að Kristján Franklín er hörku leikari og engin ástæða til að óttast hann neitt frekar, af honum skín ekkert nema góðmennska og einlægni

Katla og Kristján

Ég ætla samt alveg að láta það eiga sig að horfa á Drauga Sögu aftur, jafnvel þó að það verði bráðum 40 ár síðan ég sá hana síðast.

mánudagur, 3. júní 2024

Hver er ég?

"Ég heiti Katla. Ég er 49 ára gömul, ógift, barnlaus og byrjaði í nýju starfi í morgun. Þetta eru staðreyndir um líf mitt akkúrat þessa stundina. Ég er bókhneigð, tilfinningarík, uprreisnar- og ævintýragjörn. Ég hef oft og ítrekað fundið fyrir þrýstingi frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu um hvernig ég eigi að haga mínu lífi og hvaða kökuform ég eigi að troða mér í. Það sem er svo skemmtilegt við að læra af því að lifa er að öðlast þor til þess að vera maður sjálfur og stjórna eigin för. Mitt svar við spurningunni hver er ég? er einfalt, ég er hver sú sem ég kýs að vera hverju sinni eins og mér einni hentar. Takk fyrir."

Fyrir þennan óundirbúna og uppdiktaða ræðustúf á staðnum í Masterklasstíma í kvöld áskotnuðust mér skemmtileg verðlaun sem var ekki hvað síst ánægjulegt fyrir þær sakir að ég var ekki búin að átta mig á því að tveir nemendur voru í dómarastellingum og að verðlaun væru í boði. Hnitmiðað og snarpt, fumlaus og öruggur flutningur held ég svei mér þá að hafi verið taldir kostir þessa búts og nú legg ég hreint ekki meira á ykkur hlustendur góðir. Takk fyrir.

sunnudagur, 2. júní 2024

Í nýafstöðnum forsetakosningum,

þar sem enginn frambjóðandi var frambærilegur að mínu áliti, er mikilvægt að minna sig á það jákvæða við niðurstöðu kosningana. Sú staðreynd að Halla Tómasdóttir bar sigur úr býtum er ánægjulegt fyrir þær sakir einar að það þýðir að Katrín Jakobsdóttir er ekki nýkjörinn forseti landsins. Lýkur þar með upptalningu minni á jákvæðum kostum tilvonandi forseta.

Datt ekki til hugar að fylgjast með kosningasjónvarpi gærdagsins en skemmti mér konunglega yfir Stellu í orlofi sem einhverjum árum síðar fór líka í framboð, þó ekki forsetaframboð