föstudagur, 26. ágúst 2022

Örsaga af sögu

Einn kafli eftir og mig langar ekki til að klára. Búin að fara fram úr og opna út á verönd, klappa Bjössa sem liggur makindalega á bleikum sófa, fá mér kaffi og ristað brauð með eggi og agúrku. Önnur aðalsöguhetjan er látin, sem hlýtur að flokkast sem ákveðinn endanleiki, samt vil ég ekki að bókin endi. Dásamleg saga sem hreyfir við frúnni með húmor og sorg, togstreitum lífsins, hef hlegið dátt og tárast og nú eru 12 bls eftir. Einn kafli. Endir.

Er nýlega hætt að ganga að skenknum til að sækja eða ganga frá einhverju, skenkurinn prýðir nú heimili ungra hjóna í Kópavogi. Frammi í stofu blasa vínilhillurnar tómar við mér. Það gleður mig mikið að hugsa til þess að systir mín eigi eftir að spila eyrað af mági mínum með plötusafninu, sem hefur fylgt mér um áratugi, en það er óneitanlega spes að hafa ekki eina einustu plötu í íbúðinni. Tómu naglarnir undan málverkunum plaga mig síður, helst þessi í svefnherberginu sem starir tómeygur á móti þegar ég vakna.

Sögur. Kaflaskil. Endir en líka upphaf.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo flott elsku hjartans vinkona og ég elska bloggin þín. Elska þig Sibba mín <3