Æðin í vinstri handleggnum á mér neitaði að sýna samstarfsvilja og mótmælti hástöfum er svæfingalyfið byrjaði að seytla inn í hana. Þetta er ekki góður staður heyrði ég svæfingahjúkkuna segja rétt áður en hún stakk mig í æð við úlnliðinn á mér. Bráðum verð ég sofnuð hugsaði ég og þá þarf ég ekki að velta mér upp úr því. Rétt þar á eftir fann ég þungann í augnlokunum og upplifði einu eiginlegu vímuna á nýhafinni sjúkrahúsvist.
Svaf vel og vaknaði vel. Rifin á lappir, nýkomin uppá deild, til að þramma fram og aftur ganginn með göngugrind á undan mér og hjúkrunafræðing á sitthvora hlið. Eftir annann svipaðan spássitúr var nóg komið, æddi sjálf fram ganginn með dren á hjólum í vinstri hendi og sænskan sálfræðitrylli í þeirri hægri. Milli þess sem ég gekk spítalaganginn og dormaði í spítalarúmi með gluggaútsýni gauluðu garnirnar eins og ólgusjór. Strax morguninn eftir náði ég aðal markmiðinu og gott betur, allt heila kerfið hrökk í gang. Laus við drenið en áfram á fljótandi fæði hélt ég áfram að þramma ganginn, kláraði sænska spennutryllinn og dembdi mér í norkst drama. Iðkaði þakklæti, spreðaði kurteisi, brosti eins og hamslaus bestía og lagði mig eins oft og mig lysti.
Á þriðja degi fékk ég fyrstu föstu máltíðina, steik í hádegismat takk fyrir, hökkuð í ofanálag, með brúnni sósu og allt. Fékk stuttu síðar að hringja í pabba minn og biðja hann um að sækja mig, formlega útskrifuð með hálfan bókakostinn lesinn og 25 cm minni ristil, illkynja krabbameini léttari.
Síðan er heil vika flogin hjá. Hér heima held ég uppteknum hætti, geng um gólf, spæni í mig bækur, tek lyf samviskusamlega, legg mig eftir þörfum. Mamma og pabbi nostra við umönnunarbómullina og leysa það verk sérdeilis vel af hendi, hlýjan umlykur mig og umhyggjan er þétt ofin.
Á morgun rennur stóri pakkadagurinn upp en sumar sannar gjafir er ekki hægt að pakka inn.
2 ummæli:
Ég hef stundum reynt að kvitta en ekki getað, það sem þú ert að skrifa núna er svo stórt að ég verð að setja inn stuðningsyfirlýsingu! Kær jólakveðja frá einni sem guggnaði á að blogga og fór svo meir að segja inn
Ataka saga. Ekki eru allar brekkur nioðurímóti. Gangi þér flest til gæfu. Gleðileg jól. Óli Ágústar.
Skrifa ummæli