Mamma er búin að reka mig í rúmið, ekki af því að ég sé óþekk, ég á að hvíla mig svo ég geti vakað í kvöld til að opna pakka. Þetta kallar hálf fimmtug kona umhyggju í lagi. Nú sit ég því upp við dogg í rúminu undir rauðri sæng, í rauðum náttfötum, með rauðan hitapoka. Það eru nú einu sinni jólin.
Á jólum í fyrra var ég nýflutt í nýja íbúð, fráskilin og reiðubúin að vinna bug á meinsemdum sem herjað höfðu á líf mitt í meira en áratug, hætt að berja höfðinu við steininn. Það sem mig grunaði ekki þá var að innvortis meinsemdirnar voru ekki einungis andlegar, þær voru líka líkamlegar. Meinið sem ég losnaði við fyrir viku hafði fylgt mér allann tímann, ef ekki lengur. Eftir ársvinnu í sjálfri mér, með sjálfri mér, skaut krabbameinið upp höfðinu og kannski bara á réttum tíma, ég stóð keik uppi, bein í baki, með sjónar á sjálfri mér.
Rétt eins og fyrir ári síðan þá óx mér ásveginn með þéttann vegg fjölskyldu og vina mér að baki. Ástin, hlýjan, kærleikurinn og stuðningurinn hefur verið órjúfanlegur þáttur í lífi mínu frá því ég tók stökkið, með galopin augu, og ómetanleg gjöf sem ég er svo lánsöm að vera minnt rækilega á í valhoppi mínu áfram í gegnum lífið. Fyrir það er kona þakklát og meyr á jólum sem og aðra daga.