Labbaði Laugaveginn heim eftir vinnu í gær. Þrátt fyrir rigningarrok var bærinn smekkfullur af erlendum ferðamönnum, sem er svo sem engin nýlunda. Nema í gær var stemmingin öðruvísi, fyrir utan flesta veitingastaði stóðu enskumælandi ungmenni, meirihlutinn reykjandi, þó nokkrir með glas í hönd, fyrir-partý-fílingur í haustloftinu. Svo mikill reyndar að ég fór að hugsa um sjálfa mig fyrir örfáum þónokkrum árum síðan, djammfiðringinn sem hófst á fimmtudögum, djammfiðringinn sem var settur í gang á föstudögum, djammfiðringurinn sem náði hámarki á laugardögum. Hvað með sunnudaga spyrjið þið? Það man ég ekki lengur.
Í gær sumsé arkaði
ungfrúin beinustu leiðina heim og tók til við eldamennsku. Steikti kjúklingabringur, sauð pasta í potti (en ekki hvað?) og bætti niðurskornu spergilkáli út í pottinn þann fjórum mínútum áður en suðu lauk. Skornum kjúklingabringum ásamt pasta og spergilkáli blandað saman við grænt pestó og sólþurrkaða tómata. Við myndarlegi rifum parmesan yfir og nutum vel.
Príma réttur.
Nýeldaður í gær, príma góður kaldur pastaréttur í kvöld. Fölbleik, bleik og fjólublá kerti loga eins og hér sést
Veit ekki með ykkur en á föstudags-haust-kveldi finnst mér þetta kósí enda var ég að gúffa í mig afgöngum gærkvöldsins. Sá myndarlegi var að skríða inn úr dyrunum, örþreyttur eftir að hafa skemmt háskólanemum í lyfjafræði og tónlistarnemum í Listháskóla Íslands.
Á morgun förum við í afmæli hjá barnabarninu.
Mér er þó ekki alls varnað (annað en hægt er að segja um karlinn), annað kvöld ætla ég að hitta vinkonur mínar og drekka með þeim rauðvín. Helljá!
2 ummæli:
Þú ert svo yndisleg og skemmtileg Katla.
Takk nafnlaus, hver sem þú ert, þetta er fallega sagt.
Skrifa ummæli