54 ára stundi sá myndarlegi rétt búinn að glenna upp glyrnurnar í morgunsárið, hvað er það? Hvernig í ósköpunum á svo kornung stúlka eins og ég að svara þeirri spurningu?
Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur hún margsinnis heyrt aldursmun hafðan í flimtingum í sín eyru, heyrt háð á tungum eldri kvenna, brosað að gamansemi á tungum vina, hnussað yfir biturri andúð fordóma og leyft særindum ritaðra orða að særa sig. Margsinnis velt því fyrir sér af hverju aldursmunur skiptir svona marga máli og þá helst þá sem aldrei hafa reynt aldursmun á eigin skinni.
Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur stúlkan flutt búferlum, skipt um vinnur, klippt á sér hárið og farið í skóla. Stúlkan hefur lært mikið og heilmargt um hamingju, ást og gleði. Lifað fábrotin augnablik þar sem fallegt bros og blik í auga er lífið og engin dásemd meiri en heit ást í hjarta. Stúlkan hefur líka lært að mótlæti er sjaldan langt undan og meinfýsnir vindar til sem blása henni ekki í hag. Stúlkan hefur lært að láta vinda mótlætis blása sér í brjóst hugrekki, hugrekki til að blása sjálf á særindi sem hljótast af ljótum tungum.
Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur maðurinn lætt sér yfir á annan tug. Stúlkan og maðurinn hafa lært að standa saman ekki bara í blíðu heldur þétta bilið í stríðu líka, fylla upp í vinda mótlætis með brosi og fálæti, fálæti á því hvað öðrum líður og vissu með það hvað okkur líður. Það má liggja í fleti og hugsa aumt um 54 ár og annað sem því fylgir, en þegar upp er staðið þarf að standa á eigin fótum hvursu gamlir sem þeir fætur eru.
Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur stúlkan lært og lifað að ekkert af ofantöldu hefur neitt með aldursmun að gera. Sjálf hefur stúlkan aldrei fundið fyrir aldursmun í ástinni, brosi þess myndarlega, hamingjunni eða gleðinni í hversdeginum. Og þrátt fyrir að aldursmunur sé tíður á tungum annara hefur stúlkan ekki heldur fundið neinn aldursmun í þeirri biturð, öfund og depurð sem hrjáir allar illar tungur.
Stúlkan stendur því keik enn á sínum áratug og heldur ótrauð áfram með 54 ára gamlan manninn upp á arminn, viss í sinni sök að maðurinn er eldri og stúlkan er yngri hvernig sem á það er litið.
Það er heldur engin önnur leið en áfram. Sú leið er líka óháð aldursmun.
4 ummæli:
Til hamingju með manninn þinn :-)
Hvað segir Bjartur gott? Fékk "hinn myndarlegi" ekki eitthvað frá kettinum Bjarti?
Ég er bara algjörlega undrandi mín kæra. Aldur hefur ekkert með hamingju að gera og það ætti enginn að efast um hamingju ykkar. Ég ætla að vera orðhvöss og segja skammist þeir sín sem reyna að skemma ykkar góðu samveru með illum tungum. Megi þær illu tungur bíta þá sjálfa sem stýra þeim - og hananú.
Hjartans kveðja til ykkar og haldið áfram að njóta og leyfa okkur að taka þátt í hamingju ykkar í máli og myndum. Aldur hvað ???
Og ég sem var viss um að þið væruð alveg jafnung...jahérna, það er margt sem manninum kemur við. Njótið lífsins og hvors annars áfram sem hingað til með kærri í bæinn frá okkur á Hólabrautinni.
Það munar 15 árum á tengdaforeldrum mínum og ég bara þekki ekkert mjög mörg hamingjusamari sambönd. Njótið ykkar í botn :)
Skrifa ummæli