föstudagur, 10. janúar 2014

Tíma-tal

Á nýju ári langar mig að trúa ykkur fyrir því að ég er kona með fortíð. Fortíð af fjölskyldu og vinum, kærustum og hjásvæfum, sambýlismanni og köttum. Fortíð af uppeldi og æsku, asnaprikum og axarsköftum. Fortíð af hamingju og gleði, særindum og sút, kátínu og skvaldri, sigrum og ósigrum. Það er gott að ylja sér við góðar minningar, minningar sem tengjast órjúfanlegum böndum meðan önnur bönd rofna og aðrar minningar dofna. Ég hef þó ekki áhuga á að dvelja í fortíðinni, kýs fremur að horfa til framtíðar. Fortíðarþrá getur breyst í fortíðarþráa á örskotsstundu.

Á einhverjum óljósum tímapunkti eftir að ég fór að elska þann myndarlega tók ég eftir því að tíminn í dag er stundin sem skiptir máli. Tilhlökkun til framtíðar nær ekki lengra en örfáar stundir fram í tímann, klukkutímar sem líða þar til ég nýt samvista við þann myndarlega. Nýt líðandi stundar á deginum í dag.

Ástin er mínúturnar í klukkustundunum mínum. Innihald klukkustundanna í sólarhringnum. Uppistaða sólarhringanna í vikunum. Vikunum í mánuðunum og mánuðunum í árinu. Krafturinn sem þeytir tímanum áfram og áfram, tímalaust. Vakna í janúar 2008, fer fram úr í febrúar 2009. Klæði mig í maí 2010, fer í vinnuna í ágúst 2011. Kem heim í september 2012, fer að sofa í nóvember 2013. Vakna í janúar 2014.

Tek varla eftir æðibunugangi tímans. Alsæl með ástina sem stenst tímans tönn.

4 ummæli:

Íris sagði...

Einmitt og eiginlega ekki orðum við það bætandi

Íris sagði...

Einmitt og eiginlega ekki orðum við það bætandi

Lífið í Árborg sagði...

Ég vildi óska að ég gæti tjáð mig eins vel og þú, þess vegna geri ég þín orð að mínum. Njóttu vel 2014.

Nafnlaus sagði...

Amen á eftir efninu mín kæra.Bloggaði um eitthvað í þessa átt með kærrri frá okkur Bróa.