fimmtudagur, 16. janúar 2014

Dæs

Ætlaði að vera dugleg að læra í kvöld en eftir þéttskipaðan vinnudag, pilatespúl, dásamlega máltíð og heita sturtu var ég svo löt að ég nennti ekki einu sinni að greiða á mér hárið eftir steypibaðið. Sit á sófanum í bleika sloppnum hennar mömmu með bífurnar upp á borði, læt mér líða vel. Nægur tími til að læra undir próf, ennþá. Svo sem búin að vera dugleg í kvöld; knúsa þann myndarlega, skipuleggja matseld fyrir matarboð, klappa kettinum, sötra soldið rauðvín, tala um að taka niður jólaskrautið, dæsa doldið af ánægju, fá þann myndarlega til að bera krem á fæturna á mér og nudda dálítið tærnar í leiðinni. Skítt með próf. Löngu búin að finna út úr því að stóru plönin hjá mér eru til að kollvarpa þeim. Skítt með að hárið á mér þornaði út í allar áttir ógreitt, sá myndarlegi hefur áreiðanlega séð það verra. Letin segir mér að það skynsamasta í þessari stöðu er að bæta örlítið meira í rauðvínsglasið, lesa aðeins meira af Fiskum sem hafa enga fætur, hjúfra sig þéttar að myndarlegum manni og leggja svolítinn metnað í ánægjudæsið.

3 ummæli:

Íris sagði...

Dæs

Ragna sagði...

Þú kannt svo sannarlega að lifa lífinu Katla mín. Njóttu bara endalaust :)

Nafnlaus sagði...

Eitt stórt dæææææs frá okkur Bróa