þriðjudagur, 30. desember 2008

Barna -

Á sunnudaginn heimsóttum við Pétur ömmu mína sem býr í þjónustuíbúð í Seljahverfi. Meðan á heimsókn okkar stóð bönkuðu tvær nunnur upp á til að færa ömmu minni sælgætispoka. Fallegt af þeim að gleðja gamlingjana, en mér skildist á ömmu minni þetta væri árlegur viðburður.
Þær töluðu báðar ensku. Önnur þeirra lyktaði af hvítlauk. Hún var líka skrafhreifnari. Hún spurði Pétur hvort hann væri sonur ömmu minnar. Ég tók af honum svarið og sagðist vera sonardóttir hennar. Hún spurði hvort við ættum börn og ég sagði að ég ætti ekki börn. Hún sagðist ætla að biðja fyrir mér & Pétri svo okkur myndi auðnast barna. Ég nennti ekki að segja henni ég kærði mig ekki um nein börn, svo ég kreisti fram að ég tel kurteislegt bros og hummaði hana út um dyrnar.
Mér finnst fyndið að kona sem hvorki vill stunda kynlíf né eignast börn sjálf, skuli ætla að biðja til æðri máttarvalda mér til handa í barna - jah, láni.. Ég ætti jafnvel að hafa samviskubit yfir því að aumingjans konan eyði brot af tíma sínum í þetta en æj, verði henni að því. Svarta karamellan í sælgætispokanum frá þeim var góð.

mánudagur, 29. desember 2008

Gleði-leg jól

Ég hafði hugsað mér að smella jólakveðju hér inn fyrir afmælisdag J.C. en tölvuþörfinni hefur lítið sem ekkert verið sinnt síðustu daga. Lestrar- og letiþörfinni hefur hins vegar verið sinnt af natni og alúð. Uppáhalds jólasveinninn minn er búinn að dekra við mig með faðmlögum, tá-strokum, gullhömrum, mat, drykk og gjöfum yfir hátíðarnar. Kettinum hefur einnig verið spillt með athygli og mat. Við erum sum sé búin að hafa það afskaplega gott með myndarlega manninum og fallegu afkvæmunum hans. Höfum hugsað okkur að halda því áfram fram á nýja árið.

föstudagur, 19. desember 2008

TiVi

Foreldrarnir eru í heimsókn hjá systur minni í útlöndum. Fóru fyrir viku og verða yfir áramót. Á meðan nýt ég þeirra þæginda að hafa bifreiðina þeirra til umráða. Þau lánuðu mér líka sjónvarpið sitt, sem er eins og meðalstór tölvuskjár með innbyggðum DVD-spilara. Segir maður annars innbyggður í þessu tilfelli? Í gær datt mér svo í hug að kveikja á apparatinu. Sá heilann þátt af 30 rock. Mér fannst hann leiðinlegur. Mér hefur samt fundist hann skemmtilegur þegar ég sé hann í bútum og pörtum hjá myndarlega manninum. Ég altjént lagði ekki í meira og slökkti. Lagðist í heitt freyðibað í staðinn. Mundi svo eftir DVD-diskunum sem ég á í kompunni. Svo ég ákvað að gefa apparatinu annann sjéns. Sem var ágætt því mér leiddist myndefnið sko ekki.
Þar sem ég sat í bleika sloppnum hennar mömmu, í rauða ruggustólnum hennar ömmu, og horfði á tilvonandi eiginmann minn dilla rassinum, varð mér hugsað til þess þegar fólk leigði ekki bara vídjó-spólur, heldur vídjó-tæki líka. Munið þið ekki eftir stóru, svörtu harð-töskunum sem voru utan um þau? Ég man vel eftir því þegar foreldrarnir komu heim með svona tösku í fyrsta skipti, haug af spólum, spenningnum og gleðinni og eftirvæntingunni, og fjölskyldan samanþjöppuð alla helgina að komast yfir glápið.

Í morgun átti ég erindi í gamla fjölbrautarskólann minn. Eina breytingin þar innandyra var konan á skrifstofunni, hún er komin með alveg snjóhvítt hár. Fór henni reyndar mjög vel.
Annars var það bara ég sem hafði breyst.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Jóla - jólajóla

Í gærkveldi voru jólatónleikar Söngskólans haldnir í Snorrabúð. Ég verð að viðurkenna það kom mér á óvart bæði hvað þeir voru skemmtilegir, og eins að það var troðið út úr dyrum. Ég söng ásamt 9 öðrum stúlkum ein 5 lög. Við köllumst víst nemendakór SR. Kórstjórnarnemar hafa fengið að spreyta sig á okkur á fimmtudagskvöldum það sem af er vetri, og í gær kom afreksturinn í ljós. Ég er hugsanlega ekki hlutdræg en við stóðum okkur vel. Altjént var þetta reglulega skemmtilegt.

Myndarlegi maðurinn svaraði há-degis-kalli dagsins og bauð mér í lönch á Kaffitár. Ég hallast að þeirri hugmynd að bloggið sé áhrifaríkur samskipta-máti við hann. Spurning hvað ég ætti að biðja um næst..

þriðjudagur, 16. desember 2008

Há-degi

Í hádeginu í gær fór ég í söngtíma og söng jólalög af fullum krafti. Þar á eftir borðaði ég ljúffengt smur-brauð á Jómfrúnni í góðum félagsskap.
Í hádeginu í dag fór ég aftur í söngtíma og söng fleiri jólalög af fullum krafti. Þar á eftir hitti ég myndarlega manninn á Kjarvalsstöðum, hlustuðum á Garðar Cortes syngja skemmtileg jólalög og fengum okkur lönch.

Mig er strax farið að hlakka til einhvers skemmtilegs í hádeginu á morgun.

mánudagur, 15. desember 2008

Helgin

Vinkonur - góður matur - rauðvín - mótmæli - kaffihús - smákökubakstur - jólatónlist - kaffiboð - lestur - jólakort - sjónvarpsgláp - snjór - myndarlegur maður.

Vellíðan - eftirvænting - vonbrigði, en já, helgin var afskaplega ljúf.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Mannréttindi

Fór á tónleika Amnesty í Hafnarhúsinu í gær. Í gær voru 60 ár liðin síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna var gefin út. Tónleikarnir voru reglulega skemmtilegir, ekki síst vegna mikillar fjölbreytni í dagskránni. Tilefnið er göfugt en eins og ræðan við lok tónleika minnti á, er enn langt í land að mannréttindi séu virt víða um heim. Verulega sorgleg og ljót staðreynd. Mannréttindum verður að halda á lofti, ekki síst í löndum þar sem menn hafa það gott.

Svo verð ég að segja Tómasi að Ave Maria í útsetningu Sigvalda Kaldalóns var flutt af tenór, fiðlu-, selló- og píanóleikara. Mér fannst það gaman og varð hugsað til þín.

miðvikudagur, 10. desember 2008

MSL

Magga systir mín á afmæli í dag. Í uppvextinum vorum við bara systur. Í dag er hún kær vinkona mín líka. Fyrir um 1,5 ári síðan tók hún sig til og flutti með fjölskylduna til Danmerkur. Núna fæ ég allar bökunar-ráðleggingar í sms-i. Ég er enn að reyna að venjast því að geta ekki skroppið í kaffi til hennar. Mig nefnilega vantar hana oft og ég sakna hennar mjög mikið.

Ég var svo lánsöm að geta heimsótt þau tvisvar á árinu. Í seinna skiptið hitti ég þau í París og fór í yndislegt ferðalag með þeim. Í garðinum í Versölum náði ég þessari flottu mynd af tánnum hennar.

mánudagur, 8. desember 2008

28 ár

eru liðin frá dauða mikils friðarsinna, en boðskapur hans á ennþá erindi til okkar allra!

Ja

Er víst með kvef-lufsu, bara ekki á raddböndunum. Komst að þessu í söngtíma í hádeginu. Kitlaði samt doldið í hálsinum meðan ég söng, en það gæti svo sem hafa verið þýski framburðurinn sem gerði það að verkum. Bróðir minn var búinn að vara mig við því, ég yrði látin læra þýsk ljóð í lange baner í Söngskólanum. Lange banen er sem sagt hafin.

mánudagur, 1. desember 2008

Full-veldi

Mér þótti ræða Illuga á Austurvelli sl. laugardag góð. Þar orðaði hann mínar hugsanir um önnur mánaðarmót og fleiri sem fengju reisupassann í vinnunni. Fleiri sem horfa upp á að eiga ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. Fleiri sem fóru heim til sín sl. föstudag með verri kvíðahnút í maganum en var þar fyrir.
Ég er því miður ekki undrandi á þörf fjölmiðla til að útlista því sérstaklega að einn maður hafi mætt með eggjabakka til að grýta í alþingishúsið. Ég var heldur ekki hissa á niðrandi spurningu fréttamanns RÚV um hvort hægt væri að mótmæla án lausnar. Ég er hins vegar reið yfir að ríkisstjórninni finnist sjálfsagt að sitja áfram og valtra yfir þjóðina, án nokkurrar sýnilegrar lausnar!

Desember er runninn upp og miskunnsami samverjinn Hagkaup býður jólin á láni. Ég vona innilega að þjóðin reyni frekar að halda að sér höndum, og halda þau jól sem hún hefur efni á. Ég vona enn fremur að græðgishugtak Hagkaupa um opnun allan sólarhringinn í Skeifunni, í miðri kreppu þar sem bjóða þarf þjóðinni lán til að versla, springi eins og 1000 grýtt fúlegg.

Arnarhóll í dag kl. 15:00